Könnun á umfangi fátæktar

Mánudaginn 27. janúar 2003, kl. 18:00:23 (3073)

2003-01-27 18:00:23# 128. lþ. 65.13 fundur 51. mál: #A könnun á umfangi fátæktar# þál., SJS
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur, 128. lþ.

[18:00]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég kem hingað til að taka undir inntak þessarar tillögu. Ég held að það séu full efni til að taka þessa hluti til miklu rækilegri skoðunar á Íslandi en gert hefur verið og gera það skipulegar og með opinberum tilstyrk. Staðreyndin er sú að upplýsingar okkar um fátækt eða raunverulega hagi þeirra sem lakast eru settir byggja í allt of takmörkuðum mæli á viðamiklum rannsóknum og úttektum þar sem menn hafa haft aðstöðu, tíma og peninga til að fara rækilega ofan í saumana á hlutunum. Það er að vísu ákaflega virðingarvert framtak hjá einstaka fræðimönnum og jafnvel fræðistofnunum sem hafa sinnt þessu, fyrst og fremst af eigin áhuga en takmörkuðum efnum sem af sjálfu leiðir.

Það má einnig styðjast við ýmsar norrænar kannanir sem að hluta til hafa náð til Íslands, og ýmsar upplýsingar er auðvitað að finna hjá t.d. félagsmálastofnunum og öðrum aðilum sem við þetta sýsla. Ég held að það þurfi enginn, því miður, að fara í grafgötur um að það finnst sár fátækt á Íslandi. Sú fátækt, mæld á hvaða mælikvarða sem er, hvort heldur sem er algildan eða hlutfallslegan, er umtalsverð og hún er til staðar og hún er sár.

Á ráðstefnu sem Vinstri hreyfingin -- grænt framboð hélt um velferðarsamfélagið fyrir áramótin komu fram afar sláandi og í raun og veru ískyggilegar upplýsingar frá fólki sem þekkir þessa hluti ákaflega vel, t.d. Láru Björnsdóttur, félagsmálastjóra Reykjavíkurborgar, og Pétri Péturssyni, yfirmanni heilsugæslustöðvarinnar á Akureyri, um raunveruleg mannleg vandamál og raunverulegar aðstæður sem þau og samstarfsmenn þeirra mæta í störfum sínum.

Ég held, herra forseti, að því miður sé öryggisnetið í velferðarsamfélaginu okkar of gisið, það er of langt á milli möskva og þar detta ýmsir niður á milli, ekki bara einhverjir sem hafa misst starfsorku eða af öðrum slíkum áföllum, hafa orðið ófærir um að ala önn fyrir sér sjálfir, heldur fjöldinn allur af fólki sem berst harðri baráttu, vinnur fullan vinnudag en býr við það erfiðar félagslegar og efnalegar aðstæður að það nær ekki endum saman. Þetta fólk neyðist í vaxandi mæli til að leita á náðir velferðarsamtaka og stofnana eins og dæmin sanna. Að vísu, herra forseti, áskil ég mér alveg rétt til þess að hafa sjónarmið á því hvernig svona úttekt, ef samþykkt fengist, eða rannsókn sem kannski væri betra að kalla þetta yrði útfærð. Mér finnst dálítið mikið í fang færst að ætla að taka þetta allt í einu samhengi, að gera úttekt á umfangi, orsökum og afleiðingum fátæktar á Íslandi, bæði félagslegum og fjárhagslegum. Það er náttúrlega gríðarlega umfangsmikil nálgun á málið. Það má velta því fyrir sér hvort ekki væri betra að reyna að styðjast þarna við fræðilegar nálganir, sambærilegar þeim sem ég veit að hafa t.d. verið notaðar í Noregi og miklar umræður hafa síðan sprottið af í framhaldinu. Þetta er ekki sagt til að gera lítið úr þörfinni fyrir að rannsaka alla þessa þætti. Það kann hins vegar að vera dálítið snúið að ná utan um það allt saman í einni rannsókn. Hún yrði a.m.k. gríðarlega viðamikil.

Eins er það með hugtakanotkun hér. Hugtakið ,,fátækt`` kann að fæla marga frá, og hugsanlega --- ég bendi hv. 1. flm. á --- gengi betur að nota hugtak hv. þm. Þuríðar Backman í þáltill. sem hún hefur ítrekað flutt á þingi þar sem talað er um að gera ,,lífskjarakönnun``, ítarlega lífskjarakönnun sem að sjálfsögðu hefur það að meginmarkmiði að draga fram aðstæður þeirra sem þar eru lakast settir því að af hinum þurfum við ekki að hafa sérstakar áhyggjur.

Tillaga hv. þm. Þuríðar Backman gengur út á lífskjarakönnun sem jafnframt væri brotin upp eftir landshlutum. Það held ég að væru líka gagnlegar upplýsingar þannig að hvort sem við notumst við hugtök eins og fátækt eða segjum lífskjarakönnun þar sem hagsmunir þeirra lakast settu eru sérstaklega hafðir í huga væri jafnframt gagnlegt, held ég, að skoða mismunandi aðstæður fólks, þar á meðal búsetu. Hér voru sauðfjárbændur nefndir fyrr í umræðunni og ég held að líka gæti verið fróðlegt að sjá hvernig lífskjörin leggja sig eftir stéttum miðað við aldur, samsetningu og annað.

Staðreyndin er að Ísland er ekkert sérstaklega fjölskylduvænt samfélag og ég tek undir það sem hv. þm. Sigríður Jóhannesdóttir sagði áðan, það er auðvitað sérstaklega ástæða til að hafa áhyggjur af hagsmunum barnmargra fjölskyldna, ekki síst þar sem einstætt foreldri eða ein fyrirvinna er til staðar.

Ég vil síðan tæpa á því sem hv. þm. Pétur Blöndal nefndi um fátækt. Áður hef ég heyrt svipuð sjónarmið koma fram hjá hv. þingmanni þar sem mér finnst hann nánast hafna því að skoðaðir séu báðir mælikvarðarnir, hlutfallsleg fátækt og algild fátækt. Ég tel alveg jafngilt að skoða þetta hvort tveggja vegna þess að menn búa og deila kjörum með því samfélagi þar sem þeir eru settir. Þó að menn séu ekki sárfátækir á mælikvarða fátækustu Afríkuríkja í algildum skilningi eru þeir sárfátækir við íslenskar aðstæður, t.d. einstæðir foreldrar sem ekki hafa efni á því að veita börnum sínum lágmarkslífsgæði í uppvextinum, verða að neita þeim um það sem jafnaldrar þeirra og skólasystkin fá frá sínum foreldrum, t.d. í formi tómstunda og annarra slíkra hluta. Þetta þekkjum við öll. Það þarf ekki annað en að taka þátt í starfi foreldrafélaga eða íþróttafélaga í landinu til þess að rekast svo gott sem daglega á þetta vandamál. Það eru þúsundir fjölskyldna svo illa settar fjárhagslega að þær ráða ekki við að veita börnum sínum sambærilega hluti að þessu leyti eins og aðrar fjölskyldur. Er það ekki fátækt? Jú, það er fátækt og hún er mjög sár þó að menn svelti ekki heilu hungri í skilningi 18. eða 19. aldar. Við verðum að ræða þessi hluti svona og setja þá í samhengi. Fátæktin í þessum skilningi er ekki síður mælikvarði á það hvort maður getur sjálfur tekið nokkurn veginn fullgildan þátt í sínu samfélagi miðað við þann framfærslukostnað sem þar er. Það er það sem við verðum að horfast í augu við. Það nægir fátæku fólki á Íslandi ekki þegar það er að reyna að komast af og ala upp sín börn að það sé erfiðara fyrir menn að gera það í öðrum heimsálfum. Þannig er það auðvitað ekki.

Þess vegna ber að skoða þetta hvort tveggja. Út af fyrir sig er rétt að menn hafi alltaf í huga nákvæmlega hvaða hugtök unnið er með. Eru menn að tala um þessar hlutfallslegu mælingar þar sem menn velja sér viðmiðun og skoða stöðu lakast setta hópsins eða eru menn að tala um algilda mælikvarða þar sem menn eru bara að reyna að reikna það út hvort menn eiga fyrir mat og geta í þeim einfaldasta skilningi dregið fram lífið, eiga fyrir næringu og kannski því að krókna ekki úr kulda sem er hlutskipti margra í velmegunarríkjunum? Staðreyndin er sú að nýkapítalisminn, nýfrjálshyggjan með sínum breytingum í samfélaginu, hefur hvarvetna á byggðu bóli þar sem hún er praktíseruð leitt til vaxandi lífskjaramunar. Fámennur hópur verður enn þá ríkari en fyrr en mikill fjöldi þeirra sem lakast eru settir hefur það verra en áður, jafnvel þó að samfélagið sem heild, þjóðarbúið sem heild, velti meiru.