Uppbygging og rekstur meðferðarstofnana

Miðvikudaginn 22. janúar 2003, kl. 16:06:52 (2931)

2003-01-22 16:06:52# 128. lþ. 63.7 fundur 417. mál: #A uppbygging og rekstur meðferðarstofnana# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi EKG
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 128. lþ.

[16:06]

Fyrirspyrjandi (Einar K. Guðfinnsson):

Virðulegi forseti. Ég vil eingöngu koma hingað upp og þakka kærlega fyrir þær viðtökur sem þessi fyrirspurn mín hefur fengið. Ég varð var við það þegar ég mælti fyrir þáltill. á sínum tíma að hún fékk mjög góðar viðtökur og ég held að fólk hafi almennt áttað sig á því að það væri þýðingarmikið að menn færu vel ofan í þessi mál. Ég tel kannski ekki alveg aðalatriði hvort þessu máli ljúki fyrir eða eftir næstu áramót. Aðalatriðið er að menn komist að skynsamlegri niðurstöðu og vandi sig við þetta. Ég er hins vegar sammála því sem hv. 17. þm. Reykv. sagði áðan, það er kannski ekki alveg þörf á því að skrifa heila doktorsritgerð um málið. Ég held að hægt sé að komast af við þessa stefnumótun án þess og hvet þess vegna hæstv. ráðherra til þess að ýta á eftir málinu þó að ég ítreki að ekki skiptir öllu máli hvort þessu máli ljúki í desember eða janúar nk.