Ráðherranefnd um fátækt á Íslandi

Mánudaginn 27. janúar 2003, kl. 15:08:29 (3022)

2003-01-27 15:08:29# 128. lþ. 65.1 fundur 370#B ráðherranefnd um fátækt á Íslandi# (óundirbúin fsp.), JóhS
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur, 128. lþ.

[15:08]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Í Morgunblaðinu í gær birtist ítarleg og fróðleg úttekt um fátækt á Íslandi en flestir sem við þau mál fást eru sammála um að fátækt fari vaxandi í þjóðfélaginu. Fram kom að fulltrúar þriggja ráðuneyta hafa að undanförnu rætt málið með það að markmiði að skilgreina vandann og finna leiðir til úrbóta. Ég vildi gjarnan spyrja hæstv. forsrh. nánar um þetta mál. Hafa málefni fátæks fólks sérstaklega verið tekin upp í ríkisstjórn? Hvaða þrjú ráðuneyti eru nú að fjalla um málið samkvæmt frétt Morgunblaðsins? Hvernig er vinnu ráðuneytanna háttað? Og ég spyr hæstv. forsrh.: Er t.d. verið að vinna málið í samráði við sveitarfélögin og heildarsamtök launafólks eins og ASÍ og BSRB eða hjálparstofnanir sem sinnt hafa málefnum fátækra?

Jafnframt finnst mér eðlilegt að hæstv. forsrh. upplýsi þingið um hvort stefnt sé að því að leggja fram tillögur til úrbóta áður en þingi lýkur í marsmánuði komandi.