Fjárhagslegur aðskilnaður útgerðar og fiskvinnslu

Fimmtudaginn 23. janúar 2003, kl. 15:49:12 (2997)

2003-01-23 15:49:12# 128. lþ. 64.7 fundur 17. mál: #A fjárhagslegur aðskilnaður útgerðar og fiskvinnslu# þál., Flm. GAK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur, 128. lþ.

[15:49]

Flm. (Guðjón A. Kristjánsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég vildi ræða aðeins ummæli hv. þm. um að menn hefðu kannski ekki gert ráð fyrir því þegar kvótakerfi var komið á, á fyrstu árum þess, að það mundi þróast eins og raun ber vitni.

Ég hygg að þetta sé alveg rétt hjá hv. þm. Ég minnist þess glöggt að margir fulltrúa sem sátu þessi fiskiþing á árunum 1983, 1984 og 1985 hafa síðar látið í ljós þær skoðanir, einkum eftir árið 1990, þegar frjálsræðið varð algjört við sölu kvótanna og tilfærslurnar, að þeir hefðu aldrei ljáð þessu máli lið hefðu þeir getað ímyndað sér að það færi í þennan farveg.

Herra forseti. Menn sáu auðvitað misfljótt í hvað stefndi í þessum málum. Ég vil enn á ný vekja athygli á því að t.d. Farmanna- og fiskimannasambandið varaði við því á árinu 1989, áður en frumvarpið hér var samþykkt í hv. Alþingi um lög nr. 38 frá 1990, á hvaða vegferð við værum. Það er alveg rétt sem hv. þm. hefur bent á að fjölgun botnfiskstegunda í kvótakerfinu er eingöngu til að gera það verra og erfiðara í framkvæmd. Að mínu viti ber enga nauðsyn til að fjölga sífellt tegundum í kvótakerfinu til að stýra fiskveiðum. Það er nægjanlegt, ef menn vilja stýra með kvótakerfi, að hafa megintegundir hverrar veiðigreinar í kvóta, ef menn ætla að stýra eftir þeirri leið. Ég er út af fyrir sig ekki mjög hrifinn af þeirri leið og tel að sóknarstýrt kerfi, einkum fyrir strandveiðiflotann og smábátaflotann, sé miklu hentugra byggðunum og til verðmætisauka.