Lyfjalög og læknalög

Fimmtudaginn 23. janúar 2003, kl. 12:48:42 (2968)

2003-01-23 12:48:42# 128. lþ. 64.6 fundur 423. mál: #A lyfjalög og læknalög# (lyfjagagnagrunnar) frv., ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur, 128. lþ.

[12:48]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Við ræðum frv. til laga um breytingu á lyfjalögum og læknalögum. Ég þarf ekki að hafa mjög langt mál um frv. þar sem ræðumenn á undan mér hafa farið mjög ítarlega yfir eðli málsins og hvað það felur í sér. Einnig hafa fengist svör við spurningum sem vöknuðu á fundi heilbr.- og trn. í morgun þegar fjallað var um lyfjamál. En ég vil ítreka að auðvitað er mjög mikilvægt að persónuverndar verði gætt vel þegar gagnagrunnar sem þessir eru annars vegar.

Af því að ég ætla ekki að endurtaka það sem búið er að segja á undan mér þá langar mig aðeins til að nefna nokkur atriði sem koma fram á vef Tryggingastofnunar um frv., þ.e. hvernig þessi gagnagrunnur getur gagnast Tryggingastofnun vel og þeim stofnunum sem honum er ætlað að sinna sem ég tel mjög mikilvægt.

Eins og menn rekur e.t.v. minni til fór Ríkisendurskoðun fram á það í skýrslu 1997 að aðgangur Tryggingastofnunar að upplýsingum um lyfjanotkun og lyfjakostnað yrði bættur þannig að Tryggingastofnun gæti sinnt hlutverki sínu hvað varðar eftirlit með lyfjakostnaði og tillögugerð til ráðherra m.a., en hann lagði þá einmitt til að persónuvernd sjúklinga væri vel tryggð.

Atriðið sem ég tel mjög mikilvægt að Tryggingastofnun geti sinnt og unnt verður að gera með þessum grunnum þegar þetta frv. verður að lögum sem ég geri nú ráð fyrir að verði, er að þá verður hægt að fá heildstæðar upplýsingar um lyfjanotkun landsmanna, þ.e. þeirra sem eru utan sjúkrahúsa og hvernig greiðsluskipting almannatrygginga og landsmanna er á lyfjum sem afgreidd eru samkvæmt lyfseðli. Þá er hægt að greina lyfjakostnað og greiðslubyrði landsmanna eftir sjúkdómum, kyni og aldri. Það eru ákaflega mikilvægar upplýsingar þegar yfirvöld eru að taka ákvarðanir um greiðsluþátttökukerfi almannatrygginga og þegar menn eru að endurskoða það og meta. En þetta eru upplýsingar sem hafa ekki getað legið fyrir hingað til.

Einnig er annað sem ég tel líka mikilvægt og það varðar reglur um lyfjakostnað og greiðslur velferðarkerfisins vegna lyfja til sjúklinga, þ.e. endurgreiðslureglur. Hingað til hafa sjúklingar þurft að halda til haga öllum kvittunum vegna lyfjakostnaðar eða þá fara í þau apótek sem þeir hafa verslað við til að fá þær upplýsingar. En með þessum grunni, verði hann að veruleika, er hægt að veita þessu fólki mun betri þjónustu. Það getur komið til Tryggingastofnunar og undirritað beiðni um að allar upplýsingar um útlagðan kostnað vegna lyfja verði kallaðar fram og viðkomandi getur síðan fengið endurgreitt samkvæmt því. Þetta er auðvitað mikið hagræði fyrir þá sjúklinga sem fá endurgreitt vegna mikils lyfjakostnaðar.

Síðan er hægt að ná þarna yfirsýn yfir ávísunarvenjur lækna. Það er einnig mikilvægt og kom fram í umræðunni um misnotkun lækna, þ.e. óhóflegar ávísanir vegna lyfja til fíkniefnaneytenda. Það er mjög mikilvægt að geta kallað þær fram ef ástæða er til, náttúrlega þá kannski í undantekningartilvikum. Sömuleiðis þegar menn skoða stöðugt aukinn lyfjakostnað hins opinbera að þá sé hægt að vega og meta hvers vegna þessi aukni kostnaður er til kominn. Liggur hann í nýjum og dýrum lyfjum eða er orsökin sú að verið er að yfirfæra af ódýrari lyfjum yfir á dýr sem bæta kannski ekki neinu við eldri lyfin?

Síðan er eitt til viðbótar sem ég tel vera mikilvægt að hægt sé að gera eftir að þessi grunnur verður að veruleika og það er að fá upplýsingar, að vinna úr gagnagrunninum upplýsingar sem menn geta notað til mótvægis við öfluga markaðssetningu lyfjafyrirtækja. Það er verið að gera á Norðurlöndunum veit ég og víða annars staðar í Evrópu er verið að vinna slíkt á vegum hins opinbera til mótvægis við markaðssetningu lyfjafyrirtækja og það held ég að við þurfum að skoða hér. Því hefur ekki verið sinnt hérlendis. Menn hafa kannski ekki haft tök á því vegna þess að þeir hafa ekki haft aðgang að upplýsingum og sömuleiðis ekki fjármuni til þess. Ég tel að það sé mjög mikilvægt að hið opinbera komi með mótvægi við markaðssetningu lyfjafyrirtækja á lyfjum.

Ég mun auðvitað koma að þessu máli þegar það kemur í nefndina og fagna því að frekari óskir skuli hafa komið frá Persónuvernd. Ég tel aldrei að við förum of langt í persónuverndinni þegar svona mál eru til umfjöllunar.