Landhelgisgæslan

Mánudaginn 27. janúar 2003, kl. 16:34:08 (3060)

2003-01-27 16:34:08# 128. lþ. 65.96 fundur 381#B Landhelgisgæslan# (umræður utan dagskrár), SJS
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur, 128. lþ.

[16:34]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég þakka hv. málshefjanda Guðjóni A. Kristjánssyni fyrir að taka þetta mál upp. Það er sannarlega ástæða til. Um leið vil ég segja að það er dapurlegt að verða vitni að því hversu naumt er skammtað í fjárveitingum til Landhelgisgæslunnar. Þó að það sé vissulega ánægjulegt að Gæslan eigi víða hauka í horni og velunnara er það umhugsunarefni þegar svo er komið að hún þarf fyrst og fremst að reiða sig á samskot til að fjármagna tækjakaup eða bæta á einhvern hátt búnað sinn.

Það vekur líka spurningar, herra forseti, hversu gáfulegt sé að nýta tækjakost jafnlítið og raun ber vitni þegar iðulega berast fréttir af því að eitt og jafnvel ekkert skip Gæslunnar sé á sjó. Nýlega lenti flutningaskip í vanda undan suðurströnd landsins, og fréttum af þeim atburði fylgdi að Gæslan hefði ekki verið í aðstöðu til að senda varðskip til að liðsinna skipinu eða reyna að bjarga því.

Þar á ofan, herra forseti, hefur einmitt hér á Alþingi nýlega verið rætt um aukin verkefni sem með lögum á að leggja á herðar Landhelgisgæslunni, þ.e. að gæta sérefnahagslögsögunnar í mengunarvarnaskyni. Þar er um að ræða viðamikla löggjöf og umfangsmikið hlutverk sem Landhelgisgæslan á nú að taka á sínar herðar. Ég fæ illa séð að það gangi upp nema því fylgi einhverjir fjármunir.

Niðurstaða mín er því sú að það sé algerlega óhjákvæmilegt að búa betur að Gæslunni, ekki bara hvað tækjakost snertir, samanber undirbúning að byggingu nýs skips, heldur einnig fjárveitingar. Það er út af fyrir sig lítið að gera með góð tæki ef ekki eru peningar til þess að nýta þau.

Síðast en ekki síst verð ég að segja að reynslan kennir okkur það jafnan að ekkert getur komið í staðinn fyrir okkar eigin viðbúnað, staðkunnugra manna, hvað björgunarstörf snertir. Ég gef mér það, herra forseti, að við ætlum að reyna að mannast til að gæta þeirrar landhelgi sem ekki síst Gæslan átti sinn stóra þátt í að færa þjóðinni á sínum tíma.