Lýðheilsustöð

Fimmtudaginn 23. janúar 2003, kl. 12:08:24 (2959)

2003-01-23 12:08:24# 128. lþ. 64.5 fundur 421. mál: #A Lýðheilsustöð# frv., heilbrrh.
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur, 128. lþ.

[12:08]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir góðar umræður og góðar undirtektir við frv. Það fer til heilbr.- og trn. eins og fram hefur komið og ég treysti nefndinni mjög vel til að fara vel yfir frv. og fara ofan í einstök atriði þess en ætla að gera örfá atriði að umtalsefni sem komu fram í umræðunum.

Það eru í fyrsta lagi tengsl slíkrar stofnunar, ef hún rís, við landlæknisembættið. Ég tel auðvitað einboðið að þau tengsl séu náin. Landlæknisembættið er grundvallarstofnun í heilbrigðiskerfinu og hefur haft frumkvæði að ýmsum ágætismálum á sviði forvarna og hefur fólk á þess vegum sinnt því af áhuga. Ég tel reyndar að meginhlutverk landlæknisembættisins sé eftirlitshlutverkið og ráðgjöfin við heilbrrn. Það eftirlitshlutverk er risavaxið verkefni sem hefur vaxið mjög með hverju árinu sem líður þannig að það verkefni hlýtur ætíð að vera grundvöllurinn í starfi landlæknisembættisins en það er einboðið að Lýðheilsustöð verður að hafa gott samstarf við það embætti.

Hv. þm. Ásta Möller kom inn á staðsetningu stöðvarinnar en það er ekkert í frv. sem segir til um staðsetningu stöðvarinnar. Hún nefndi Heilsuverndarstöðina. Frv. er ekki hugsað út frá ákveðnu húsi og er ekki hugsað þannig að meiningin sé að fara að rífa upp stofnanir sem starfa á þessu svæði en hins vegar vil ég ekki með frv. útiloka að einhverjir þættir þessa máls geti verið utan höfuðborgarsvæðisins en það er ekki meiningin með frv. að fara að rífa upp með rótum fólk og stofnanir sem hafa starfað hér og setja þær niður annars staðar. Ég veit að þetta mál hefur verið til umræðu og vil því að þetta komi fram hér, en hins vegar er með frv. eins og ég segi ekki lokað fyrir það að einhverjir þættir málsins geti verið utan höfuðborgarsvæðisins.

Nokkrar ádeilur komu fram út af því að frv. gerði ekki ráð fyrir sparnaði. Það er alveg rétt, það gerir ekki ráð fyrir því. Það gerir þvert á móti ráð fyrir því að það hagræði sem gæti verið af samræmingu þeirra aðila og samrekstri renni til forvarna. Ég vona svo sannarlega að frv. verði til þess að auknir fjármunir renni til forvarna því að í því er mesti sparnaðurinn í heilbrigðiskerfinu fólginn og það hlýtur hv. 10. þm. Reykv., Pétur Blöndal, að vera sammála mér um, að vekja menn til umhugsunar og vekja menn til þess að rækta sjálfa sig og heilsu sína eins og ég veit að hv. þm. gerir daglega og er til fyrirmyndar hvað það snertir. Þar er mestur sparnaðurinn fólginn. Ég tel að einhverjum milljónum í slíkt sé vel varið og komi margfalt til baka í heilbrigðiskerfinu. Þess vegna er ekki gert ráð fyrir að af þessu verði beinn sparnaður en ég er sannfærður um að þetta skipulag er hagkvæmt. Þörf er á t.d. að ráða fjármálastjóra yfir þeim fjármunum sem þarna verða því að þetta eru verulegir fjármunir og ekki sama hvernig þeim er varið án þess að ég sé að saka nokkurn um að hafa varið þeim illa til þessa.

Hér hefur verið rætt um sjálfboðaliðasamtök og hlutverk þeirra og ég er sammála því að hlutverk þeirra hlýtur að verða verulegt. Það er alls ekki ætlunin með þessu skipulagi að draga úr frumkvæði sjálfboðaliðasamtaka á sviði lýðheilsu.

Rætt var um óhefðbundnar lækningar og hvar það starf væri á vegi statt. Verið er að undirbúa það starf og ég hef fengið Guðmund Sigurðsson lækni til að veita því starfi forstöðu og hann er að undirbúa það á vegum ráðuneytisins. Ég vona að það fari af stað af fullum krafti. Reyndar er búið að undirbúa nefndarstarfið núna um nokkurn tíma hvað varðar óhefðbundnar lækningar og framkvæmd þeirrar þál. sem fjallar um þær.

[12:15]

Hér voru einnig mælt almenn varnaðarorð um meðferð upplýsinga. Ég tek þeim ábendingum. Við höfum ætíð reynt að tryggja persónuupplýsingar sem best, að aðgangur að þeim sé samkvæmt þeim lögum og reglum sem um þær eru settar.

Þá var einnig spurt hvernig þetta fyrirkomulag væri á Norðurlöndum. Getið er um það í greinargerð frv. að í Danmörku og Noregi hafa verið settar á stofn sérstakar stofnanir sem sinna lýðheilsu. Þessi stofnun er í anda þeirrar hugsunar.

Einnig var að því spurt, það var hv. 14. þm. Reykv. sem spurði, hvort breyta þyrfti lögum um heilbrigðisþjónustu vegna þessa frv. ef að lögum verður. Ekki er talið að þess þurfi en það er auðvitað atriði sem heilbr.- og trn. gæti skoðað nánar. Við álítum að þess þurfi ekki.

Varðandi nafnið á þessari stofnun er þetta að vísu, eins og kemur fram í greinargerðinni, þýðing á enska heitinu ,,public health``. Auðvitað er heilsuvernd ágætisorð. Heilsuverndarstöð er vel þekkt orð og ágætt. Þetta er smekksatriði.

Það hefur verið deilt á að í þessu felist ákveðin launastefna, það sé áætlað ríflega fyrir launum forstjóra og fjármálastjóra. Þarna er um laun og launatengd gjöld að ræða og vonandi tekst að ráða yfir stofnunina fólk á sanngjörnum kjörum. Við höfum metnað til þess að fá að þessari stofnun gott fólk. Ef það er ríflega áætlað er það af því að við höfum metnað til að fá gott fólk að stofnuninni. Það er auðvitað þáttur í því sem hv. 17. þm. Reykv. kom inn á, hvort unnið væri að málinu af metnaði. Ég get játað því. Við höfðum auðvitað heilbrigðisáætlun til hliðsjónar þegar frv. var samið. Það er sprottið af þeim metnaðarfullu markmiðum sem þar er að finna. Ég hef mikinn metnað fyrir hönd þessarar stofnunar, ef hún rís, og mér finnst að hún gegni afar mikilvægu hlutverki í heilbrigðisþjónustunni en sé jafnframt að feta sig áfram inn á leið forvarnanna sem ég tel afar mikilvæga. Ég verð var við það hjá heilbrigðisstarfsfólki að það er mjög mikill áhugi á þessum málum, og m.a. hefur verið stofnað félag um lýðheilsu sem hefur starfað af krafti síðan það var stofnað og því ber að fagna.

Ég vona svo sannarlega að þetta frv. verði að lögum og að við getum tekið á forvörnum hér með metnaði. Það skilar sér, bæði í bættri líðan fólks og í sparnaði í heilbrigðiskerfinu þegar til lengdar lætur. Ég er alveg sannfærður um að það er ekkert eitt atriði sem skilar sér betur en að efla forvarnastarfið í landinu.