Úthlutun á byggðakvóta

Fimmtudaginn 23. janúar 2003, kl. 13:49:04 (2974)

2003-01-23 13:49:04# 128. lþ. 64.94 fundur 367#B úthlutun á byggðakvóta# (umræður utan dagskrár), SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur, 128. lþ.

[13:49]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Þegar farið er yfir reglugerð sjútvrn. um nýjustu úthlutun byggðakvóta hljómar upptalningin, og þar með mat stjórnvalda á því hvar vandi steðjar að, svona:

Eitthvert smotterí fer til sjávarbyggða á Suðurlandi og Suðvesturlandi, smotterí til sjávarbyggða frá Akranesi til Snæfellsness, til sjávarbyggða við syðri hluta Vestfjarða, Vesturbyggðar og Tálknafjarðar, til sjávarbyggða við nyrðri hluta Vestjarða, Ísafjarðarbæjar, Bolungarvíkur og Súðavíkur, til sjávarbyggða við Húnaflóa, til sjávarbyggða við Skagafjörð og Siglufjörð, til sjávarbyggða við Eyjafjörð og Grímsey, til sjávarbyggða við Skjálfanda og Axarfjörð, til sjávarbyggða á Norðausturlandi frá Raufarhöfn til Borgarfjarðar, til sjávarbyggða á miðfjörðum Austurlands frá Seyðisfirði til Fjarðabyggðar, til sjávarbyggða á suðurfjörðum Austurlands til Hornafjarðar, og að lokum til Vestmannaeyja.

Herra forseti. Það er vandi allan hringinn. Og það sem úthlutað er er klipið af heildarúthlutun þannig að sumir staðir sem fá vegna vanda sem hefur skapast vegna samdráttar í sjávarútvegi, sem er réttlætingin fyrir þessari handstýringu, fá samt minna en af þeim var tekið. Landið er sem sagt allt undir, vandi allan hringinn samkvæmt úrskurði ráðuneytisins. Þetta er sem sé almennur vandi, herra forseti, og ríkisstjórnin hefur sýnt okkur úrræði sín. Svona vill hún taka á almennum vanda.

Einu sinni hafði orðið byggðakvóti yfir sér þekkilegan blæ en nú tengist það helst hugtökum eins og spillingu og mismunun. Það eru þekkt örlög opinberra skömmtunarkerfa, herra forseti. Þessi ráð duga ekki. Ráð ríkisstjórnarinnar duga ekki.