Álverksmiðja í Reyðarfirði

Þriðjudaginn 28. janúar 2003, kl. 14:01:57 (3087)

2003-01-28 14:01:57# 128. lþ. 66.10 fundur 509. mál: #A álverksmiðja í Reyðarfirði# frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 128. lþ.

[14:01]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. ráðherra hlýtur að vita til hvaða ummæla hennar er vísað, bæði í málflutningnum áðan og í viðtali við hana sem Fréttablaðið setti á forsíðu sína fyrir ekki löngu síðan þar sem ráðherra fór hörðum orðum um að menn létu ekki af andstöðu við þessar framkvæmdir í ljósi þess að stjórnir Landsvirkjunar og Alcoa hefðu tekið ákvarðanir. Sömu tuggu hefur tuggið flokksbróðir hæstv. ráðherra, formaður stjórnar Landsvirkjunar, svo að maður minnist ekki á þá ósvinnu sem þessir nefndu einstaklingar hafa ítrekað látið frá sér fara um að menn veiti útlendingum upplýsingar í málinu. Það er þvílík höfuðsynd að þeirra dómi að það hálfa væri nóg. Um þetta er ég að tala, til þessa er ég að vísa, eða dregur hæstv. ráðherra þessi ummæli sín ýmis frá undanförnum vikum til baka?

Varðandi umhverfisáhrifin var þetta ódýrt svar hjá hæstv. ráðherra. Það er hæstv. iðnrh. sem flytur þetta mál hér og getur ekki skotið sér á bak við það þegar það hentar að umhverfismálin séu á könnu umhvrh., enda er ekki langt á milli þeirra flokkssystra. Þær gætu þá ráðfært sig og borið sig saman um málið. En þetta mál er ekki meira á hreinu en svo, herra forseti, og því er spurt að í greinargerð frv. kemur fram að það er enn óvissa um það hvaða hreinsitækni Alcoa ætlar að nota. Á bls. 56 segir að sá möguleiki sé fyrir hendi að niðurstöður athugana Alcoa verði þær að vothreinsun sé nauðsynleg við álverið. Þetta er borið á borð fyrir okkur hér. Sem sagt, það er látið að því liggja að þetta sé jafngilt en samt er í það vitnað að fyrirtækið sjálft er ekki visst um að það geti uppfyllt kröfurnar um þynningu mengunarefna á áhrifasvæðinu nema að fara út í vothreinsun. Og er þá eitthvað skrýtið að maður gagnrýni þessa framsetningu og spyrji hæstv. ráðherra um málið? Það er allt of ódýrt að vísa á það að umhvrh. muni úrskurða í þessu máli einhvern tíma síðar.