Launamunur kynjanna hjá hinu opinbera

Mánudaginn 27. janúar 2003, kl. 16:04:50 (3050)

2003-01-27 16:04:50# 128. lþ. 65.95 fundur 380#B launamunur kynjanna hjá hinu opinbera# (umræður utan dagskrár), BH
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur, 128. lþ.

[16:04]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Herra forseti. Það virðast allir sammála um það hér að kynbundið launamisrétti sé staðreynd, og það er á bilinu frá 7,5--8% og upp í 18--20%. Við skulum láta liggja milli hluta hvorar tölurnar eru nákvæmari í þeim efnum. Vandamálið er hins vegar alvarlegt og við því þarf að bregðast.

Það er líklega líka rétt hjá hæstv. fjmrh. að allir flokkar, allir stjórnmálaflokkar, hafa sennilega fallegan ásetning og góða stefnu í þessum efnum. En við hljótum að gera mun á því, herra forseti, hvort í hlut eiga stjórnmálaflokkar sem hafa setið við stjórnvölinn árum og jafnvel áratugum saman og haft alla burði til að taka á þessum vanda og þessum vágesti. Auðvitað gerist ekkert, herra forseti, ef ekki er lögð vinna í málið, ef ekki eru gerðar rannsóknir af hálfu stjórnvalda og ég geri þá kröfu til ríkisins sem stærsta atvinnurekanda landsins að vera í broddi fylkingar við gerð slíkra rannsókna til þess að reyna að greina ástæðurnar og reyna að komast að því hver ástæðan sé og hvaða leiðir séu tiltækar til úrbóta. Því hljótum við að spyrja hæstv. fjmrh.: Hvað hefur hæstv. ríkisstjórn gert? Hver er stefna hennar til þess að vinna bug á þessum vágesti?

Við höfum nefnilega fordæmi fyrir því að árangri má ná ef markviss stefnumótun beinist í þá átt og vinna og fjármagn er lagt í slíkt verkefni. Dæmi um það er sá árangur sem náðst hefur síðan 1995 hjá Reykjavíkurborg, en frá þeim tíma hefur óútskýrður kynbundinn launamunur minnkað úr 15,5 í 7%. Borgin lagði af stað með ítarlega stefnumótun í þessum efnum þar sem sett var fram ný launastefna og lögð drög að nýju heildstæðu launamyndunarkerfi þar sem lykilorðin eru starfsmat, gegnsæi, málefnaleg viðmið og reglulegt tölfræðilegt eftirlit.

Í þessum efnum hefur náðst árangur hjá borginni, herra forseti, og því hljótum við að spyrja hæstv. ríkisstjórn og talsmann hennar hér, hæstv. fjmrh.: Hvað hefur hún látið gera í þessum efnum? Hvaða rannsóknir hafa verið gerðar? Hafa verið gerðar samanburðarhæfar rannsóknir í þessum efnum? Og hver er stefnan? Hvað á að gera, herra forseti, til þess að takast á við þann vágest sem kynbundið launamisrétti er?