Úthlutun á byggðakvóta

Fimmtudaginn 23. janúar 2003, kl. 14:05:06 (2981)

2003-01-23 14:05:06# 128. lþ. 64.94 fundur 367#B úthlutun á byggðakvóta# (umræður utan dagskrár), sjútvrh.
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur, 128. lþ.

[14:05]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen):

Herra forseti. Þetta hefur verið um margt athyglisverð umræða, annars vegar skammast menn út í markaðslausnir og hins vegar skammast menn út í sértækar aðgerðir. Það er vandlifað í þessum heimi, svo sem ekkert í fyrsta skipti.

Við ræðum viðbrögð vegna almenns samdráttar sem kemur misjafnlega niður þar sem byggðirnar hafa mismunandi möguleika til mótvægisaðgerða.

Þessi úthlutun hefur verið mjög gagnsæ. Hv. þm. Jón Bjarnason dró inn í umræðuna gagnrýni á úthlutun Byggðastofnunar. Þau atriði sem þar komu fram eiga alls ekki við um þessa úthlutun. Í þessu tilfelli var úthlutunin auglýst og í auglýsingunni fylgdu þau atriði sem notuð yrðu til þess að meta umsóknirnar. Það er rétt sem fram hefur komið, það þarf að meta umsóknir í tilfelli eins og þessu. Það hefur verið gert á mjög hlutlægan hátt af starfsmönnum ráðuneytisins og Fiskistofu sem unnu þetta verk, og unnu það, eins og komið hefur fram, á tiltölulega stuttum tíma. Það sýnir einfaldlega að fólkið í ráðuneytinu og Fiskistofu er starfi sínu vaxið.

Ef menn vilja hafa sértækar aðgerðir hljóta þeir að úthluta á einhverjum tilteknum forsendum. Ef menn vilja hafa einhverjar aðrar forsendur en hér hafa verið notaðar --- ég hef ekki heyrt gagnrýni á þær --- væri ágætt að heyra þá gagnrýni. Ég varð ekki var við mikla gagnrýni á það þegar úthlutunin var kynnt upphaflega þar sem kynnt var hvað ætti að fara til einstakra svæða. Það var ekki gagnrýnt. Hins vegar átti ég auðvitað alltaf von á því að þegar farið yrði að úthluta á grundvelli 600 umsókna til 60 aðila mundu, herra forseti, auðvitað þeir sem ekkert fengju vera óánægðir og jafnvel, herra forseti, þeir sem fengju mundu líka vera óánægðir því þeir hefðu viljað fá meira.