Vísinda- og tækniráð

Mánudaginn 27. janúar 2003, kl. 18:20:05 (3075)

2003-01-27 18:20:05# 128. lþ. 65.11 fundur 336. mál: #A Vísinda- og tækniráð# frv. 2/2003, GAK
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur, 128. lþ.

[18:20]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Við erum hér við lokaumræðu um frv. til laga um Vísinda- og tækniráð. Ég hef gert grein fyrir afstöðu minni og okkar í Frjálslynda flokknum. Reyndar er búið að afgreiða tvö frv. af þremur sem fylgdust að í meðförum þingsins en afgreiðslu frv. um Vísinda- og tækniráð var sem sagt frestað.

Ég get í sjálfu sér tekið undir það sjónarmið og vegvísi þessa frv. að efla þurfi vísinda- og tæknirannsóknir og tækniþróun. Það er enginn vafi í mínum huga að framfarir í vísindum og tækni eru og verða okkur enn frekar til mikils ávinnings í framtíðinni. Ef þessi frumvörp stefna til þess sem mér sýnist að geti verið að mörgu leyti tel ég það geta orðið okkur til farsældar. Ég tel að það sé peninganna virði að verja meira fé til þessara mála, efla vísinda- og tæknimenntun og aðstoð við framþróun á þeim sviðum í landinu.

Hins vegar felli ég mig illa við þann farveg sem hér er valinn og kemur aðallega fram í 3. gr. frv., að 10 fulltrúar af 18 í Vísinda- og tækniráði skuli annaðhvort vera ráðherraskipaðir beint eða þá starfandi ráðherrar. Auk þess eru síðan tveir ráðherrar til viðbótar heimilir. Þá eru ráðherraskipaðir eða ráðherrarnir sjálfir skv. 3. gr. orðnir 12 af 20, en ella 10 af 18. Það er beinlínis tekið fram í 3. gr. að auk framangreindra fulltrúa sem þar eru upp taldir skuli menntmrh. skipa einn beint, iðnrh. einn, sjútvrh. einn, landbrh. einn, heilbr.- og trmrh. einn og umhvrh. einn. Auk framangreindra skulu síðan eiga sæti í ráðinu forsrh., fjmrh., iðnrh. og menntmrh. sem eiga föst sæti í ráðinu og þar að auki skal forsrh. vera heimilt að kveðja til tvo ráðherra til setu í ráðinu í senn til viðbótar. Forsrh. sjálfur er svo formaður ráðsins.

Ráðið er þannig uppsett að annaðhvort eru menn skipaðir beint af ráðherrum sem fulltrúar þeirra, gætu þess vegna verið ráðuneytisstjórar viðkomandi ráðuneyta, eða að ráðherrarnir sjálfir sitja í þessu ráði. Og ég verð að segja eins og er, herra forseti, að þó að ég sé ekki andvígur því að stjórnvöld tengist stefnumótun og skipulagi vísinda og tækni í landinu í gegnum tækniráð finnst mér þessi uppsetning aðfinnsluverð, að það megi beinlínis finna í báðum tilvikunum svo marga ráðherra eða ráðherraskipaða. Hvort sem 18 sitja í ráðinu eða meiri hlutinn er aukinn í því og 20 sitja í ráðinu eru annars vegar 10 pólitískt kjörnir í ráðinu og ráða því þannig eða þá 12 af 20. 10 af 18 eða 12 af 20.

Ég get ekki séð annað, herra forseti, en að málið sé þannig vaxið að stjórnvöld séu beint með völdin í þessu ráði til þess að forgangsraða handvirkt í því sem þau vilja forgangsraða. Stjórnvöld sitja þarna beint við fundarborð og fjalla um verkefni, fjalla um áherslur fyrir vísindasamfélagið og geta stýrt því pólitískt. Þeir hafa meiri hluta í ráðinu hvernig sem á það er litið.

Mér finnst þetta fyrir minn smekk of mikil pólitísk miðstýring. Þetta er eins konar ráðstjórnarfyrirkomulag, svipað og þekktist í gamla austrinu þar sem allir í Dúmunni sátu í ákveðnum ráðum og réðu nánast öllu sem þeir vildu ráða. Mér finnst ekki mikil framför hjá ríkisstjórn Sjálfstfl. og Framsfl. að koma þessu fyrir með þessum forna hætti sem fannst í hinu gamla sovétskipulagi. Ég get stutt það að hér verði ákveðin framþróun í vísindum og tækni og er tilbúinn að leggja því lið að í það verði settir meiri fjármunir en við höfum kannski gert á undanförnum árum en ég tel óráð að gera það með þessu fyrirkomulagi þar sem verkunum verður miðstýrt póltískt. Samkvæmt frv. verður sem sagt pólitísk miðstýring stjórnvalda á hverjum tíma í þessu ráði.

Af þeim sökum, herra forseti, mun ég ekki greiða þessum málum atkvæði í þinginu þó að ég sé efnislega sammála því að efla hér vísinda- og tæknistörf. Og ég held, herra forseti, að hægt hefði verið að finna þessum málum betri farveg en að láta meiri hluta ríkisstjórnarinnar sitja í tækniráðinu, annaðhvort beint sem ráðherrar eða með trúnaðarmenn sína beint í ráðinu. Þar af leiðandi skrifaði ég ásamt þingmönnum Samfylkingarinnar, hv. þm. Guðrúnu Ögmundsdóttur og Lúðvíki Bergvinssyni, undir álit þar sem við lýstum þessum skoðunum okkar og tjáðum að við mundum ekki styðja þetta mál eins og það væri sett upp.

Í 3. gr. sem ég vék að áðan og taldi upp hverja ætti að skipa í ráðið af ráðherrunum eru fjórir samkvæmt tilnefningu samstarfsnefndar háskólastigsins, tveir frá Alþýðusambandi Íslands og tveir frá Samtökum atvinnulífsins. Þessir átta koma sem sagt beint úr atvinnulífinu eða úr háskólaumhverfinu en aðrir eru pólitískt skipaðir og pólitískt ráðnir og þessu stjórna svo forsrh., fjmrh., iðnrh. og menntmrh. sem eiga föst sæti í ráðinu og geta þar að auki kallað tvo til viðbótar inn í ráðið. Sex ráðherrar geta því setið í ráðinu og stjórnað þar öllum verkum plús aðrir sex trúnaðarmenn ráðherra.

Ég endurtek, herra forseti, að ég mun sitja hjá við afgreiðslu þessa máls og tel að hér sé verið að koma upp miðstýrðu ráðstjórnarfyrirkomulagi frá gamalli tíð.