Landhelgisgæslan

Mánudaginn 27. janúar 2003, kl. 16:41:21 (3063)

2003-01-27 16:41:21# 128. lþ. 65.96 fundur 381#B Landhelgisgæslan# (umræður utan dagskrár), dómsmrh.
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur, 128. lþ.

[16:41]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir):

Herra forseti. Ég þakka fyrir ágæta umræðu um málefni Landhelgisgæslunnar. Það er morgunljóst að þar fer fram afar mikilvægt starf, ekki síst á sviði öryggismála. Ég er fullkomlega sammála hv. málshefjanda um að búa þurfi vel að starfseminni. Við höfum hins vegar, þvert gegn því sem hér hefur verið haldið fram, unnið að því að styrkja starfsemina, m.a. með verulegum fjárframlögum. Við þessu var brugðist, hv. þingmaður, og það kemur skýrt fram í tillögum þess starfshóps sem var m.a. myndaður með starfsmönnum Landhelgisgæslunnar.

Varðandi varðskipið Óðin hefur ráðuneytið að undanförnu fengið upplýsingar frá Landhelgisgæslunni um að mögulega sé kostnaðurinn við að koma Óðni í nothæft ástand ekki jafnmikill og áætlaður var á síðasta ári af Landhelgisgæslunni. Ef unnt er að staðfesta það með skýrum hætti mun ráðuneytið að sjálfsögðu taka til skoðunar hvort það sé hagkvæmari lausn en aðrar sem nefndar hafa verið.

Hv. þm. nefndi líka mikinn kostnað af þyrlurekstrinum og þá staðreynd að einungis lítill hluti af björgunarflugi Gæslunnar er úti á sjó. Hvað varðar flugreksturinn hefur það ítrekað komið fram að huga þurfi að endurskipulagningu hans í heild sinni. Bæði kemur þetta fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar og niðurstöðum starfshópsins á síðasta ári. Þetta verður auðvitað einnig atriði sem hinn nýstofnaði starfshópur mun taka upp á sína arma og setja í skýrari farveg með starfsfólki Gæslunnar.

Hvað varðar kostnað vegna t.d. sjúkraflugs Landhelgisgæslunnar hef ég tekið það atriði sérstaklega upp við hæstv. heilbr.- og trmrh. sem leiddi til þess að fulltrúar Landhelgisgæslunnar, Tryggingastofnunar ríkisins, heilbrn. og dómsmrn. eru að fara ítarlega yfir þau mál.

Jafnframt bind ég vonir við að bráðlega verði unnt að taka ákvörðun um útboð á nýju varðskipi sem yrði að sjálfsögðu mikil lyftistöng fyrir alla starfsemi Landhelgisgæslunnar. Að mínum dómi eru allar forsendur til þess að taka ákvörðun þar að lútandi innan skamms. Málefni Landhelgisgæslunnar eru í skýrum farvegi.