Staðan á kjötmarkaðnum

Mánudaginn 27. janúar 2003, kl. 15:29:21 (3037)

2003-01-27 15:29:21# 128. lþ. 65.1 fundur 373#B staðan á kjötmarkaðnum# (óundirbúin fsp.), EKG
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur, 128. lþ.

[15:29]

Einar K. Guðfinnsson:

Virðulegi forseti. Miklar breytingar hafa orðið á kjötmarkaði í landinu eins og menn vita. Ef þau mál eru skoðuð í nokkru samhengi sjáum við að þær breytingar eru allstórkarlalegar. Á 20 árum hefur neysla á kindakjöti t.d. á mann lækkað um helming á sama tíma og neyslan á svínakjöti og alifuglakjöti hefur þrefaldast.

Á þessu ári hefur ríkt mjög afbrigðileg staða á markaðnum. Það er bæði offramboð og verðlagning sem við vitum öll að stenst ekki til lengdar, og það er mat þeirra sem best þekkja til að almennur taprekstur sé í kjötframleiðslunni í landinu sem auðvitað verður ekki borinn uppi til lengdar nema með því að ganga á eigið fé þessara fyrirtækja sem í mörgum tilvikum er ekki mjög mikið fyrir.

[15:30]

Út af fyrir sig er ekki gott fyrir stjórnvöld að skipta sér af þessari þróun. Þetta eru auðvitað fyrirtæki sem taka ákvarðanir á eigin forsendum. Engu að síður hafa komið fram ábendingar um óeðlileg afskipti, m.a. fjármálafyrirtækja, af þessari þróun á markaðnum. Þess vegna skiptir miklu máli að við fylgjumst a.m.k. vel með því hvernig þessi markaður þróast á þessu ári.

Í byrjun desember sl. rituðu Landssamtök sláturleyfishafa hæstv. landbrh. bréf og skoruðu á hann að skipa vinnuhóp sem skilaði tillögum um það hvernig bregðast skuli við þeirri alvarlegu stöðu sem uppi er á kjötmarkaðnum. Ég vek athygli í því sambandi á að í þessu bréfi kemur m.a. fram það mat að ætla megi að samdráttur í sölu kindakjöts á þessu afurðaári geti numið allt að 17--23% á árinu sem eru auðvitað mjög alvarleg tíðindi í ljósi þess sem ég ræddi áðan um þróun kjötframleiðslunnar fram til þessa. Þess vegna vil ég spyrja hæstv. ráðherra hvort hann hyggist með einhverjum hætti bregðast við þessu bréfi frá Landssamtökum sláturleyfishafa og hvort hann hyggist skipa vinnuhóp sem skili tillögum um hvernig bregðast skuli við þessari alvarlegu stöðu.