Könnun á umfangi fátæktar

Mánudaginn 27. janúar 2003, kl. 17:05:18 (3067)

2003-01-27 17:05:18# 128. lþ. 65.13 fundur 51. mál: #A könnun á umfangi fátæktar# þál., Flm. JóhS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur, 128. lþ.

[17:05]

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um könnun á umfangi fátæktar sem ég flyt ásamt hv. þm. Guðmundi Árna Stefánssyni, Guðrúnu Ögmundsdóttur og Karli V. Matthíassyni.

Tillagan felur í sér að félmrh. láti fara fram úttekt á umfangi, orsökum og afleiðingum fátæktar á Íslandi, bæði félagslegum og fjárhagslegum, með það að markmiði að leggja fram tillögur um úrbætur sem treysti öryggisnet velferðarkerfisins. Til að ná því markmiði verði lágmarksframfærslukostnaður eftir fjölskyldugerð skilgreindur og gerðar tillögur til úrbóta sem miði við að enginn hafi sér til framfærslu tekjur undir skilgreindum framfærslumörkum.

Úttektin verði unnin í nánu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga. Niðurstöður ásamt tillögum um aðgerðir til úrbóta verði lagðar fyrir Alþingi á haustþingi 2003.

Herra forseti. Á undanförnum mánuðum og missirum hafa komið fram upplýsingar sem staðfesta mikla aukningu á fjölda fátækra og þeirra sem glíma við mikla fjárhagserfiðleika. Mæðrastyrksnefnd hefur upplýst að fjöldi þeirra sem leita sér aðstoðar og matargjafar var 40% meiri á síðasta ári en á árinu 2001. Fram hefur komið hjá Félagsþjónustunni í Reykjavík að auka þurfti fjármagn vegna fjárhagsaðstoðar um 150 millj. á síðasta ári og að fjárhagsaðstoð hjá Félagsþjónustunni í Reykjavík jókst um 48% milli áranna 2001 og 2002.

Ljóst er að þessar tölur sýna okkur að meðan ríkisstjórnin hefur verið að skerða eðlilegar bætur til þeirra sem síst skyldi, þ.e. öryrkja og atvinnulausra og aldraðra, þá sýna þessar tölur um aukningu á fjárhagsaðstoð t.d. hjá Reykjavíkurborg, að ríkisvaldið er að velta þessum vanda yfir á sveitarfélögin, vegna þess að það segir sig sjálft að þegar að kreppir hjá þessum hópum og staða þeirra verður verri, m.a. vegna þess að þeir hópar hafa ekki fengið það sem þeim ber af því góðæri sem við höfum búið við á undanförnum árum, þá neyðist þetta fólk til þess að leita sér að aukinni fjárhagsaðstoð hjá sveitarfélögum.

Það er auðvitað illa komið fyrir einni ríkustu þjóð heims þegar fátækt og oft fullvinnandi fólk þarf í vaxandi mæli að sækja sér matargjafir til líknarsamtaka til að svelta ekki. Það er einmitt það sem við höfum verið að sjá á umliðnum árum. Og það sem lesa má í ágætri úttekt, samantekt Morgunblaðsins sem birtist í síðasta sunnudagsblaði, er að vinnandi fólk þarf í auknum mæli að leita sér aðstoðar. Í hópi fátækra er fjöldi öryrkja og aldraðra, einstæðir foreldrar, einstæðingar og barnmargar fátækar fjölskyldur. Mæðrastyrksnefnd stendur fyrir vikulegum úthlutunum á matargjöfum þar sem húsið fyllist af fólki sem nær ekki endum saman og á ekki fyrir brýnustu nauðþurftum út mánuðinn. Það er alveg ljóst, herra forseti, að þangað fer fólk ekki fyrr en í algjörri neyð.

Einnig hefur komið fram, herra forseti, að stöðugt fjölgi í þeim hópi fólks sem hefur ekki efni á að leita til læknis eða leysa út lyfin sín. M.a. sagði formaður Eflingar ekki fyrir margt löngu að það væri orðið áberandi að læknar vísi fólki til sérfræðinga eða í rannsóknir, en það skili sér ekki þangað. Svo langt hefur verið gengið að fólk sem ekki á fyrir lyfjum né mat eins og mörgum þeirra sem lifa þurfa af lífeyri almannatrygginga eða sambærilegum tekjum, er gert að greiða skatt til samfélagsins sem samsvarar mánaðarlífeyrisgreiðslum þeirra.

Þetta eru lýsandi dæmi um hvernig þjóðfélagið bregst skyldum sínum við fátækt fólk og hvernig öryggiskerfið í velferðarmálum Íslendinga er brostið. Ekki síst sýnir þetta þó hvernig ráðamenn fótumtroða stjórnarskrárbundinn rétt þeirra til aðstoðar sem höllum fæti standa.

Herra forseti. Þrátt fyrir að þessi mál hafi ítrekað verið rædd á hv. Alþingi, þrátt fyrir að leitað hafi verið eftir utandagskrárumræðum um málið, m.a. við hæstv. forsrh. vegna þess að málið snertir mörg ráðuneytið, þá hefur hæstv. ráðherra neitað slíkum utandagskrárumræðum. Umræða utan dagskrár var þó um málið í nóvembermánuði sl. við félmrh. um stöðu lágtekjufólks og hæstv. ráðherra neitaði því þá að fara með málið fyrir ríkisstjórnina þegar ég spurði hann um það, en sagði að ef í ljós kæmi að sár fátækt mundi aukast marktækt og fjölskyldur og einstaklingar líða skort, yrði það að sjálfsögðu rætt í ríkisstjórn og leitað leiða til úrbóta.

Herra forseti. Það kom einmitt fram í Morgunblaðinu í gær að málið hefur greinilega verið rætt í ríkisstjórninni og ráðherranefnd fjögurra ráðuneyta er að ræða þessi mál.

Herra forseti. Loksins kom að því eftir að við höfðum ítrekað hamrað á því á þinginu og ekki bara hér innan dyra, heldur hefur fólk sem vinnur við þessi mál marghamrað á því, fjölmiðlar verið mjög ötulir við að upplýsa um vaxandi fátækt í þjóðfélaginu, að ríkisstjórnin gat ekki lengur barið höfðinu við steininn og hefur viðurkennt að fátækt hafi farið vaxandi í þjóðfélaginu og málið sé komið í þá stöðu að ástæða sé til að skipa ráðherranefnd í málið.

Og það er einmitt það sem kemur fram í þessari ágætu úttekt í Morgunblaðinu, að þær leiðir sem menn benda á að þurfi að fara í þessum málum, eru nákvæmlega þær leiðir sem við í Samfylkingunni höfum verið að leggja til, m.a. með þeirri tillögu sem ég mæli fyrir, um að menn fari í það að skilgreina þennan vanda, orsakir og afleiðingar fátæktar, bæði félagslegar og fjárhagslegar og komi með úrbætur sem treysti öryggisnet velferðarkerfisins.

Það ætti auðvitað að styðja málstað ríkisstjórnarinnar ef hún ætlar að fara að taka á þessu máli, að Alþingi álykti í þessum málum, þannig að ríkisstjórnin komist nú ekki upp með að leggja þessi mál ofan í skúffuna. Það er auðvitað nauðsynlegt að fá það líka fram eins og var reynt hér í óundirbúnum fyrirspurnum í dag, hvort ríkisstjórnin ætli að gera eitthvað raunhæft í málunum áður en þing fer heim, eða hvort þetta sé bara einhver sýndarmennska hjá ríkisstjórninni, að hún geti ekki lengur undan því vikist að skoða málið a.m.k. af því að kosningar eru í nánd.

Herra forseti. Lesa má út úr þeirri úttekt sem er í Morgunblaðinu í dag, og er þá stuðst við eldri mælingar eða rannsóknir á fátækt frá árinu 1997--1998, að það séu um 19.000 manns á Íslandi sem búi við fátækt. Og það er athyglisvert ef maður skoðar norrænan samanburð í þessu máli að stærsti hópurinn sem býr við fátækt af norrænu þjóðunum er á Íslandi. Mælingin 1997--1998 sýndi að um 6,8% búa við fátæktarmörk á Íslandi, í Danmörku eru það 5,3%, í Finnlandi 4,1%, í Noregi 3,5% og í Svíþjóð 4,9%.

Herra forseti. Það er líka athyglisvert að félmrn. hefur raunverulega skilgreint hvað er fátækt, vegna þess að það er misvísandi hvaða merkingu menn leggja í orðið ,,fátækt``, að í leiðbeiningum félmrn. frá því í nóvember 1996 kemur fram hvaða þættir eru álitnir nauðsynlegir einstaklingum til þess að framfleyta sér. Þar segir, herra forseti, að allir eigi að geta keypt sér fæði, klæði, hreinlætis- og snyrtivörur, heimilisbúnað, lyf og læknishjálp. Þeir eiga að geta greitt afnotagjald af síma og ríkisútvarpi, hita og rafmagn, dagvistarkostnað fyrir eitt barn, húsaleigu eða eðlilegan húsnæðiskostnað og staðið undir kostnaði af rekstri bifreiðar.

[17:15]

Félagsfræðingur sem kannaði þennan þátt og hvað vantaði þá upp á hjá þeim sem minnst hafa milli handanna til að geta staðið undir því sem félmrn. skilgreinir sem lágmarksframfærslu komst að þeirri niðurstöðu að það vantaði um 40 þús. kr. upp á þær bætur sem hið opinbera ætlaði einstaklingi til að lifa af á mánuði, þ.e. ef fara ætti eftir leiðbeiningum félmrn.

Hér er það einnig tíundað sem er mjög athyglisvert og verður að taka á, herra forseti, og það er hvernig við förum með barnabætur hér á landi og hvað þær hafa verið mikið skertar. Þar kemur fram að barnabætur byrja að skerðast þegar foreldri er komið með 53.000 kr. í tekjur á mánuði og samkvæmt því sem hér kemur fram hafa einungis um 11,4% einstæðra foreldra óskertar barnabætur og um 3,3% hjóna og sambúðarfólks. Með öðrum orðum: Þetta eru ekki barnabætur heldur eru þetta láglaunabætur einhvers konar.

En það er verra, herra forseti, eins og hér er haldið fram í þessari úttekt, að þar er sagt að það sé vaxandi einkenni á velferðarkerfinu að stjórnvöld bæta í það á eina hlið en taka út á hina, alveg eins og fjárhagsaðstoð sveitarfélaga, því barnabætur sem fólk fær skerða fjárhagsaðstoðina og síðan er það skattlagning á þessa lágtekjuhópa.

Það er reyndar líka mjög athyglisvert sem hér kemur fram um atvinnuleysisbæturnar, en þeir sem þær fá eru þeir sem minnst hafa á milli handanna. Atvinnuleysisbætur eru kannski einhvers staðar um 75.000 kr. eða u.þ.b. Margir á atvinnuleysisbótum hafa minna á milli handanna en þeir sem fá örorkubætur og þeir þurfa að borga sín lyf sjálfir og fá engin afsláttarkort eins og öryrkjar. Þessu þarf að breyta þannig að þegar fólk er á atvinnuleysisbótum þá sé því gert kleift að leysa út sín lyf og auðvitað eiga þeir sem eru á atvinnuleysisbótum að fá afsláttarkort eins og aðrir sem hafa lág laun.

Herra forseti. Ég sé að tíma mínum er að ljúka. Ég vil hvetja þingmenn til að fara yfir þessa úttekt sem gerð var í Morgunblaðinu. Hún er mjög athyglisverð og staðfestir allt það sem við höfum verið að segja um þessi mál á undanförnum mánuðum og missirum og hve brýnt er orðið að taka á þessum málum.

Það er ástæða til að nefna það hér, herra forseti, að fyrir liggur norræn úttekt sem sýnir að útgjöld til félags- og heilbrigðismála, t.d. aldraðra og öryrkja, eru miklu lægri hér á landi en annars staðar á Norðurlöndum og sama gildir um útgjöld vegna barna og barnafjölskyldna. Það sýnir okkur að velferðarkerfið hér er ekkert að sliga þjóðarbúið þrátt fyrir að á það sé oft bent þegar menn eru að leita leiða til sparnaðar.

Ég held nefnilega að það sé alveg hárrétt sem stendur í þessari úttekt Morgunblaðsins að það eru komnir brestir og brotalamir í velferðarkerfið og það þjónar ekki þeim sem það ætti helst að þjóna, þ.e. þeim sem búa við lægstu tekjurnar.

Herra forseti. Ég held að ekki leiki nokkur vafi á því að langstærsti hluti þjóðarinnar vill að hér sé stjórnað af meiri réttsýni og jöfnuði en því miður hefur stjórn ráðamanna á undanförnum árum einkennst af því að samhjálp og réttsýni er á undanhaldi. Það er örugglega þvert á vilja þjóðarinnar. Ég tel því að það sé forgangsverkefni í þjóðfélaginu að treysta á nýjan leik öryggisnet velferðarkerfisins þannig að hægt sé að losa fólk úr fjötrum fátæktar sem verður sífellt meira sýnileg í þjóðfélaginu. Á þessum málum verður því að taka, herra forseti. Þessi tillaga sem hér er flutt er viðleitni til þess að við förum nú í þetta verkefni og skilgreinum þennan vanda og komum með tillögur til úrbóta.

Herra forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til 2. umr. og hv. félmn.