Sjómannalög

Mánudaginn 27. janúar 2003, kl. 18:42:28 (3080)

2003-01-27 18:42:28# 128. lþ. 65.21 fundur 60. mál: #A sjómannalög# (bótaréttur) frv., Flm. HjÁ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur, 128. lþ.

[18:42]

Flm. (Hjálmar Árnason):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á sjómannalögum, nr. 35/1985.

Meðflutningsmenn mínir eru hv. þm. Magnús Stefánsson og Guðjón Arnar Kristjánsson.

Í raun er þetta afskaplega einfalt frv. um breytingu á sjómannalögunum og hljóðar svo:

,,3. mgr. 26. gr. laganna verður svohljóðandi:

Verði skiprúmssamningi slitið af þeim sökum er greinir í 1. mgr. á skipverji rétt til kaups skv. 25. gr. að lágmarki í þrjá mánuði frá því að hann kemur til heimilis síns.``

Hér er um endurflutning að ræða. Frumvarpið var lagt fram á 127. löggjafarþingi en náði ekki fram að ganga og er nú lagt fram efnislega óbreytt.

Í stuttu máli gengur frv. út á það að við skipsskaða eins og lögin eru núna, falla þeir skipverjar, sem eru svo lánsamir að lifa af sjóslys, af launaskrá nánast á því augnabliki sem skipið fer niður. Þetta er mikið óréttlæti og stingur í rauninni í stúf við að ef skipi er lagt, t.d. vegna kvótaleysis eða annars slíks, þá halda sjómenn launum sínum í þrjá mánuði. Því hlýtur það að hljóma kaldhæðnislega að við skipsskaða skuli menn vera verr settir séu þeir svo lánsamir að lifa skipsskaðann af. Þetta byggir í rauninni á gömlum og úreltum ákvæðum og eru ekki í takt við samtímann og er heldur ekki í takt við það sem hefur þróast í nágrannaríkjum okkar. Sú breyting á sjómannalögunum sem frv. felur í sér gerir ráð fyrir að skipverjar hljóti þennan sjálfsagða rétt, þ.e. að þeir haldi launum að lágmarki þrjá mánuði frá því að þeir koma til heimilis síns eftir skipsskaða.

Herra forseti. Að öðru leyti vísa ég í þskj. 60 og mælist til þess að málið gangi til 2. umr. og verði vísað til hv. samgn.