Hvalveiðar

Fimmtudaginn 23. janúar 2003, kl. 16:50:22 (3007)

2003-01-23 16:50:22# 128. lþ. 64.8 fundur 20. mál: #A hvalveiðar# (leyfi til veiða) frv., SI
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur, 128. lþ.

[16:50]

Sigríður Ingvarsdóttir:

Hæstv. forseti. Alþjóðahvalveiðiráðið samþykkti nú í haust, líkt og komið hefur fram, aðildarumsókn Íslands að ráðinu á aukafundi þess sem haldinn var í Cambridge á Englandi. Aðildarumsókn okkar var líkt og áður með fyrirvara um bann við hvalveiðum í atvinnuskyni. Í kjölfar þessarar samþykktar er nú raunhæft að áætla að hvalveiðar í vísindaskyni geti hafist innan skamms tíma og jafnvel nú í sumar þó að Íslendingar hafi skuldbundið sig til að hefja ekki veiðar í atvinnuskyni fyrr en í fyrsta lagi eftir árið 2006. Því er þarna stigið stórt skref í átt til veiða á hval og þar með enn frekari nýtingar á þessum stórfenglegu skepnum. Á undanförnum árum, þ.e. frá 1989, höfum við eingöngu nýtt hvalina til skoðunar fyrir ferðamenn og hefur afar vel verið staðið að uppbyggingu á hvalaskoðunarfyrirtækjum hér á landi.

Ég get ekki tekið undir þær gagnrýnisraddir sem heyrst hafa varðandi það að hvalveiðar muni leggja hvalaskoðunarfyrirtæki í rúst. Auðvitað er ekki verið að skjóta hval á sömu svæðum og verið er að sýna hann, langt í frá. Jafnvel væri enn hægt að auka fjölbreytnina fyrir ferðamenn með því að bjóða þeim að fylgjast með þegar hvalur er dreginn á land, hvalskurði og öðrum þáttum er lúta að vinnslu á hval. Ég veit ekki betur en að þó að ekki hafi verið mikið um skipulagðar ferðir á árum áður er hvalveiðar voru leyfðar hafi hvalstöðin í Hvalfirði dregið að sér fjölmarga ferðamenn sem áhuga höfðu á því að fá að fylgjast með því sem þar fór fram.

Ég legg áherslu á að gott samráð og gott samstarf sé haft við aðila í ferðaþjónustu þegar kemur að því að hvalveiðar hefjist. Ef við hæfum hvalveiðar utan Alþjóðahvalveiðiráðsins væru þær ólöglegar samkvæmt skilgreiningum alþjóðalaga og þar með gætum við ekki átt viðskipti með afurðirnar. Norðmenn hafa t.d. nú heimilað veiðar á 711 hrefnum en það er það mesta sem leyft hefur verið um árabil í Noregi. Norðmönnum hefur ekki tekist að selja afurðir sínar til Japans en eins og við vitum mætavel er þar að finna aðalmarkaðssvæði fyrir hvalaafurðir. Það er mikilvægt að hér eftir sem hingað til sé vel staðið að kynningu á málstað Íslands varðandi hvalveiðar þar sem almenningur víða erlendis er á móti hvalveiðum vegna ranghugmynda um ástand hvalastofnanna. Það er því miður mjög útbreiddur misskilningur að flestir ef ekki allir hvalastofnar séu í útrýmingarhættu og að hvalveiðar ógni því hvalastofnum óháð því hversu stórtækar þær eru. Talning sem m.a. Hafrannsóknastofnun hefur tekið virkan þátt í ásamt fleiri þjóðum hefur staðfest að ástand þeirra hvalastofna sem helst eru nefndir í sambandi við veiðar sé mjög gott. Einnig eru sjómenn almennt sammála um að hvölum hafi fjölgað verulega á undanförnum árum, jafnvel svo mikið að vandræði séu farin að hljótast af. Það verður einmitt fróðlegt að sjá þegar endanlegar niðurstöður úr síðustu hvalatalningu liggja fyrir en sú hvalatalning fór fram sumarið 2001 á Norður-Atlantshafi í samvinnu við Norðmenn og Færeyinga.

Á íslenska talningasvæðinu var talið frá þremur skipum og einni flugvél en skipulagning talninganna fór fram innan vísindanefndar NAMMCO og úrvinnsla niðurstaðna fer fram á þeim vettvangi. Reiknað er með að endanlegar niðurstöður nýs stofnstærðarmats á hrefnu og langreyði liggi fyrir á næstunni og það verður t.d. gagnlegt að sjá hve hvalastofnarnir hafa stækkað með tilkomu alfriðunar hér við land sem og hvort hægt sé að sjá fylgni milli svæðisbundinnar aukningar á hval og minnkunar fiskgengdar.

Ef við lítum sérstaklega á hrefnuna fjallaði vísindanefnd NAMMCO um ástand hrefnustofnsins á fundi árið 1997. Niðurstaðan var í stuttu máli sú að hvort sem litið væri á Mið-Atlantshafsstofninn í heild sinni eða eingöngu stofninn á íslenska strandsvæðinu væri stofnstærðin nú nálægt því sem talið er að hún hafi verið áður en veiðar hófust. Þær veiðar sem stundaðar voru úr stofninum meginhluta síðustu aldar hafa samkvæmt því haft hverfandi áhrif á stofnstærðina.

Að sjálfsögðu hafa hvalir og mikil aukning þeirra áhrif á allt lífríki sjávar. Líkt og kom fram í máli hv. þm. Guðjóns A. Kristjánssonar eru hvalir taldir éta árlega um 6 millj. tonna af sjávarfangi á hafsvæðum umhverfis Ísland og er talið að rúmlega 2 millj. tonna þar af séu fiskmeti svo að auðvitað sér það hver sem sjá það vill að hvalir og mikil fjölgun þeirra skiptir verulegu máli í vistkerfi hafsins umhverfis Ísland. Best væri, eins og fram hefur komið líka hjá hv. þm. Guðjóni Guðmundssyni, að við gætum hafið vísindaveiðar strax í sumar. En að sjálfsögðu þarf að tryggja að skynsamlega sé staðið að þeim veiðum eins og öllum veiðum og taka þarf tillit til veiðiþols þessarar auðlindar með vísindalegum hætti. Það þarf að sjálfsögðu líka að hafa í heiðri þær reglur að skjóta ekki mjólkandi hvalkú með kálf. Þá þarf að tryggja skjótan dauðdaga þeirra hvala sem verið er að veiða og fleira í þeim dúr.

Þegar vísindahvalveiðarnar voru stundaðar á árum áður tókst okkur að afla okkur mjög mikilvægra gagna en þó vantar enn mikið inn í þann gagnasarp, til að mynda áhrif hvals á vistkerfi okkar, hvað hann er að éta, og þeirra gagna verður ekki aflað nema með magasýnum úr hvölum. Einnig þarf að kanna betur viðhald stofnsins, hvað hann fjölgar sér ótt. Ef ég fer út í dálitla hvalalíffræði er t.d. hægt að finna aldur hvala með því að skoða eyrnatappa úr þeim. Eyrnatappar eru í hlustinni á þeim, þetta eru hálfhringir sem hægt er að telja líkt og í trjám til að vita aldur dýrsins. Svartur hringur myndast þegar hvalurinn verður kynþroska. Síðan er hægt að taka eggjastokka úr hvalkúm og telja hversu mörg afkvæmi þær eiga. Þannig er t.d. hægt að sjá, ef við erum með umtalsverðan fjölda af sýnum, hversu ört hinar ýmsu hvalategundir fjölga sér.

Sjálfbær nýting auðlindanna þarf að eiga við um allar auðlindir. Ég tel hættulegt fyrir allt vistkerfi hafsins að taka út eina tegund, eins og í þessu tilfelli hvalina, og ofvernda þá. Ég tel að með því að fara þá leið sem hæstv. sjútvrh. hefur nú markað með inngöngu í Alþjóðahvalveiðiráðið, í kjölfar þess vísindaveiðar og síðan atvinnuveiðar, séum við á réttri leið. Að sjálfsögðu þarf að haga veiðum í samræmi við mat fræðinga á burðargetu stofnsins sem og að hafa gott samstarf við aðila sem byggt hafa upp myndarlega ferðaþjónustu í tengslum við hvalaskoðun.