Landhelgisgæslan

Mánudaginn 27. janúar 2003, kl. 16:32:09 (3059)

2003-01-27 16:32:09# 128. lþ. 65.96 fundur 381#B Landhelgisgæslan# (umræður utan dagskrár), EMS
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur, 128. lþ.

[16:32]

Einar Már Sigurðarson:

Herra forseti. Það er ekki nýlunda að á hinu háa Alþingi sé ræddur fjárhagsvandi ríkisstofnana. Það er frekar hægt að segja að það sé regla en undantekning að slíkt sé gert þó að þessi umræða sé óvenjusnemma árs. Það er hins vegar ljóst að fjárhagsvandi Landhelgisgæslunnar hefur nokkuð lengi verið kunnur eins og hæstv. dómsmrh. benti á í ræðu sinni. Það er einnig ljóst að það hefur verið komið að nokkru leyti til móts við þann fjárhagsvanda, og tekið kannski fyrst og fremst á uppsöfnuðum vanda.

Það er hins vegar annað sem vekur séstaka athygli. Ég hlustaði grannt eftir því í ræðu hæstv. dómsmrh. hvort einhver skýring kæmi fram á því hvers vegna ekki hefði verið brugðist við hluta af þeim tillögum sem m.a. komu fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar við þá úttekt sem stofnunin gerði á Landhelgisgæslunni. Það er nefnilega þannig, herra forseti, að það er ekki bara verið að fjalla um fjárhagsvanda stofnunarinnar í skýrslu Ríkisendurskoðunar heldur er bent á fjölmörg dæmi um það sem betur má fara í skipulagi og uppstokkun ýmissa mála. Nefna mætti fjölda dæma þar um.

Meginspurningarnar til hæstv. dómsmrh. hljóta að vera: Hvers vegna hefur ekki verið brugðist við þeim tillögum sem fram komu í skýrslunni? Hvers vegna þarf enn einu sinni að skipa starfshóp? Hvers vegna gat hinn fyrri starfshópur ekki lokið þessu verki? Er einhver vandi annars staðar við að taka ákvarðanir? Hvernig stendur á því að það er ekki hægt að bregðast við einföldum, augljósum tillögum úr skýrslu Ríkisendurskoðunar sem mundu spara fé, og ekki bara það heldur og tryggja að betur sé farið með fjármuni hins opinbera? En það á að sjálfsögðu að vera leiðarljós okkar í þessu máli sem öðrum.