Lýðheilsustöð

Fimmtudaginn 23. janúar 2003, kl. 11:06:29 (2951)

2003-01-23 11:06:29# 128. lþ. 64.5 fundur 421. mál: #A Lýðheilsustöð# frv., ÁMöl
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur, 128. lþ.

[11:06]

Ásta Möller:

Virðulegi forseti. Hér er til umræðu frv. um lýðheilsustöð sem lagt var fram á síðasta þingi til kynningar og sent til umsagnar frá heilbr.- og trn. Það kom fram í ræðu hæstv. heilbrrh. áðan að nokkrar breytingar hafa verið gerðar á frv. frá því í vor eftir ábendingum sem komu fram í umsögnum og flestar eru þær til bóta að mínu mati.

Hugmyndir um lýðheilsustöð hafa verið í umræðunni um nokkurt skeið og má segja að nokkur einhugur sé meðal heilbrigðisstarfsmanna og þeirra sem vinna að forvörnum í landinu um að setja slíka stofnun á laggirnar þótt það þýði óneitanlega verulega uppstokkun á stjórnkerfum þeirrar starfsemi sem kemur til með að falla undir Lýðheilsustöð og að sama skapi miklar breytingar fyrir þá starfsmenn sem starfað hafa við þessi verkefni af miklum eldmóð, margir hverjir um langt árabil.

Í grein sem ég skrifaði í Morgunblaðið í september 2001 þar sem ég hvatti til þess að lýðheilsustöð yrði sett á laggirnar sagði ég m.a. eftirfarandi, með leyfi forseta:

,,Máltækið ,,betra er heilt en gróið`` felur í sér kjarna grunnhugmynda um forvarnir, hvort heldur sem fjallað er um slysavarnir eða lífshætti t.d. hreyfingu, hvíld, mataræði, streitustjórnun, neyslu tóbaks, áfengis- og annarra vímuefna sem geta ráðið líðan og heilsu manna bæði til lengri og skemmri tíma.``

Lýðheilsustöð hefur það hlutverk að leita leiða til að leiðbeina fólki um hvernig koma eigi í veg fyrir ótímabæra og ónauðsynlega heilsuskerðingu af völdum lífshátta, hegðunar, vanþekkingar eða athugunarleysis, svo og að skoða áhrif umhverfis og samfélagsaðstæðna svo sem menntunar og menningarlegrar og félagslegrar stöðu á heilbrigði. Lýðheilsustöð hefur möguleika á að samræma þekkingu og krafta þess metnaðarfulla og hugmyndaríka fólks sem hefur stýrt verkefnum á sviðum forvarna í hinum ýmsu ráðum og nefndum á þessu sviði á vegum ríkisins. Á síðustu árum hafa stjórnvöld lagt aukna áherslu á forvarnir og endurspeglast sú stefna í heilbrigðisáætlun sem samþykkt var á Alþingi vorið 2001. Til að ná þessum áherslubreytingum í heilbrigðiskerfinu þarf að endurskoða skipulag forvarna í landinu og samræma störf þeirra sem vinna á þessum vettvangi.

Í frv. því sem hér er til umfjöllunar er lagt til að starfsemi ýmissa ráða og nefnda á sviði forvarna verði færð til nýrrar Lýðheilsustöðvar. Þetta er t.d. manneldisráð sem starfar samkvæmt lögum frá 1978, tannverndarráð sem hefur verið starfrækt í heilbr.- og trmrn. frá 1983, áfengis- og vímuefnaráð sem stofnsett var samkvæmt lögum frá 1998 og tóbaksvarnarnefnd samkvæmt lögum frá 1984. Einnig er gert ráð fyrir að ýmis tímabundin verkefni sem hrundið hefur verið af stað á síðustu árum falli undir starfsemi Lýðheilsustöðvar. Ég tek það fram að sú upptalning sem ég var með rétt áðan er ekki tæmandi því fleiri ráð falla undir nýja stöð.

Þessi tímabundnu verkefni sem ég vil nefna eru m.a. Árvekni -- átaksverkefni um slysavarnir barna og unglinga sem hefur starfað frá 1997, og Heilsuefling sem er verkefni á vegum landlæknis og ráð sem hefur unnið að forvörnum gegn sjálfsvígum og hefur einnig starfað undir handarjaðri landlæknis. Þessar nefndir og ráð eru skipuð hæfu og metnaðarfullu fólki með sérþekkingu á viðkomandi sviði. Það hefur skilað góðum árangri og oft með mjög takmörkuðu fjármagni. Þessar nefndir og ráð reka skrifstofur undir starfsemi sína og hafa framkvæmdarstjóra og annað starfsfólk. Starfsemi þeirra hefur hins vegar ekki tengst formlega. Hlutverk þeirra er að sinna fræðsluátaki með kynningum og fræðsluátaki, stuðla að rannsóknum á viðkomandi sviði, veita ráðgjöf og sinna forvörnum með ýmsum hætti. Augljóslega skarast þessi verkefni og má með nokkrum rökum segja að hægt sé að nýta enn betur það fjármagn sem lagt er í þessi verkefni með aukinni samhæfingu. Við sameiningu forvarna sem hið opinbera rekur í einni miðstöð verður þó að gæta þess að hlúa að áhuga, frumkvæði og hugmyndaauðgi þeirra sem hafa starfað að þessum verkefnum og mikilvægt er að tryggja að hin nýja stöð fái notið starfskrafta þessa fólks þannig að það sjái sér fært að vinna áfram að þessum verkefnum ef það kýs svo.

Samkvæmt umsögn fjárlagaskrifstofu fjmrn. sem fylgir frv. er 165 millj. kr. varið á fjárlögum 2003 til þessara verkefna og ekki leikur nokkur vafi á því að samrekstur þeirra undir einni yfirstjórn mun leiða til betri nýtingar fjár til forvarna. Ég hef nefnt áður þá skoðun mína að húsnæði Heilsuverndarstöðvar Reykjavíkur sé tilvalið undir Lýðheilsustöðina þar sem mörg af þeim ráðum og nefndum sem ég hef nefnt hér á undan hafa þegar athvarf fyrir starfsemi sína, en eins og við vitum er húsnæðið almennt vannýtt eins og það er í dag.

Það hefur verið umræða í gangi um að Lýðheilsustöð verði staðsett utan höfuðborgarsvæðisins en ég dreg þá ályktun af umsögn fjárlagaskrifstofu fjmrn. að þau áform hafi verið lögð til hliðar, enda má segja að kostnaður við rekstur stöðvarinnar væri mun meiri einmitt vegna uppbyggingar starfseminnar þar sem gert er ráð fyrir að bak við hvert málefni verði ákveðinn fjöldi sérfræðinga til ráðgjafar og það útheimtir mun meiri kostað ef hún yrði staðsett utan höfuðborgarsvæðisins. En ég vil biðja hæstv. heilbrrh. að leiðrétta mig ef ég hef misskilið þennan þátt.

Verkefni á sviði forvarna sem eru í höndum frjálsra félagasamtaka eru ekki síður mikilvæg en þau sem stjórnvöld hafa staðið að. Hér nefni ég t.d. Geðrækt sem er samstarfsverkefni Geðhjálpar, landlæknisembættisins og Landspítala -- háskólasjúkrahúss og starfar að geðvernd. Verkefnið hefur náð miklum árangri í vitundarvakningu um geðheilsu og viðhorfsbreytingu gagnvart geðsjúkdómum. Verkefnið hefur fengið styrk á fjárlögum síðustu ára og í fjárlögum árið 2003 er m.a. 5,5 millj. kr. varið til verkefnisins. Ég veit til þess að vilji er fyrir því að þetta verkefni færist undir Lýðheilsustöð þegar hún tekur til starfa.

Ýmis önnur starfsemi er á vegum frjálsra félagasamtaka, t.d. gigtarvernd, beinvernd og hjartavernd. Við stofnun Lýðheilsustöðvar er mikilvægt að hafa að leiðarljósi að starfsemi hennar hafi ekki neikvæð áhrif á starfsemi frjálsra félagasamtaka á sviði forvarna heldur verði þvert á móti hvatning til þeirra til að vera enn virkari á sínu sviði. Því fagna ég þeirri viðbót í frv. sem hefur verið bætt við frá því í vor, þ.e. að þar er kveðið á um tengsl stofnunarinnar við slík félög. Það er hugsanlegt að við þurfum aðeins að skoða þennan þátt nánar og hnykkja enn betur á þessu því að við vitum að forvarnir í landinu hafa að mjög miklu leyti til langs tíma verið byggðar á sjálfboðaliðastarfi frjálsra félagasamtaka sem hafa í einhverjum mæli fengið fjárstuðning frá ríkinu og ég tel að það sé mjög mikilvægt að haldið sé áfram á þeirri braut að hlúa að þeirri starfsemi.

Að lokum vil ég fagna því að þetta frv. er komið til umræðu og ég mun leggja mitt af mörkum til þess að það verði að lögum fyrir vorið.