Fjárhagslegur aðskilnaður útgerðar og fiskvinnslu

Fimmtudaginn 23. janúar 2003, kl. 15:55:50 (3000)

2003-01-23 15:55:50# 128. lþ. 64.7 fundur 17. mál: #A fjárhagslegur aðskilnaður útgerðar og fiskvinnslu# þál., KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur, 128. lþ.

[15:55]

Kristján Pálsson (andsvar):

Það er alveg rétt hjá hv. þm. að menn eru náttúrlega smám saman að flytja meira og meira af vinnslunni burt. Það sést langbest um borð í frystiskipunum og fullvinnsluskipunum. Það er verið að flytja vinnsluna út á sjó og auðvitað gætu þetta allt verið útlendingar um borð í þessum skipum. Í dag vinna þar Íslendingar en þetta er mjög hagkvæm veiði. Ég hef líka séð að útgerðarmenn hafa verið að flytja hausa og annað út til Kína. Það má vel vera að þeir séu farnir að flytja smáþorsk út til Kína líka, það má vel vera. Ég hef ekki orðið var við það en ég efast ekki um að hv. þm. fer rétt með það.

Þetta segir okkur að menn þurfa virkilega að hafa varann á. Verði það smám saman þannig sitja menn uppi með að meiri hlutinn af vinnslunni er farinn annaðhvort út á sjó eða úr landi. Ég segi þá: Hverju máli skiptir þá lengur með sjávarútveginn og Evrópusambandið ef þetta ættu að verða endalok á fiskveiðistefnu okkar Íslandinga?

Auðvitað á ekki að banna fiskvinnslufyrirtækjum frekar en öðrum að fjárfesta með hagkvæmum hætti. En sá fiskur sem er til úthlutunar á Íslandsmiðum finnst mér skilyrðislaust að eigi að koma til vinnslu á Íslandi. Það finnst mér hafa verið undirtónninn í því að setja kvótann á upphaflega, þ.e. að tryggja útgerðina, fiskvinnsluna og sjávarbyggðirnar í landinu. Það var ekki hugsað með öfugum formerkjum. Mér finnst margt benda til þess að við stefnum núna í öfuga átt.