Hvalveiðar

Fimmtudaginn 23. janúar 2003, kl. 16:29:06 (3002)

2003-01-23 16:29:06# 128. lþ. 64.8 fundur 20. mál: #A hvalveiðar# (leyfi til veiða) frv., GuðjG
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur, 128. lþ.

[16:29]

Guðjón Guðmundsson:

Herra forseti. Hvalveiðar hafa verið árlegt umræðuefni á Alþingi í þau tæp 12 ár sem ég hef átt hér sæti. Þær hafa verið ræddar hér aftur og aftur í formi fyrirspurna, utandagskrárumræðna. Síðan flutti ég aftur og aftur ásamt fleiri þingmönnum till. til þál. um að hvalveiðar skyldu leyfðar á ný. Það var loks á vorþingi 1999, eins og hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson gat um áðan, að þessi tillaga mín og 11 annarra þingmanna sem hann nafngreindi var samþykkt hér með nokkrum breytingum sem gerðar voru í sjútvn. þingsins og hljóðaði svo, með leyfi forseta:

,,Alþingi ályktar að hefja skuli hið fyrsta hvalveiðar hér við land og tekur fram að ályktun þess frá 2. febrúar 1983 stendur ekki í vegi fyrir því. Veiðarnar fari fram á grundvelli vísindalegrar ráðgjafar Hafrannsóknastofnunarinnar og undir eftirliti stjórnvalda.

Alþingi leggur áherslu á óskoraðan fullveldisrétt Íslands við nýtingu hvalastofna á íslensku hafsvæði í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar um sjálfbæra nýtingu lifandi auðlinda.

Alþingi felur ríkisstjórninni að undirbúa hvalveiðar, meðal annars með því að kynna málstað og sjónarmið Íslendinga meðal viðskiptaþjóða okkar. Undirbúningur miði að því að veiðar geti hafist sem fyrst. Kostnaður við kynninguna verði greiddur úr ríkissjóði. Öllu kynningarstarfi verði flýtt svo sem auðið er.``

[16:30]

Með þessari samþykkt aflétti Alþingi hvalveiðibanninu sem hafði staðið frá því 2. febrúar 1983 þegar Alþingi samþykkti illu heilli með eins atkvæðis mun að verða við hvalveiðibanni Alþjóðahvalveiðiráðsins. Norðmenn samþykktu aftur á móti ekki þetta hvalveiðibann. Það létti þeim róðurinn þegar þeir hófu sínar veiðar að nýju fyrir átta eða níu árum. Samþykktin sem gerð var á Alþingi 1999 um vorið var mjög ótvíræð. Þessi þál. var samþykkt með 37 atkvæðum gegn 8, ef ég man rétt. Tveir af flutningsmönnunum eru ráðherrar í dag og kannski ráðherrar þeirra ráðuneyta sem hvalveiðarnar skipta hvað mestu máli, þ.e. sjútvrn. og umhvrn. Þau voru bæði mjög áhugasöm um þetta mál.

Eins og fram kemur í tillögunni var samþykkt að ríkisstjórninni skyldi falið að undirbúa veiðarnar með því að kynna málstað og sjónarmið Íslendinga meðal viðskiptaþjóða okkar. Þar hefur heilmikið verið unnið að kynningu þessa máls. Ég tel að hæstv. sjútvrh. hafi staðið sig mjög vel hvað það varðar. Ég nefni sem dæmi að ég var í Bandaríkjunum fyrir rúmu ári. Þá var mér sagt frá því, af mönnum í fisksölubransanum þar, að hann hefði snúið heilu háskólunum til fylgis við okkur í þessu máli. Mér var sagt frá því að hann hefði komið í mjög fjölmennar háskólastofnanir þar sem alger andstaða var við hvalveiðar og hinn bandaríski hugsunarháttur eða misskilningur við lýði, að þarna væri eitthvað voðalegt á ferðinni. Hann hefði gersamlega snúið þessum hópum til fylgis við sig með málflutningi sínum og staðið sig afskaplega vel í þessari kynningu. Það hefur verið varið tugum milljóna í þessa kynningu. Ég held að hv. flm. hafi nefnt 60 millj., eftir ráðherranum. Ég tel að við getum ekki gert mikið meira í þessu kynningarstarfi. Við þurfum bara að taka af skarið og hefja þessar veiðar á ný. Ég held að þessi kynning hafi gert gagn en nú sé kominn tími til að láta því starfi lokið. Við getum að vísu haldið áfram okkar kynningarstarfi þó við hefjum veiðarnar en núna verðum við að taka af skarið.

Menn hafa oft bent á að sala afurða sé forsenda fyrir því að hefja veiðar að nýju, það fari enginn út í að veiða hval nema geta selt afurðirnar. Þótt það snúi svo sem ekki beint að Alþingi að selja hvalkjöt þá skiptir máli, ef farið verður út í þennan atvinnuveg, að það verði útflutningsvara. Mest hefur verið leitað til Japana hvað það varðar vegna þess að þeir eru aðalviðskiptaþjóð okkar hvað hvalkjöt varðar og Japanar voru auðvitað okkar langstærsti viðskiptaaðili þegar hvalveiðarnar voru stundaðar hér og keyptu þessar afurðir á góðu verði. Japanar hafa gert okkur grein fyrir því ár eftir ár að þessi viðskipti gætu ekki hafist nema við yrðum aðilar að Alþjóðahvalveiðiráðinu. Þess vegna höfum við verið að reyna það seinustu tvö árin að komast þar inn. Okkur var hafnað í tvígang, ef ég man rétt, en við fengum síðan inngöngu í haust og eins og hér var nefnt munum við hafa skuldbundið okkur í leiðinni til að hefja ekki veiðar í atvinnuskyni fyrr en árið 2006. Það kemur í sjálfu sér ekki í veg fyrir hvalveiðar. Auðvitað er hægt að hefja veiðar í vísindaskyni strax í sumar. Það gera Japanar. Þeir stunda allar sínar veiðar í nafni vísindanna og eru verulega stór hvalveiðiþjóð. Það gera ýmsir fleiri og við þurfum ekki að láta þetta standa í vegi fyrir okkur.

Vilji þjóðarinnar er mjög ótvíræður í þessu máli. Skoðanakannanir hafa ár eftir ár, alveg frá því að við hættum hvalveiðum, sýnt að 80--90% þjóðarinnar eru fylgjandi því að þessar veiðar verði hafnar að nýju. Könnun sem gerð var fyrir nokkrum dögum sýndi að 88% þjóðarinnar eru þeirrar skoðunar að við eigum að hefja hvalveiðar strax en aðeins 12% á móti. Ég minni á það í leiðinni að þegar tillaga mín og félaga minna var til umræðu í þinginu vorið 1999 og var send til umsagnar fjölmargra aðila þá komu mjög jákvæðar umsagnir um hana frá öllum heildarsamtökum sjómanna, útvegsmanna, verkafólks, sveitarfélaga og fjölmörgum öðrum aðilum sem allir sem einn hvöttu til að þessar veiðar yrðu hafnar að nýju. Alþingi var því að spegla vilja þjóðarinnar með samþykkt sinni vorið 1999. Sem betur var samþykkt Alþingis mjög afgerandi eins og ég nefndi áðan, með 37 atkvæðum gegn 8.

Ég er meðflutningsmaður að þessu frv. ásamt hv. þm. Guðjóni A. Kristjánssyni og fleirum. Frv. okkar var lagt fram áður en við gengum í Alþjóðahvalveiðiráðið með þeim skilyrðum sem hér voru nefnd, þ.e. að við gætum ekki hafið veiðar í atvinnuskyni fyrr en árið 2006. Ég held að sjútvn. þingsins þurfi að fara vel ofan í saumana á þessu máli og hvernig við ætlum að standa að því. Eins og ég nefndi áðan er ég þeirrar skoðunar að við eigum að hefja veiðar í vísindaskyni strax í sumar. Þannig standa Japanar að sínum málum og við getum auðvitað gert það með nákvæmlega sama hætti.

En markmiðið er auðvitað hvalveiðar í atvinnuskyni. Að því hljótum við og aðrar hvalveiðiþjóðir að stefna. Það er ýmislegt sem bendir til þess að sú mikla andstaða sem hefur verið víða í heiminum gegn þessum veiðum, sem er að mestu leyti byggð á fordómum og vanþekkingu, sé heldur á undanhaldi. Ég er þeirrar skoðunar að ekki sé langt í að þessar veiðar verði að veruleika í atvinnuskyni hjá þeim þjóðum sem hafa aðstöðu til og vilja stunda þessar veiðar.

Hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson nefndi að ráðherra hefði unnið gegn vilja Alþingis með því skilyrði sem sett var við inngöngu okkar í hvalveiðiráðið. Ég held að það sé fullsterkt til orða tekið, að segja að hæstv. ráðherra hafi verið að vinna gegn vilja Alþingis. Hann er afskaplega áhugasamur um þetta mál og hefur reynt að fylgja því fram eftir bestu getu. Ég get alveg tekið undir það með hv. þm. að það hefði verið eðlilegt að hæstv. ráðherra bæri þetta skilyrði undir Alþingi. Trúlega hefur hann talið sig hafa þetta í hendi sér út frá því sem stendur í tillögunni sem samþykkt var vorið 1999, að ríkisstjórninni sé falið að undirbúa þessar veiðar. Ég er hins vegar alveg sammála því að það hefði verið eðlilegt að þetta væri rætt í Alþingi og sjútvn. þingsins, hvort við ættum að hafa þetta skilyrði þarna inni.

Eins og ég sagði hefur ráðherra lagt sig mjög fram um að þetta mál næði fram að ganga. Hann hefur verið afskaplega ötull í þessu kynningarstarfi og farið margar ferðir og langar og strangar í því skyni og er mikill áhugamaður um að þetta geti orðið að veruleika. En ég endurtek það að ég tel að við eigum að hefja þessar veiðar strax í sumar í vísindaskyni. Það er hægt að hafa tilbúna áætlun um hvernig að því eigi að standa. Það er hægt að veiða hvali í hundraðavís í vísindaskyni, eins og við gerðum síðustu árin sem við stunduðum þessar veiðar. Það var gert í vísindaskyni.

Ég tek undir orð hv. þm. Guðjóns A. Kristjánssonar um tvískinnung Bandaríkjamanna. Hann rifjaði það aðeins upp sem ég sagði við umræðuna vorið 1999. Ég held að ég hafi sagt eitthvað á þá leið að það væri náttúrlega yfirgengileg hræsni af þessu stórveldi að ætla af göflunum að ganga ef þjóð norður í höfum ætlar að veiða einhvern slatta af hvölum en sama þjóð eða ríkisstjórn sér ekkert athugavert við að fara með loftárásir gegn þjóðum vítt og breitt um heiminn og fella fólk. Það finnst mér yfirgengileg hræsni og þessari miklu lýðræðisþjóð alls ekki sæmandi.

Ég vil líka taka undir það sem hv. þm. sagði um hvalaskoðunina. Nánast einu andstæðingar hvalveiða á Íslandi sem heyrist í virðast vera þessir blessuðu hvalaskoðunarmenn. Þeirra starfsemi er alls góðs makleg og hefur farið vaxandi ár frá ári en þeir virðast telja að hún leggi upp laupana ef hvalveiðar verði hafnar. Þetta held ég að sé mikill misskilningur og vísa ég þar til reynslu Norðmanna sem hafa birt skýrslur um að þegar þeir hófu veiðar sínar að nýju, fyrri part síðasta áratugar, var þessu sama spáð þar en hvalaskoðunin hefur aukist. Hún hefur margfaldast þar á þessum árum. Þar stunda menn meira að segja veiðarnar á sömu slóðum og hvalaskoðun á sér stað. Í sjálfu sér væri það ekki nauðsynlegt hér, það er hægt að aðskilja það en þetta hefur ekki truflað Norðmenn á neinn hátt.

Ég hef oft sagt það áður og segi það enn að við eigum að nýta hvalinn á þrjá vegu. Í fyrsta lagi munum við náttúrlega stunda veiðar og vinnslu, í öðru lagi öfluga hvalaskoðun og í þriðja lagi, síðast en ekki síst, með því að sýna ferðamönnum hvalskurðinn í Hvalstöðinni.

Meðan hvalveiðar voru stundaðar voru einhverjar alvinsælustu ferðir sem hótel og ferðaskrifstofur í Reykjavík buðu upp á dagsferðir upp í Hvalfjörð þar sem menn sáu þessar risaskepnur dregnar á land, fylgdust með hvalskurðinum og fóru gjarnan í ferðir um héraðið í leiðinni. Menn sem unnu árum saman í Hvalstöðinni hafa stundum verið að tippa á hve margir hafi komið yfir sumarið. Það var aldrei talið. Þeirra skoðun er sú að það hafi komið þarna í kringum 20 þúsund manns að meðaltali á hverju sumri til þess að skoða þetta. Þetta var því mjög vinsælt af ferðamönnum og verður það ugglaust er við hefjum veiðar á ný.