Staðan á kjötmarkaðnum

Mánudaginn 27. janúar 2003, kl. 15:31:38 (3038)

2003-01-27 15:31:38# 128. lþ. 65.1 fundur 373#B staðan á kjötmarkaðnum# (óundirbúin fsp.), landbrh.
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur, 128. lþ.

[15:31]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson):

Hæstv. forseti. Það er hárrétt hjá hv. þingmanni að staða á kjötmarkaði hefur verið erfið nú um sinn vegna mikillar framleiðslu, ekki síst í svína- og fuglakjöti, þ.e. kjúklingum, og alvarleg staða fram undan ef fregnir eru réttar um að menn ætli að sprengja þann markað enn meira út en þeir eru að gera og með mjög óraunhæfum hætti. Ég hef því verið í sterku sambandi við alla þá aðila sem að þessum málum koma, Bændasamtökin og einstaka forustumenn búgreinanna. Auðvitað hafa margir komið að þessu og það er ábyrgðarhluti, það eru ekki bara peningastofnanir. Ég hygg að inn í kjúklingabúskapinn a.m.k. hafi ekki bara komið sterkar afurðastöðvar heldur fjármagn frá Íslenskum aðalverktökum, fjárfestingarfyrirtækjum, auðugum einstaklingum, Byggðastofnun o.s.frv. Það eru því margir aðilar sem hafa komið að þessu máli.

Ég er þessa stundina í mjög nánu samstarfi við Bændasamtökin um að aðilar setjist yfir málið og skoði hvernig hægt sé að lágmarka skaðann og reyna að ná jafnvægi á kjötmarkaðnum.