Geðheilbrigðisþjónusta við aldraða

Miðvikudaginn 22. janúar 2003, kl. 18:03:21 (2934)

2003-01-22 18:03:21# 128. lþ. 63.8 fundur 460. mál: #A geðheilbrigðisþjónusta við aldraða# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 128. lþ.

[18:03]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Í upphafi ber að þakka hv. 2. þm. Vestf. fyrir að vekja athygli á geðheilbrigðisþjónustu við aldraða, en umfram allt að vekja athygli á því að umfang þeirrar þjónustu mun vaxa mjög á næstunni við fjölgun aldraðra.

Fyrsta spurning hv. þm. snýst um hvernig við sinnum þessari þjónustu best í framtíðinni. Fyrst er rétt að draga fram að aldraðir með geðræn vandamál njóta nú þjónustu heilbrigðiskerfisins mjög víða. Margir þeir sem eru með vægari einkenni eru í heimahúsum og fá þjónustu heimahjúkrunar, en þá leið er talið skynsamlegt að nota eins lengi og kostur er. Þetta er m.a. vegna þess að flutningur á stofnanir getur valdið því að öldruðum sem þjást af geðkvilla kann að hraka. Sú aukning á fé til málaflokksins sem Alþingi samþykkti nýverið mun því nýtast þessum einstaklingum vel.

Á hjúkrunarheimilum eru fjölmargir með geðræn einkenni og er þunglyndi t.d. algengt. Þessi hópur hefur langoftast blönduð sjúkdómseinkenni og er ástæða vistunar á hjúkrunarheimili oftast þörf fyrir mikla hjúkrun vegna líkamlegra kvilla, auk minni sjúkdóma. Talið er að hag þessa hóps sé best borgið á hjúkrunarheimilum þar sem starfsfólk býr yfir færni til að sinna andlegum jafnt sem líkamlegum þörfum skjólstæðinganna.

Hópur aldraðra er svo með bráð og alvarleg geðræn vandamál og þarf sérhæfða þjónustu. Þeir einstaklingar fá nú nauðsynlega meðferð, annaðhvort á geðdeildum eða öldrunarlækningadeildum eftir eðli sjúkdómanna.

Á geðdeildum Landspítala -- háskólasjúkrahúss liggja nú margir aldraðir einstaklingar og hafa nokkrir þeirra verið þar um langan tíma. Gætu sumir þeirra mögulega fengið þjónustu á hjúkrunarheimilum. Nú eru á geðdeild á biðlista eftir innlögn á hjúkrunarheimili um 20 einstaklingar 67 ára og eldri. Á öldrunarlækningadeildum liggur jafnframt nokkur fjöldi einstaklinga með geðræn vandamál og fær meðferð á viðkomandi deildum.

Herra forseti. Hv. 2. þm. Vestf. spyr hvort slík þjónusta sé veitt á sérhæfðum geðdeildum. Leitað var upplýsinga hjá sviðsstjórum á geðsviði og öldrunarsviði Landspítala -- háskólasjúkrahúss um fyrirætlanir um breytingar á þjónustu við þennan hóp. Voru sviðsstjórarnir sammála um mikilvægi þess að auka samstarf sviðanna til að tryggja að þeir öldruðu einstaklingar sem eiga við geðræn vandamál að stríða fái ætíð sem besta þjónustu. Það mætti m.a. gera með því að koma upp þverfaglegu teymi sem sinni þessum málum og mundi fjalla um mál þeirra einstaklinga sem eru erfiðust hverju sinni. Þá mætti koma á formlegra samstarfi milli geðsviðsins og þeirra sem reka hjúkrunarheimili og aðra öldrunarþjónustu um innlagnir, ráðgjöf og fleira þess háttar. Áhugi er fyrir hendi hjá sviðsstjórunum á að gerð verði úttekt á fyrirkomulagi þessarar þjónustu.

Að lokum spyr þingmaðurinn hvort ráðherra hyggist beita sér fyrir því að slík deild verði stofnuð í nánustu framtíð. Er því til að svara að af hálfu heilbrigðisyfirvalda eru ekki uppi áform nú um opnun sérhæfðrar deildar fyrir aldraða með alvarlega geðsjúkdóma. Hér á landi ríkir skipulag sem fagfólk er ekki ósátt við, þó samstarf milli þeirra sem sinna þessum málefnum þyrfti að auka og er rétt að skoða hvernig þessari mikilvægu þjónustu væri best fyrir komið þegar til lengri tíma er litið. Það er sjálfsagt og eðlilegt að skoða ætíð hvaða lausnir gætu nýst best á hverjum tíma og áforma stjórnendur á þessu sviði að hafa með sér aukið samstarf og velta fyrir sér kostum til lengri tíma í þessu efni.

Ég tel því þetta heildarfyrirkomulag sem ég hef lýst hafa marga góða kosti og hef ekki í hyggju að gera á því stórfelldar breytingar á næstunni.