Færeyska fiskveiðistjórnarkerfið

Mánudaginn 27. janúar 2003, kl. 18:30:21 (3076)

2003-01-27 18:30:21# 128. lþ. 65.17 fundur 56. mál: #A færeyska fiskveiðistjórnarkerfið# þál., Flm. HjÁ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur, 128. lþ.

[18:30]

Flm. (Hjálmar Árnason):

Herra forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um skipan nefndar til að meta kosti og galla færeyska fiskveiðistjórnarkerfisins. Hún hljóðar svo, herra forseti:

,,Alþingi ályktar að fela sjávarútvegsráðherra að skipa nefnd sem meti kosti og galla færeyska fiskveiðistjórnarkerfisins. Nefndina skipi einn fulltrúi frá hverjum eftirtalinna aðila: Háskóla Íslands, sjávarútvegsdeild Háskólans á Akureyri, Hafrannsóknastofnuninni, Samtökum fiskvinnslustöðva og sjávarútvegsráðherra sem jafnframt skipar formann.

Sjávarútvegsráðherra kynni Alþingi niðurstöður nefndarinnar eigi síðar en 15. mars 2003.``

Herra forseti. Tilefni þessarar þáltill. er sú umræða sem orðið hefur í samfélaginu að undanförnu um hið svokallaða færeyska fiskveiðistjórnarkerfi. Margir hafa lýst aðdáun sinni á því kerfi og hvatt til þess að það fiskveiðikerfi yrði tekið upp hér. Hins vegar finnst mér hafa skort nokkuð í þeirri umræðu að hafa einhverja heildarsýn á því kerfi, hvað í því felst, hvað er færeyska fiskveiðistjórnarkerfið, hvert er einkenni þess, hvaða áhrif það hefur á samfélagið o.s.frv.

Markmið tillögunnar er að nefnd sú sem lýst hefur verið fái það verkefni að skoða þetta fiskveiðikerfi út frá eiginlega öllum hugsanlegum hliðum, leggja mat á tengsl fiskveiðiráðgjafar við heimilaðan afla, brottkast, þjóðhagslegan ávinning, takmörkun afkastagetu fiskveiðiflotans, tengsl landvinnslu og útgerðar, launamál sjómanna, verndun veiðistofna og þar fram eftir götunum. Með öðrum orðum að skoða þetta færeyska fiskveiðistjórnarkerfi frá öllum hugsanlegum hliðum og leggja þar til grundvallar þjóðhagslega hagsmuni en bera það síðan saman við það fiskveiðistjórnarkerfi sem við notum hér út frá þjóðhagslegum sjónarmiðum til að reyna síðan að leggja mat á þessi tvö kerfi.

Ég tel, herra forseti, að fyrr en slíkar upplýsingar liggi fyrir sé í rauninni erfitt að taka afstöðu til tveggja ólíkra fiskveiðistjórnarkerfa. Ég hef átt þess kost að ræða við marga Færeyinga, bæði í gegnum vináttu og ættartengsl þangað en ekki síður vegna starfa minna hjá Vestnorræna þingmannaráðinu. Það vekur athygli að almennt í Færeyjum, meðal sjómanna, útgerðarmanna, vinnslustöðva, banka o.s.frv. virðist ríkja mikil ánægja með fiskveiðistjórnarkerfi þeirra og því er ekki óeðlilegt að við horfum til þess, eins og reyndar heyra má af fréttum að fleiri geri t.d. Skotar, með það í huga að velta því upp hvort þarna geti verið komið fiskveiðistjórnarkerfi sem felur í sér meiri sátt en óneitanlega er um það kerfi sem við styðjumst við núna og höfum gert síðustu áratugina.

Í rauninni þarf ekki mikið meira um þetta að segja. Þetta er einföld till. til þál. um skipan nefndar til að gera eins hlutlausa úttekt og hægt er á kostum og göllum færeyska fiskveiðistjórnarkerfisins og bera það saman við það fiskveiðistjórnarkerfi sem við höfum hér með það í huga að umræðan í samanburðinum geti kannski orðið ögn upplýstari en hún er í dag og í framhaldi af því geti menn síðan tekið ákvarðanir.

Ég mælist til þess, herra forseti, að að lokinni fyrri umr. verði málinu vísað til síðari umr. og hv. sjútvn. Alþingis.