Lýðheilsustöð

Fimmtudaginn 23. janúar 2003, kl. 11:33:43 (2954)

2003-01-23 11:33:43# 128. lþ. 64.5 fundur 421. mál: #A Lýðheilsustöð# frv., LMR
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur, 128. lþ.

[11:33]

Lára Margrét Ragnarsdóttir:

Hæstv. forseti. Við ræðum frv. til laga um Lýðheilsustöð sem við öll hljótum að fagna vegna þess að lengi hefur verið kallað eftir aukinni samræmingu á störfum þeirra sem starfa að lýðheilsu eða ,,public health``. Ég hefði gjarnan vilja nefna nokkur atriði sem mér finnst koma til álita þegar við ræðum um lýðheilsustöð, atriði sem ég held að við þurfum að skoða frekar þegar málið kemur til nefndar. En ég vil fyrst og fremst endurtaka mikilvægi þess að aukin samræming verði í forvörnum hér á landi.

Á sama tíma er spurningin um umfang og eðli lýðheilsustöðvar ákveðið umhugsunarefni. Ég vil fyrst nefna þá sem helst eiga að sinna þessum störfum, samanber b-lið 3. gr., þ.e. þeir aðilar sem eiga að annast áfengis- og vímuvarnir, manneldi, slysavarnir, tóbaksvarnir og önnur forvarna- og heilsuverndarverkefni. Starf þeirra hefur mikið til verið fjármagnað af hinu opinbera en það er fjöldinn allur af sams konar samtökum sem eru sjálfboðaliðasamtök og hafa þess vegna ekki verið reiknuð með til heildarkostnaðar þegar um fjárútlát er að ræða. Það væri því forvitnilegt að vita í raun og veru hver áætlunin er yfir þá sem hafa látið í té vinnu í þessum efnum. Ég tel að það muni frekar koma á óvart en hitt hversu mikið sjálfboðaliðastarf hefur verið unnið.

Sömuleiðis vil ég spyrja hver mörkin milli landlæknis og Lýðheilsustöðvar eiga að vera. Ég hef áhyggjur af því að um ákveðna tvöföldun verði að ræða og lögin þurfi að lokum að kveða skýrar á um hvert er starf landlæknis annars vegar og hins vegar hvert hlutverk lýðheilsustofnunar eigi að vera. Landlæknir hefur eins og allir þekkja til komið dyggilega að þessum málum.

Ég vil benda á að álit um sjálfboðaliða í þessu starfi kom fram hjá Sambandi íslenskra tryggingafélaga í umsögn þeirra, dags. í júní 2002, og var lögð áhersla á að ekki yrði drepið í dróma það fjölbreytta og mikla áhugamanna- og sjálfboðaliðastarf sem þrífst hér á landi nú þegar til eflingar lýðheilsu í víðasta skilningi þess orðs.

Rætt er um að efla lýðheilsustarf í samvinnu við aðra sem að þeim málum koma. Áhugavert væri að gera yfirlit yfir það hverjir það eru sem starfa að Lýðheilsustöð. Í því sambandi vil ég fagna þeirri samþykkt sem gerð var hér í fyrra um óhefðbundnar lækningar þar sem ég var 1. flm. að og spyrja ráðherra á hvaða stigi það mál er því búið er að skipa nefnd um úttekt á þeim sem stunda óhefðbundnar lækningar en ekki hefur frést af því hvert starf nefndarinnar er komið.

Ég hef einnig áhyggjur af staðsetningu þessarar stöðvar. Ég tel að margvísleg rök mæli með því að stofnunin verði í Reykjavík þar sem þau frjálsu félagasamtök sem að lýðheilsu starfi eru staðsett þar. Það væri ekki beinlínis mjög kostnaðarsparandi fyrir þau að stofnunin yrði síðan staðsett utan Reykjavíkur. Í umsögn Læknafélags Íslands um þessi mál, sem kom í júlí á síðasta ári, var sneitt að þessari hugmynd þar sem félagið segir að margvísleg rök mæli með því að þessi stofnun verði staðsett úti á landi, t.d. á Akureyri, ef það þjónar pólitískum markmiðum stjórnvalda. Og þar með er það eiginlega neglt niður af þessu fagfélagi að það álíti að það séu fyrst og fremst pólitísk sjónarmið sem ríki þegar verið er að ræða um staðsetningu stöðvarinnar.

Ég vil einnig gjarnan skoða það hvernig eigi að skipta niður fjármunum til hinna ýmsu verkefna; áfengis- og vímuvarna, manneldis, slysavarna, tóbaksvarna og annarra. Við sem höfum setið á þingi í einhvern tíma vitum ósköp vel að þegar við tökum á móti t.d. í heilbrigðisnefnd sérstökum beiðnum um aukaframlög til einstakra félaga, þá þurfa þau að berjast með kjafti og klóm fyrir tilverurétti sínum. Hætta er á því að þessi félög hreinlega hverfi eða verði undir í starfsemi sinni. Því þarf að gæta þess tryggilega að þau félög sem ekki hefur borið svo mikið á og hafa ekki haft mikinn auglýsingastyrk geti komið sér á framfæri hvar sem er og hvenær sem er, og fái það sem þeim ber.

Ég vil einnig nefna að slysavarnaráð skuli vera Lýðheilsustöð, heilbrigðisyfirvöldum og öðrum til ráðuneytis um allt sem lýtur að slysavörnum og að samræmd skrá skuli varðveitt hjá landlækni. Þetta kom fram í frv. á síðasta þingi. Ég er sammála umsögn tryggingafélaganna um að þetta ákvæði sé öldungis ófullnægjandi, einkum þó er varðar starfrækslu svonefndrar slysaskrár Íslands sem vistuð er hjá landlæknisembættinu. Væntanlega er átt við samræmda slysaskrá. Ég vil fara mjög gætilega í þessum efnum. Hér er verið að ræða um mjög persónulegar upplýsingar og allt sem fellur undir mjög persónulegar upplýsingar er nokkuð sem ég hef goldið varhuga við ítrekað í þessum ræðustól.

Almennt vil ég segja að ef vel verður staðið að stofnun Lýðheilsustöðvar og samhæfing verði aukin í tiltölulega góðu jafnvægi innbyrðis og við áhugamannafélög þá muni þetta verða okkur til góðs og efla heilsu og forvarnastarf. Ekki veitir af eins og við höfum reynt að undanförnu. Við getum tekið offituvandamál Íslendinga sem dæmi og fylgikvilla sem því fylgir, reykingar og vímuefnaneyslu almennt og almennt manneldi sem því miður hefur þróast þannig í hinum vestrænu löndum að þeir einstaklingar sem eiga uppruna sinn í vestrænum löndum eiga hreinlega erfitt með að laga sig að nýjum matarvenjum. Þetta segi ég vegna þess að ég hef kynnt mér svolítið þessi svið. T.d. má nefna það að ákveðnir þjóðflokkar í heiminum hafa ekki þau gen til að bera, svo dæmi sé tekið, sem geta ráðið við neyslu á t.d. áfengi og sykurafurðum, og þar vil ég nefna þjóðflokka eins og inúíta og indíána.

Ég tel að stofnun Lýðheilsustöðvar sé nauðsynleg, það er brýnt verkefni en það er jafnframt nauðsynlegt að gæta hófs og jafnvægis og fara varlega með þær upplýsingar sem henni berast.