Lyfjalög og læknalög

Fimmtudaginn 23. janúar 2003, kl. 12:42:43 (2965)

2003-01-23 12:42:43# 128. lþ. 64.6 fundur 423. mál: #A lyfjalög og læknalög# (lyfjagagnagrunnar) frv., heilbrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur, 128. lþ.

[12:42]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (andsvar):

Herra forseti. Í fyrsta lagi var spurt hver aðkoma Persónuverndar hefði verið að samningu frv. Haft var samráð við þá. Það voru haldnir bókaðir fundir með fulltrúum Persónuverndar þegar frv. var samið. Hins vegar kom það í ljós þegar gengið hafði verið frá frv. að Persónuvernd hafði frekari athugasemdir og hefur hún sent inn bréf í nokkrum liðum sem mér fannst þá rétt að heilbr.- og trn. fengi. Ég hef ekki á móti því að tillit sé tekið til þeirra og fulltrúar ráðuneytisins munu gera nefndinni grein fyrir því þegar nefndin fjallar um málið. Ég tel ábendingar þeirra réttmætar og að rétt sé að taka tillit til þeirra.

Síðan var spurt um samvinnu heilbrigðisstarfsfólks og aðstöðu lækna til þess að fá að vita lyfjasögu sjúklinga ef svo má segja. Ég fylgdist með umræðum og ályktunum frá fundi lækna um þetta efni og þær eru mjög athyglisverðar. Ég er tilbúinn að skoða þau mál. Mér er kunnugt um að læknar eru tilbúnir til samstarfs. Ég vil hafa samráð við þá og forustu þeirra. Ég tel rétt að gera það því að læknar gegna auðvitað lykilhlutverki hvað þetta snertir. Ég vil lýsa því yfir hér að ég vil vinna með heilbrigðisstarfsfólki, bæði læknastéttinni og öðrum að þessum viðfangsefnum.