Fjárhagslegur aðskilnaður útgerðar og fiskvinnslu

Fimmtudaginn 23. janúar 2003, kl. 15:51:25 (2998)

2003-01-23 15:51:25# 128. lþ. 64.7 fundur 17. mál: #A fjárhagslegur aðskilnaður útgerðar og fiskvinnslu# þál., KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur, 128. lþ.

[15:51]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Ég held að við séum ekki mjög ósammála um þessi mál. Auðvitað hafa menn varað við þessu og eitt hefur leitt af öðru í þessu kerfi.

Rauði þráðurinn í gegnum fiskveiðistjórnarkerfið hefur verið leitin að ýtrustu hagkvæmni, þ.e. að gera kvótann sem verðmætastan fyrir þjóðarbúið. Það hefur að mínu áliti tekist nokkuð vel. En það hefur samt sem áður komið of harkalega niður og er sífellt að sjást betur og betur. Þetta kemur of harkalega niður á byggðunum. Vald útgerðarmannanna er slíkt yfir byggðunum að menn sjá allt í einu heilu fyrirtækin og útgerðirnar bara hverfa og eftir situr fólkið. Atvinnustarfsemin af því færist bara yfir í annan landshluta. Peningahyggjan er allsráðandi í kerfinu og þegar við það bætist að það eigi að fara að flytja vinnsluna úr landi finnst mér skörin vera farin að færast ansi langt upp í bekkinn, þegar slíkar hótanir dynja yfir þjóðinni.

Þá vaknar hjá mér þessi spurning: Hvað næst? Hvað getur mönnum dottið í hug að gera næst ef stjórnvöld og aðrir lúta ekki þeirra vilja? Ef stjórnvöld samþykkja t.d. ekki að hækka kvótaþakið úr 12% og upp í 20%. Hvað dettur mönnum þá í hug að segja?

Hvort hagkvæmara sé að fara með meiri afla inn á smábátana og gera meira þar veit ég ekki. Ég get alveg fallist á að það gæti verið ágætis hugmynd en þróunin þar hefur náttúrlega haft miklu styttri aðdraganda.