Landhelgisgæslan

Mánudaginn 27. janúar 2003, kl. 16:25:17 (3056)

2003-01-27 16:25:17# 128. lþ. 65.96 fundur 381#B Landhelgisgæslan# (umræður utan dagskrár), SJóh
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur, 128. lþ.

[16:25]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Það hefur viljað brenna við á undanförnum árum að í því ofurkappi sem ríkisstjórnin hefur viljað leggja á hallalaus fjárlög hefur raunfjárþörf stofnananna verið hnoðuð upp úr smjöri og teygð yfir eldi til að láta hana passa við villtustu drauma ríkisvaldsins um hallalaus fjárlög. Ýmsar stofnanir hafa legið nánast óvígar eftir og ekki hefur mælst vel fyrir að forsvarsmenn þeirra andæfðu. Við þekkjum öll dæmi um afleiðingar slíks.

Í dag ræðum við vanda einnar af okkar ágætu ríkisstofnunum sem hefur lent í slíkum raunum. Nú er þessi stofnun komin á hnén. Það má heita að einu varðskipi sé nú haldi úti í einu, með semingi þó. Þau tvö sem eiga að vera í rekstri eru sjaldnast samtíða á sjó.

Það er engin spurning að kröfur til Landhelgisgæslunnar hafa stóraukist, ekki aðeins hvað varðar eftirlit með veiðum og siglingum heldur er svo komið að 80% af þyrlufluginu er flug með slasaða og sjúka í bráðatilvikum frá landsbyggðinni til hátæknisjúkrahúsanna. En fyrir þessu virðist fjárveitingavaldið hafa lokað augunum. Nú virðist sem þeir séu jafnvel að stýra atburðarásinni þannig að þyrlan Líf verði seld.

Það var aldrei meiningin, hæstv. forseti, að peningar til að reka þyrlurnar yrðu teknir af framlögum til varðskipanna þannig að útgjöld þeirra væru sem lömuð eftir. Báða þessa þætti þarf að fjármagna af skynsemi þannig að hvor aðilinn geti stutt hinn. Munum að mannslífið er mikils virði og að Landhelgisgæslan hefur margsýnt og sannað að þeim peningum sem til starfsemi hennar er varið er vel varið.