Hvalveiðar

Fimmtudaginn 23. janúar 2003, kl. 16:46:35 (3005)

2003-01-23 16:46:35# 128. lþ. 64.8 fundur 20. mál: #A hvalveiðar# (leyfi til veiða) frv., JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur, 128. lþ.

[16:46]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég geri mér grein fyrir því að einhver kostnaður gæti verið fólginn í því að setja upp áætlun um veiðar í vísindaskyni. Ég held hins vegar að sú áætlun gæti alfarið miðast við þau dýr sem viðkomandi hvalveiðifyrirtæki ákveður að drepa. Í sjálfu sér ætti áhættan gagnvart þessu ekkert að vera stórkostlega mikil. Þeir sem veiða hvalinn munu auðvitað ákveða hvað þeir vilja veiða mikið með tilliti til þess hvort þeir telja sig geta selt kjötið eða ekki og það kemur þá bara í ljós hversu miklar veiðarnar verða. En vísindalegt eftirlit verður auðvitað að vera með veiðunum. Mér finnst þetta lykta töluvert mikið af þessum vandræðagangi sem hefur verið í kringum þetta mál alla tíð. Eins og ég segi hefur það verið meirihlutavilji hér á Alþingi og með þjóðinni fyrir því að hvalveiðar væru stundaðar við Ísland allan þennan tíma en ríkisstjórn Íslands hefur ævinlega verið á móti þeim veiðum. Það kann að vera að það hafi breyst núna og að sú ríkisstjórn sem nú situr sé tilbúin að taka afstöðu til þess að það verði hafnar hér vísindaveiðar en hún hefur ekki gert það enn þá og mér finnst einhvern veginn að eftir að fyrir lá að við værum gengin í Alþjóðahvalveiðiráðið hefði þessi ríkisstjórn getað á mjög skömmum tíma tekið ákvörðun um að gefa út yfirlýsingu um þessar veiðar í vísindaskyni, gefa þeim sem hugsanlega mundu stunda þær tækifæri til að nýta tímann og undirbúa sig undir veiðarnar með því að leita eftir mörkuðum og undirbúa sín fyrirtæki undir það að taka þátt í slagnum.

Ég verð að viðurkenna að ég er ekki alveg sannfærður um að hugur fylgi fullkomlega máli.