Lýðheilsustöð

Fimmtudaginn 23. janúar 2003, kl. 11:51:24 (2956)

2003-01-23 11:51:24# 128. lþ. 64.5 fundur 421. mál: #A Lýðheilsustöð# frv., KF
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur, 128. lþ.

[11:51]

Katrín Fjeldsted:

Herra forseti. Við ræðum hér frv. til laga um Lýðheilsustöð sem komið er fram á nýjan leik með smávægilegum breytingum. Gerð hefur verið grein fyrir þeim breytingum í umræðum og ætla ég ekki að endurtaka þær.

En það er alveg ljóst að margir kostir eru fólgnir í því að koma forvarnastarfsemi af ýmsum toga undir einn hatt. Við hljótum öll að geta verið sammála um það. Hvernig það er gert er kannski annað mál en það skiptir mestu að það sé gert á vitrænan hátt sem samstaða getur náðst um. Ég tel að með þessu frv. sé einmitt leitast við að gera það.

Verkefnin sem um er að ræða eru samkvæmt núgildandi lögum um heilbrigðisþjónustu fyrst og fremst ætluð heilsugæslunni. Ég vil byrja á því að spyrja hæstv. heilbrrh. hvort hann telji að lögum um heilbrigðisþjónustu þurfi að breyta hvað þetta varðar eða hvort orðalag verkefna í 19. gr. laganna sé það rúmt að þetta geti fallið undir það.

Ég sat í nefnd sem átti að fjalla um framtíðarhlutverk Heilsuverndarstöðvar Reykjavíkur. Hún skilaði af sér fyrir tæpum sex árum til þáv. heilbrrh., forvera núv. ráðherra. Þar komu fram ýmsar tillögur sem sumum hverjum hefur verið hrundið í framkvæmd en tillögur nefndarinnar, sem skilaði af sér skýrslu undir heitinu Heilsuverndarstöðin á nýrri öld, voru eftirfarandi:

,,1. Í Heilsuverndarstöðinni verði miðstöð upplýsinga, fræðslu og þróunar á sviði heilsuverndar til stuðnings heilsugæslu í víðtækustu merkingu þess orðs.

2. Í Heilsuverndarstöðinni verði aðetur fagráða á hinum ýmsu sérsviðum heilsuverndar.

3. Landlæknir flytji í Heilsuverndarstöðina og verði falið að tryggja faglegt samstarf og samvinnu fagráðanna.

4. Áfengis- og vímuvarnaráð, manneldisráð, slysavarnaráð, tannverndarráð og tóbaksvarnanefnd gegni hlutverki fagráða hvert á sínu sérsviði og verði þeim fengin aðstaða í Heilsuverndarstöðinni.

5. Almenn mæðravernd verði flutt á heilsugæslustöðvar og til sjálfstætt starfandi heimilislækna. Áfram verði starfrækt mæðradeild í Heilsuverndarstöðinni. Teknar verði upp samningaviðræður við kvennadeild Landspítalans um samvinnu og verkaskiptingu með það fyrir augum að stofnuð verði sameiginleg miðstöð mæðraverndar í Heilsuverndarstöðinni. Þar fari fyrst og fremst fram sérhæfð mæðravernd en einnig almenn meðan þurfa þykir.

6. Almenn ungbarna- og smábarnavernd verði flutt á heilsugæslustöðvar og til sjálfstætt starfandi heimilislækna. Áfram verði starfrækt sérhæfð ungbarna- og smábarnavernd en einnig almenn meðan þurfa þykir.

7. Heimahjúkrun flytjist alfarið til heilsugæslustöðva.``

Ég ætla síðan ekki að tína upp fleiri af þessum atriðum en í grófum dráttum eru þessi atriði öll í frv. um Lýðheilsustöð og nokkrum af þeim hefur þegar verið hrundið í framkvæmd eins og ég sagði áðan. Geðrækt hefur reyndar verið bætt við, réttilega. Í áðurnefndri skýrslu var reyndar tiltekið að geðrækt væri eitt af verkefnum Heilsuverndarstöðvarinnar.

Það er ljóst að fagráð og starfsemi af þessu tagi þarf húsnæði. Á það hafði verið lagt mat við þessa vinnu. Það var gert ráð fyrir einum 300 fermetrum fyrir fagráðin og 600 fermetrum fyrir landlæknisembættið, 1.200 fermetrum fyrir sameiginlegt rými, bókasafn, fundarsali, mötuneyti o.s.frv. Starfsmannafjöldi áfengisvarnaráðs var þá fjórir, manneldisráðs tveir, tannheilsudeildar tveir, tóbaksvarnanefndar einn og heilsueflingar einn.

Með því að koma þessu saman sáu menn auðvitað fyrir sér að farið yrði betur með fjármuni og skattfé almennings, þ.e. að það mætti samnýta ýmsa skrifstofuvinnu. Ég held að menn líti svo á að með því að færa starfsemi af þessu tagi saman sé auðvitað verið að því. Hins vegar kemur fram í umsögn fjmrn. um frv. að varanlega eigi það að auka útgjöld ríkissjóðs um 18 millj. kr. á ári, að meðtöldum kostnaði við landsnefnd um lýðheilsu.

Ég verð að segja að ef maður lítur á heilbrigðisþjónustuna í heild sinni þá höfum við ekki varið stórum hluta þeirra fjármuna í heilsuvernd eða fyrirbyggjandi starf. Ég held að það sé kominn tími til að gera það og taka myndarlegt skref þar. Ég vænti þess að með þessu frv. séu menn að því. Það þarf metnað í starf af þessu tagi, það þarf mannafla í rannsóknir, áróðursmál og sérfræðiverkefni. Það þarf tengingu við sambærilegar stofnanir erlendis. Það þarf menntun og kennslu, útgáfu, sjálfstæðar rannsóknir. Það þarf að vera hægt að ráða hæfustu fagmenn á sviði heilbrigðisvísinda í þetta starf.

Ég held að það hljóti að vera okkur metnaðar- og kappsmál að verja vaxandi hluta kostnaðar til heilbrigðisþjónustu í forvarnir, á skal jú að ósi stemma.

Hvað staðsetningu á þessari starfsemi viðvíkur þá hef ég svo sem ekki afdráttarlausar skoðanir á því en vísa á Heilsuverndarstöðina á nýrri öld sem ég minntist á áðan. Það er ljóst að þar er húsnæði fyrir hendi.

Þá langar mig að minnast á heitið Lýðheilsustöð. Það fer óskaplega fyrir brjóstið á mér, kannski ekki síst vegna þess að hér í landi voru lög um heilsuvernd. Þau hafa verið felld úr gildi og má segja að orðið ,,Heilsuverndarstöð`` sé laust til umsóknar. Það er hús, bygging í Reykjavík sem heitir Heilsuverndarstöð Reykjavíkur eða Heilsuverndarstöðin sem allir Íslendingar þekkja. Orðið ,,heilsuvernd`` er tamt og það skilja flestir ef ekki allir. Það skilst mun betur en orðið ,,lýðheilsa``. Mér fyndist einfaldara --- ef mönnum finnst einhver blæbrigðamunur á þessum orðum, en menn hafa þá búið sér hann til --- að menn breyttu merkingu orðsins ,,heilsuvernd`` í þá átt sem menn telja að þurfi til að það rúmi þessa starfsemi. Heilsuverndarstöð og heilsuvernd finnast mér miklu fallegri orð á sama hátt og ég vil að Esjan heiti áfram Esja en ekki Borgarfjall eða Reykjavíkurfjall, Kjalarnesfjall eða eitthvað slíkt. Nóg hefur nú verið ruglað með nafnið á Borgarspítalanum sem hefur síðan fengið að heita Sjúkrahús Reykjavíkur, Landspítalinn í Fossvogi og ég veit ekki hvert framhaldið verður þar á. En ég er nú nægilega gamaldags í mér til að kalla hann enn þá Borgarspítalann og Esjuna enn þá Esju. Ég legg til að við séum frekar íhaldssöm í orðanotkun og gleymum ekki góðum orðum eins og heilsuvernd.

Með þessu frv. er verið að leiða saman verkefni sem nú er sinnt annars staðar. Ég er mjög jákvæð gagnvart þessu frv. og ánægð með að það skuli komið fram og vona að við náum að afgreiða það á þessu þingi. Ég vil undirstrika það sem ég sagði áðan, að við eigum ekki að sjá ofsjónum yfir því að veita fé til forvarna. Auðvitað má velta fyrir sér, eins og hv. þm. Pétur H. Blöndal gerði áðan, hvort forstjóri og fjármálastjóri sé einmitt besta aðferðin til þess að stýra svona stofnun. Alla vega finnst mér mjög jákvætt að efla þennan geira. Ég styð það.