Skipan Evrópustefnunefndar

Mánudaginn 27. janúar 2003, kl. 15:07:03 (3021)

2003-01-27 15:07:03# 128. lþ. 65.1 fundur 369#B skipan Evrópustefnunefndar# (óundirbúin fsp.), SJS
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur, 128. lþ.

[15:07]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forsrh. fyrir svörin og ég vil lýsa ánægju minni með þau. Ég tel mikilvægt að undirbúningur sé kominn í fullan gang og ég tel út af fyrir sig þennan framgangsmáta eðlilegan og skynsamlegan, að fyrst verði leitað eftir samstöðu um starfsgrundvöll eða erindisbréf slíks starfshóps eða nefndar og nái menn saman um það ætti væntanlega ekkert að vera mönnum að vanbúnaði að skipa síðan sjálfa nefndina.

Ég vil láta þá skoðun koma fram að ég teldi við núverandi aðstæður æskilegt að slík nefnd hefði þetta samráðshlutverk. Að sjálfsögðu hvílir sú skylda á stjórnvöldum að ráðgast við utanrmn. Alþingis um mikilsverð málefni eins og þetta vissulega er. En ekki er ólíklegt að einhverjir af utanríkismálanefndarmönnum kæmu jafnframt til með að sitja í svona nefnd. Utanrmn. hefur auk þess fleira á þeirri könnu þannig að nefnd af þessu tagi gæti einbeitt sér að því að skoða þessi máli.

Ég bendi svo á að þetta gæti haft talsvert samræmingargildi innan Stjórnarráðsins því að það hefur svolítið borið á því að mismunandi ráðuneyti hafa verið að panta skýrslur og látið gera skoðanakannanir svolítið eins og miðjuhöndin vissi ekki hvað sú hægri gerði.