Álverksmiðja í Reyðarfirði

Þriðjudaginn 28. janúar 2003, kl. 13:36:51 (3083)

2003-01-28 13:36:51# 128. lþ. 66.10 fundur 509. mál: #A álverksmiðja í Reyðarfirði# frv., iðnrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 128. lþ.

[13:36]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um heimild til samninga um álverksmiðju Fjarðaáls í Reyðarfirði sem er á þskj. 842. Í frv. er lagt til að iðnrh. verði heimilað að semja við Alcoa um álverksmiðju í Reyðarfirði. Meginefni frv. byggir á sama grunni og lög um heimild til samninga um álver á Grundartanga sem samþykkt voru á 121. löggjafarþingi.

Í frv. er í fyrsta lagi lagt til að veitt verði heimild til að semja við Alcoa og félög í eigu þess um að reisa og reka álverksmiðju í Reyðarfirði með framleiðslugetu sem nemur allt að 322 þús. tonna af áli á ári.

Í öðru lagi er kveðið á um heimildir ríkisstjórnarinnar til að tryggja efndir af hálfu sveitarfélagsins Fjarðabyggðar og hafnarsjóðs Fjarðabyggðar.

Í þriðja lagi er kveðið á um skattlagningu vegna reksturs álverksmiðjunnar en hún verður í meginatriðum í samræmi við íslensk skattalög en með nokkrum sérákvæðum er helgast af sérstöðu fyrirtækisins.

Í fjórða lagi er kveðið á um lögsögu íslenskra dómstóla og gerðardóms.

Viðræður um byggingu álverksmiðju í Reyðarfirði hafa staðið yfir frá árinu 1997 þegar Hydro Aluminium lýsti yfir áhuga á byggingu álverksmiðju á Íslandi. Viðræðurnar við Reyðarál hf. sem þá var í eigu Hæfis og Hydro um svokallað Noral-verkefni stóðu yfir þar til í mars á liðnu ári þegar aðilar þess gáfu út sameiginlega yfirlýsingu um að ríkisstjórn Íslands og Landsvirkjun hefðu rétt til að leita nýrra samstarfsaðila að verkefninu. Í kjölfarið voru teknar upp viðræður við bandaríska álfyrirtækið Alcoa. Í þeim viðræðum nýttist sú vinna sem áður hafði verið unnin sem gerði kleift að ljúka samningum á mjög skömmum tíma.

Ég vil nú gera nokkra grein fyrir fyrirtækinu Alcoa Incorporated. Fyrirtækið, sem var stofnað 1888, er stærsta álfyrirtæki í heiminum í dag með rúmlega 120 þús. starfsmenn og starfar í 38 þjóðlöndum. Starfsemi fyrirtækisins tekur til allra þátta álframleiðslu, súráls, frumvinnslu áls og úrvinnslu. Alcoa þjónar flugvéla-, bifreiða-, umbúða-, byggingar-, samgöngu- og iðnaðarmörkuðum. Velta fyrirtækisins árið 2001 var 22,9 milljarðar bandaríkjadala. Fyrirtækið er m.a. skráð á verðbréfamörkuðum í New York, Brussel, Frankfurt, London, Sviss og Ástralíu. Áætlað er að hluthafar í fyrirtækinu árið 2001 hafi verið 266.800 og hlutir í því um 850 milljónir. Höfuðstöðvar þess eru í Pittsburgh í Pennsylvaníu.

Ég mun nú fara nokkrum orðum um álverið sem fyrirhugað er að reisa á um að bil 100 hektara landi úr jörðunum Sómastöðum, Sómastaðagerði og Hrauni í Reyðarfirði sem allar eru í eigu ríkissjóðs. Fjárfestingarkostnaður við að reisa álverið er áætlaður rúmlega 90 milljarðar kr. Árleg framleiðslugeta þess verður allt að 322 þús. tonn af áli, árlegt útflutningsverðmæti er áætlað um 40 milljarðar kr. og mun heildarvöruútflutningur aukast um 12%. Gert er ráð fyrir að rúmlega 455 ársverk skapist við álverið.

Þá er gert ráð fyrir 300 afleiddum störfum á Austurlandi. Þess má geta að erlendar rannsóknir sýna að við hvert starf í stóriðju verða til 2,5 afleidd störf. Því má gera ráð fyrir fjölgun starfa í iðju- og þjónustugreinum um land allt eftir að álverið hefur rekstur. Þá er ógetið áhrifa á framkvæmdatíma verkefnisins.

Undirbúningur álvers í Reyðarfirði hefur farið fram í samræmi við gildandi löggjöf og hefur almenningur átt þess kost að hafa áhrif á undirbúningsstigi. Frá því í desember 1999 hafa sex framkvæmdir er tengjast verkefninu á einn eða annan hátt komið til umfjöllunar Skipulagsstofnunar í mati á umhverfisáhrifum og ákvörðun um matsskyldu. Allar niðurstöður Skipulagsstofnunar utan ein hafa verið kærðar til umhvrh. Því hefur átt sér stað ítarleg umræða og aðgangur almennings að málinu hefur verið greiður á tveimur stjórnsýslustigum. Á þessum tíma hefur mat á umhverfisáhrifum álvers í Reyðarfirði þrisvar komið til umfjöllunar hjá Skipulagsstofnun.

Í desember 1999 úrskurðaði skipulagsstjóri ríkisins að frekara mat skyldi fara fram á umhverfisáhrifum 480 þús. tonna álvers. Úrskurðurinn var kærður til umhvrh. sem felldi hann úr gildi og ómerkti meðferð málsins.

Ný skýrsla um mat á umhverfisáhrifum var lögð fyrir Skipulagsstofnun um byggingu allt að 420 þús. tonna álvers í tveimur áföngum um mitt ár 2001. Í lok ágúst það ár féllst Skipulagsstofnun á framkvæmdina með skilyrðum um að ekki yrði búseta innan skilgreinds þynningarsvæðis álvers og rafskautaverksmiðju eftir að rekstur hæfist og að við umhverfisvöktun yrði fylgst með styrk PAH-efna í lofti, ákomu slíkra efna á jörð og afrennsli í sjó og uppsöfnun í sjávarseti og lífverum innan sem utan skilgreindra þynningarsvæða. Úrskurður Skipulagsstofnunar var kærður til umhvrh. sem staðfesti hann.

Í kjölfar aðkomu Alcoa voru Skipulagsstofnun tilkynntar breytingar á áformum um byggingu álvers í Reyðarfirði. Breytingarnar fólust einkum í minni framleiðslugetu. Þá var hætt við byggingu rafskautaverksmiðju og urðun kerbrota eða annarra úrgangsefna. Þann 20. desember sl. komst Skipulagsstofnun að þeirri niðurstöðu að breytingar á áformum um byggingu fyrirhugaðs álvers í Reyðarfirði væru ekki líklegar til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og skyldu því ekki háðar mati á þeim. Fyrri úrskurður stofnunarinnar um mat á umhverfisáhrifum álvers í Reyðarfirði fyrir allt að 420 þús. tonna ársframleiðslu auk rafskautaverksmiðju gilti því áfram að teknu tilliti til breytinga á framkvæmdaáformum.

Þessi niðurstaða hefur nú verið kærð og þess krafist að álverið verði úrskurðað í sjálfstætt mat á umhverfisáhrifum. Umhvrh. hefur fjórar vikur til að kveða upp úrskurð.

Breyting á deiliskipulagi iðnaðarsvæðis í Fjarðabyggð og tillaga Hollustuverndar ríkisins, nú Umhverfisstofnunar, að starfsleyfi fyrir starfsemi á iðnaðarsvæðinu við Hraun í Reyðarfirði voru auglýstar í desember sl. Í greinargerð Hollustuverndar með starfsleyfi og starfsleyfinu sjálfu kemur fram að álverið verði byggt í samræmi við bestu tækni sem völ er á miðað við það sem kynnt hefur verið í Evrópu og Norður-Ameríku. Í starfsleyfinu er ekki gert ráð fyrir vothreinsun en þess í stað verður öðrum aðferðum beitt til að tryggja að skilgreint þynningarsvæði vegna loftmengunar af völdum brennisteinsdíoxíðs sé virt.

Í greinargerðinni kemur m.a. fram að í fyrsta sinn hérlendis er gert ráð fyrir háum skorsteinum með góðum útblásturshraða til að tryggja dreifingu loftmengunar. Í greinargerðinni segir að nokkuð ljóst sé að hægt verði að tryggja að umhverfismörk verði virt alls staðar með aðferð sem þessari.

[13:45]

Hæstv. forseti. Ég vil nú víkja að samningum þeim sem gerðir verða vegna álversins.

Samkomulag við Alcoa og félög í eigu þess felur í sér fjóra samninga, þ.e. fjárfestingarsamning, lóðarsamning, hafnarsamning og rafmagnssamning. Samningarnir voru áritaðir í desember sl. og samþykktir af bæjarstjórn Fjarðabyggðar og stjórnum Alcoa og Landsvirkjunar í janúar en gert er ráð fyrir að þeir verði formlega undirritaðir verði frv. þetta að lögum.

Samningarnir eru í upphafi miðaðir við 20 ára rekstur en gert er ráð fyrir möguleika á framlengingu þeirra um önnur 20 ár. Ég mun lýsa þessum samningum í örstuttu máli en nánari lýsingu á þeim er að finna í fylgiskjölum með frv.

Fjárfestingarsamningur verður gerður milli ríkisstjórnar Íslands annars vegar og Alcoa Inc., Fjarðaáls sf., Alcoa á Íslandi ehf. og Reyðaráls ehf. hins vegar. Í samningnum er m.a. að finna ákvæði um skattamál félaganna sem að verkefninu standa. Þessi ákvæði eru mjög áþekk ákvæðum um fjárfestingarsamninga ríkisstjórnar Íslands, Columbia Ventures og Norðuráls hf. um álverið á Grundartanga. Í athugasemdum við greinar frv. er gerð nánari grein fyrir skattlagningu fyrirtækisins og að hvaða leyti vikið er frá almennum ákvæðum skattalaga. Í samningnum er gengið út frá því að farið verði að íslenskum lögum við uppbyggingu, túlkun og framkvæmd samninga sem gerðir verða innan ramma frv.

Lóðarsamningur verður milli ríkissjóðs og Fjarðaáls. Samkvæmt samningnum leigir ríkissjóður félaginu tæplega 100 hektara lóð úr landi jarðanna Sómastaða, Sómastaðagerðis og Hrauns. Í samningnum er m.a. kveðið á um að við lok gildistíma eða ef samningnum er sagt upp af ástæðum sem rekja má til félagsins skuli félagið fjarlægja verksmiðjuna og öll önnur tengd mannvirki og skila lóðinni til ríkissjóðs án þess að greiðsla komi fyrir. Hafnarsamningur verði milli hafnarsjóðs Fjarðabyggðar og Fjarðaáls. Samningurinn kveður m.a. á um rétt félagsins til að nota höfnina, hafnarlandið og hafnarmannvirki og greiðslur fyrir þessi not. Rafmagnssamningur verður milli Landsvirkjunar og Fjarðaáls. Raforkuþörf álversins er 4.704 gígavattstundir á ári og mun öll sú orka koma frá Kárahnjúkavirkjun. Samkvæmt samningnum mun Alcoa skuldbinda sig til að greiða Landsvirkjun fyrir 85% þessarar orku óháð því hvort fyrirtækið nýtir orkuna eða ekki.

Greinargerð forstjóra Landsvirkjunar um fyrirhugaðan rafmagnssamning Landsvirkjunar og Fjarðaáls er fylgiskjal með frv. Í henni kemur fram að áætlað er að núvirtur hagnaður Landsvirkjunar af orkusölunni verði um 6,6 milljarðar kr. eftir að eigendum hefur verið reiknuð 11% ávöxtun á eigin fé að raungildi. Að frumkvæði eigenda Landsvirkjunar var skipuð nefnd til að fjalla um arðsemi og fjárhagslega áhættu Kárahnjúkavirkjunar og sölu raforku til Fjarðaáls. Nefndin taldi að arðsemismat Landsvirkjunar væri vel rökstutt og að aðferðir sem fyrirtækið beitti við matið væru faglegar og í fullu samræmi við það sem almennt væri gert við mat á arðsemi fjárfestingarverkefna.

Loks taldi nefndin að sú aðferð Landsvirkjunar að nota mat viðurkenndra erlendra sérfræðinga til að spá um þróun álverðs væri eðlileg. Útboð hefur farið fram á tveimur meginþáttum sjálfra virkjunarframkvæmdanna, byggingu Kárahnjúkastíflu og gerð aðrennslisganga. Á grundvelli fyrirliggandi tilboða er kostnaður við gerð Kárahjúkavirkjunar að mestu þekktur.

Hæstv. forseti. Í athugasemdum frv. og fylgiskjölum er gerð ítarleg grein fyrir samfélagslegum og þjóðfélagslegum áhrifum verkefnisins. Það er kunnara en frá þurfi að segja að íbúaþróun á Austurlandi undanfarin ár er áhyggjuefni. Á síðustu 10 árum hefur íbúum svæðisins fækkað um meira en 1.000 manns og nú búa um 8.100 manns á Miðausturlandi. Í athugun Nýsis hf. á samfélagslegum og efnahagslegum áhrifum álversins kemur fram að miðað við gefnar forsendur muni íbúum á Miðausturlandi fjölga í um 10 þús. manns árið 2007 vegna framkvæmdanna. Áhrifa af framkvæmdunum mun gæta um allt land og er m.a. búist við að fjöldi iðnaðarmanna og verktaka á Austurlandi utan Miðausturlands og á Norðurlandi eystra muni taka þátt í verkefninu.

Atvinnuástand svæðisins hefur verið nokkuð gott þegar á heildina er litið en helstu veikleikar þess eru einhæfni í atvinnulíf, hátt hlutfall láglaunastarfa og fá starfstækifæri fyrir menntað fólk. Fyrirhugað álver mun með beinum, óbeinum og afleiddum hætti leiða til mikillar atvinnusköpunar, hærri atvinnutekna og aukinna viðskipta á Miðusturlandi. Um er að ræða nýja atvinnugrein á svæðinu sem hefði áhrif á margar aðrar greinar er selja vörur og þjónustu til álversins og starfsfólks þess. Atvinna tengd álverinu mun einnig auka möguleika þeirra sem starfa að ferðaþjónustu og landbúnaði á viðbótartekjum en atvinna í þessum tveimur greinum gefur almennt lágar tekjur og er árstíðabundin.

Efnahagslegra áhrifa álversins mun gæta um allt land. Fyrir liggur greinargerð efnahagsskrifstofu fjmrn. um þjóðfélagsleg áhrif framkvæmdanna. Í henni kemur fram að heildarfjárfesting í þjóðarbúskapnum gæti orðið rúmlega 30% meiri á framkvæmdatíma en ella. Þegar framkvæmdir standa sem hæst á árunum 2005 og 2006 má búast við að fjárfesting verði 47% meiri en án álversframkvæmda. Árlegur hagvöxtur mun aukast verulega og gæti orðið nálægt 5% árin 2005 og 2006 og verðbólga um 4,5--6,5% án mótvægisaðgerða. Athugun efnahagsskrifstofu fjmrn. bendir til að landsframleiðsla á framkvæmdatíma verði að jafnaði 3% hærri en í grunndæmi.

Árleg mannaflaþörf vegna framkvæmdanna nemur rúmlega 1.250 ársverkum að jafnaði á tímabilinu 2003--2006, eða um 0,8% af áætluðum mannafla á vinnumarkaði. Aukinn innflutningur fjárfestingarvara vegna framkvæmdanna og aukin umsvif í þjóðarbúskapnum munu valda auknum viðskiptahalla meðan á framkvæmdum stendur sem nemur að jafnaði 4,5% af landsframleiðslu á tímabilinu 2003--2006. Til langs tíma má reikna með að þjóðarframleiðsla verði 0,75% hærri en í grunndæmi og landsframleiðsla 1% hærri.

Í athugun efnahagsskrifstofu fjmrn. er gerð grein fyrir mögulegum mótvægisaðgerðum og áhrifum þeirra til að hamla gegn sveiflum í efnahagslífinu. Eins og fram kom í utandagskrárumræðu um þetta mál er á þessari stundu ekki hægt að segja fyrir um til hvaða sérstöku aðhaldsaðgerða þyrfti að grípa vegna Kárahnjúkavirkjunar og álversins. Þar skiptir mestu hver staða hagkerfisins verður þegar áhrifa framkvæmdanna fer að gæta. Hins vegar er ljóst að ef um slíkar aðgerðir verður að ræða verða þær tímabundnar. Framkvæmdirnar fyrir austan munu styrkja allt hagkerfið og bæta lífskjör þjóðarinnar. Hugsanlegar aðhaldsaðgerðir geta því ekki talist rök gegn framkvæmdunum.

Hæstv. forseti. Það er stór stund fyrir þá fjölmörgu sem að þessu verkefni hafa komið á liðnum árum, íbúa Austurlands og þjóðina alla, að horfast í augu við þá staðreynd að búið er að taka ákvörðun um að ráðast í framkvæmdir við stóriðju á Austurlandi. Ljóst er að um er að ræða mjög stóra framkvæmd á okkar mælikvarða sem mun hafa mjög víðtæk áhrif á efnahag þjóðarinnar. Framkvæmdin markar tímamót vegna þess að aldrei áður hefur verið ráðist í jafnmikla atvinnuuppbyggingu á landsbyggðinni. Atvinnuuppbygging undanfarinna ára hefur að stærstu hluta átt sér stað á suðvesturhorni landsins. Í því sambandi má nefna að grípa hefur þurft til efnahagslegra mótvægisaðgerða vegna þenslu á höfuðborgarsvæðinu með frestun opinberra framkvæmda, til að mynda á landsbyggðinni. Það hefur hins vegar verið yfirlýst stefna ríkisstjórnarinnar að reyna að stuðla að fjárfestingu í orkufrekum iðnaði í nágrenni við uppsprettu orkunnar.

Jökulárnar norðaustan Vatnajökuls hafa að geyma mikla orku. Í samræmi við þetta hefur ríkisstjórnin beitt sér fyrir því að álver rísi í Reyðarfirði. Nú munu Austfirðingar loks fá notið þess að þær auðlindir sem vatnsföllin eru verði nýttar þeim og öðrum landsmönnum til hagsbóta.

Herra forseti. Á undanförnum áratugum hafa ýmsir kostir verið skoðaðir til iðnaðaruppbyggingar á Austurlandi. Fram að þessu hafa allar slíkar kannanir farið út um þúfur. Austfirðingar hafa hins vegar sýnt þolinmæði og búið sig undir að takast á við þetta verkefni. Þeir hafa sýnt samstöðu í verki og andmælt þeim sem telja að framkvæmdir sem þessar séu óþarfa umhverfisspjöll. Viðbrögð Austfirðinga við þeim tíðindum að Alcoa hefði tekið ákvörðun um að byggja álver í Reyðarfirði komu mér ekki á óvart. Íbúarnir gera sér grein fyrir að þessi ákvörðun blæs nýju lífi í atvinnuuppbyggingu á svæðinu og boðar breytta tíma.

Nú verður ekki lengur um íbúaflótta og stöðnun í atvinnulífi að ræða. Á næstu árum mun Austurland einkennast af framkvæmdum og umsvifum í atvinnulífinu. Þessa tækifæris hafa íbúarnir beðið og búið sig undir að nýta þá miklu möguleika sem það gefur.

Það urðu mér vonbrigði að heyra andstæðinga framkvæmdanna lýsa því yfir að málinu væri ekki lokið og að áfram yrði barist gegn þessu verkefni. Eins og ég hef lýst að framan hefur sjálfsagt engin framkvæmd í Íslandssögunni verið jafn vel undirbúin með hliðsjón af umhverfissjónarmiðum og sú sem nú er talað um í Reyðarfirði. Við verðum að virða skoðanir þeirra sem ekki sætta sig við niðurstöðuna á grundvelli umhverfisástæðna. Á hinn bóginn tel ég óásættanlegt að sömu aðilar reyni sífellt að gera efnahagslegar forsendur verkefnisins tortryggilegar. Fyrir slíku er ekki nokkur fótur. Þjóðin öll mun hafa verulegan ávinning af verkefninu.

Með nýju álveri í Reyðarfirði mun álframleiðsla á Íslandi rúmlega tvöfaldast og mikilvægi áliðnaðar því aukast til mikilla muna. Útflutningsverðmæti áls á síðasta ári var um 40 milljarðar kr. en verður yfir 80 milljarðar kr. þegar álver Alcoa hefur náð fullri framleiðslugetu. Til samanburðar má geta þess að útflutningsverðmæti sjávarafurða eru tæplega 130 milljarðar kr.

Á undanförnum árum höfum við séð nokkur fyrirtæki sem veita álfyrirtækjum þjónustu verða til hér á landi. Þessi fyrirtæki byggja á sérþekkingu sem Íslendingar hafa aflað sér við rekstur álvera. Er nú svo komið að íslensk fyrirtæki eins og Altech og Stímir selja ýmiss konar tæknibúnað í álver víða um heim. Ég tel að þessi fyrirtæki muni vaxa og við sjá fleiri sérhæfð þjónustufyrirtæki fyrir áliðnað verða til hér á landi á næstu árum. Þá er ekki ólíklegt að möguleikar okkar á að fá til landsins úrvinnslufyrirtæki sem framleiða söluafurðir úr áli aukist verulega með þessum framkvæmdum. Mikilvægi áliðnaðar á Íslandi gæti því átt eftir að aukast enn meira þegar fram líða stundir.

Hæstv. forseti. Fjarðaál mun hafa jákvæð áhrif á íslenskt samfélag. Tekjur ríkissjóðs munu aukast, gjaldeyristekjur þjóðarbúsins verða meiri, laun almennings munu hækka, kaupmáttur ráðstöfunartekna eykst, fjöldi góðra starfa verður til. Austurland eflist. Það hagnast allir landsmenn á þessu verkefni. Þess vegna er farið í það.

Ég leyfi mér að leggja til að frv. þessu verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. iðnn.