Greiðslur Íslands til ESB

Mánudaginn 27. janúar 2003, kl. 15:13:11 (3026)

2003-01-27 15:13:11# 128. lþ. 65.1 fundur 371#B greiðslur Íslands til ESB# (óundirbúin fsp.), ÖS
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur, 128. lþ.

[15:13]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Þegar hefur komið fram í þessum fyrirspurnatíma að í gangi eru erfiðar samningaviðræður milli EFTA-ríkjanna og Evrópusambandsins vegna stækkunar Evrópska efnahagssvæðisins. Evrópusambandið hefur uppi ákaflega óbilgjarnar kröfur, m.a. um að nettógreiðslur Íslendinga aukist tuttugu- til þrítugfalt. Ég tel nauðsynlegt að það sé breiður stuðningur á bak við viðbrögð ríkisstjórnarinnar. Ég vil þess vegna að fram komi að ég tel að ríkisstjórnin hafi brugðist vel og hart við óbilgirni Evrópusambandsins. Samfylkingin styður málflutning hennar í hvívetna í þessari deilu.

Það sem ég vil hins vegar spyrja hæstv. utanrrh. út í eru upplýsingar sem komið hafa fram í þessum samningaviðræðum um mat á því hverjar greiðslur yrðu ef Ísland sækti um og yrði aðili að Evrópusambandinu. Í fjölmiðlum hefur þannig verið greint frá því að íslenska samninganefndin hafi fært rök fyrir því að væri Ísland fullgilt aðildarríki þá kynnum við að fá meira greitt úr sjóðum sambandsins en við yrðum að greiða í þá. Það er með öðrum orðum núna eitt helsta vopn Íslendinga gegn fjárkröfum Evrópusambandsins í þessari deilu að sýna fram á með rökum að væri Ísland aðili að ESB þyrfti það ekki að greiða nettóframlag til sambandsins heldur fengi meira úr sjóðunum. Þetta gengur þvert á það sem menn hafa áður verið að segja, m.a. sá ágæti hæstv. ráðherra sem situr vinstra megin við hæstv. utanrrh. Ég vil þess vegna spyrja hæstv. utanrrh. hvort full sátt sé í ríkisstjórninni um þessar staðhæfingar sendinefndarinnar, hvort þetta hafi t.d. verið rætt milli hans og hæstv. forsrh. og hvort hæstv. utanrrh. telji tímabært að leggja fram þá reikninga sem liggja þessu mati hans til grundvallar.