Atferlis- og eldisrannsóknir á þorski á Vestfjörðum

Fimmtudaginn 23. janúar 2003, kl. 17:29:27 (3013)

2003-01-23 17:29:27# 128. lþ. 64.14 fundur 52. mál: #A atferlis- og eldisrannsóknir á þorski á Vestfjörðum# þál., JB
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur, 128. lþ.

[17:29]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Þessi till. til þál. um miðstöð atferlis- og eldisrannsókna á þorski á Vestfjörðum er allrar athygli verð og hið merkasta mál. Það er alveg ljóst að þorskeldi mun eiga sömu framtíð fyrir sér hér á landi og menn vona að það gangi jafn vel og í öðrum löndum. Því er afar mikilvægt að allt frá fyrstu stigum þessa nýja atvinnuvegar sé vel búið að honum, öll umgjörð vel rannsökuð sem og allir umhverfisþættir og eldisþættir sem geta lotið að þessari atvinnugrein.

[17:30]

Ég þekki mjög vel til þess hvernig er að taka villtan fisk úr náttúrunni og setja hann í eldi og hreinlega að breyta honum í hálfgert húsdýr því að við Hólaskóla þar sem ég hef starfað var upphaf eldis á bleikju. Ég minnist þess einmitt þegar fyrstu fiskarnir úr hinni villtu náttúru voru teknir inn til þróunar á bleikjueldi sem í raun var nýr atvinnuvegur.

Það eru margir þættir í umhverfi og atferli þessara nýju tegunda sem þarf að rannsaka og kanna til þess að finna bestu leiðina og bestu aðferðirnar við að þróa þennan atvinnuveg sem eldisatvinnuveg. Það er ekki aðeins hitastigið og umgjörð vatnsins heldur er það líka eins og hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson minntist á fóðrið, birtan og margt annað sem þarf að rannsaka til að þróa atvinnuveg sem þennan svo hann verði arðbær og því mikilvægt að hafist sé handa með skipulegum hætti.

Jafnframt er líka mikilvægt að safna saman og nýta þá dýrmætu reynslu og þekkingu sem frumkvöðlar í þreifingum fyrir þennan nýja atvinnuveg hafa aflað og reynt að taka saman á einn stað og nýta áfram.

Einnig er mjög mikilvægt, herra forseti, að gera sér grein fyrir því að um leið og farið er að grípa inn í lífkerfið með því að taka villt dýr og breyta þeim í hálfgerð húsdýr þarf líka að huga að því hvert stefnir og hvernig hægt er þá að slíta í sundur sambýli á milli eldisfisks sérstaklega ef farið er að grípa til kynbóta og breyta fiskinum úr náttúrlegu eðli sínu í eldisdýr. Þarf að gæta mjög vel að því hvernig skilið er á milli náttúrulegs fisks sem lifir villtur í náttúrunni og þess fisks sem verður tekinn í eldi, ég tala ekki um ef það yrði áframeldi, þá þurfa að vera skil þar á milli þannig að ekki verði kynblöndun eða skaði að milli eldisfisksins og náttúrlega villta fisksins. Þetta er ekkert auðvelt mál en þessi atriði verður líka að hafa í huga þegar farið verður að þróa atvinnuveg sem þennan. Það er í sjálfu sér einfalt mál að taka bara seiðin, safna saman seiðum eða ungþorski úr villtum stofnum og ala hann upp til eldis, til slátrunar, það er í sjálfu sér einfalt mál en um leið og farið er lengra í áframeldi, í kynbætur á þessum dýrum sem öðrum, þá þarf að huga vandlega að hvernig það samspil verður slitið frá hinni villtu náttúru. Verði farið út í þetta verkefni verður að huga að því fyrir fram. Slíkt verkefni er ekki einfalt en mikilvægt er að fundin verði leið og lausn ef farið verður út í slíkt eldi. Það er því mjög mikilvægt að rannsóknir á þorski og mögulega þorskeldi fari strax skipulega í gang og það er alveg sjálfsagt eins og lagt er til í tillögunni að kanna hve stór hluti af þeim rannsóknum og því þróunarstarfi geti átt sér miðstöð á Vestfjörðum. Þar hefur verið unnið ákveðið sporgöngustarf í þorskeldinu og mikil hefð fyrir þorskveiðum og vinnslu á Vestfjörðum og firðirnir þar gætu hentað vel til þorskeldis eins og reyndar víðar um landið.

Ég ítreka að ég tel mjög mikilvægt að atferlis-, umhverfis- og eldismál varðandi þorsk séu könnuð með skipulegum hætti og áður en þorskeldi verður að stóratvinnuvegi sé það gert fyrir fram og því fylgt síðan eftir með þróun atvinnuvegarins og alveg sjálfsagt að jafnframt sé kannað hversu stór hluti af þessum rannsóknum geti átt sér miðstöð á Vestfjörðum. Það er hið besta mál og mikið hagsmunamál fyrir Vestfirðinga og reyndar allt þorskeldi í landinu.