Úthlutun á byggðakvóta

Fimmtudaginn 23. janúar 2003, kl. 13:51:13 (2975)

2003-01-23 13:51:13# 128. lþ. 64.94 fundur 367#B úthlutun á byggðakvóta# (umræður utan dagskrár), ÁRÁ
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur, 128. lþ.

[13:51]

Árni R. Árnason:

Herra forseti. Það er ekkert óeðlilegt að þær úthlutanir sem hér hafa farið fram til að bæta mönnum eða fyrirtækjum og byggðarlögum aflamissi og atvinnumissi þyki mikið álitaefni og komi til umræðu. Það er eðlilegt. Þess ber þó að geta að þær aðferðir sem hafa verið viðhafðar virðast betur en áður mæta þeirri kröfu um slíkar athafnir að vera gegnsæjar, að menn viti sem mest fyrir fram um þær aðferðir sem miðað verður við og geti jafnvel áttað sig í aðalatriðum á því til hvers muni leiða. Það er hins vegar meginatriði í þessu efni að við áttum okkur á því að orsökin er samdráttur afla alveg frá því fiskveiðistjórnarkerfið var tekið upp. Raunar frá því að vísindamenn okkar við hafrannsóknir bentu okkur á fyrir nærri þremur áratugum að við værum að ganga of langt í veiðum og ef við tækjum okkur ekki á stefndi beint í ofveiði.

Það hefur reynst rétt og við höfum alla tíð síðan verið að súpa seyðið af því. Ég hygg að enginn geti sagt enn þann dag í dag að við höfum náð þeim árangri að byggja upp veigamesta stofninn, þorskstofninn, og það er einmitt verðmæti hans sem sýnir sig aftur og aftur sem ástæða þess að það er gripið til þessara byggðaúthlutana. Engar aðrar tegundir hafa haft nein viðlíka áhrif.

Ef menn álíta sem svo að tilflutningur aflaheimilda sé aðalskelfirinn verð ég að viðurkenna að ég held að það séu aðeins aukaáhrif. Meginástæðan er samdráttur afla og það byggir að mestu á samdrætti aflaheimilda. Lengi vel var ekkert farið eftir ráðgjöf vísindamanna. Aflaheimildir voru hærri en vísindamenn lögðu til og aflinn enn þá meiri, lengst af.

Fyrir fáum dögum heyrði ég, herra forseti, að við mundum á skömmum tíma hafa tekið u.þ.b. milljón tonn af þorski umfram það sem ráðlagt var. Hvar skyldi þá vandinn liggja eða ástæður hans? Ég tel að hann sé þarna en ég tel að dreifing þessara byggðakvóta sé skárri en verið hefur undanfarin ár.