Álverksmiðja í Reyðarfirði

Þriðjudaginn 28. janúar 2003, kl. 14:06:27 (3089)

2003-01-28 14:06:27# 128. lþ. 66.10 fundur 509. mál: #A álverksmiðja í Reyðarfirði# frv., iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 128. lþ.

[14:06]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það var mjög gott að hv. þm. fór yfir fjölgun starfa í landinu eins og þau mál hafa þróast. Á miðjum 10. áratugnum, þegar efnahagslífið tók við sér á nýjan leik á Íslandi, var það einmitt vegna þess að við fórum út í framleiðslu á áli í frekari mæli. Álverið í Straumsvík var stækkað og það var byggt álver í Hvalfirði. Þetta vitum við. Því var mótmælt harðlega hvað varðar Norðurál í Hvalfirði en til allrar guðs lukku höfðu stjórnvöld kjark til að halda stefnu sinni, það álver var reist og ég heyri ekki að nokkur maður sé á móti þeim framkvæmdum í dag. Það er kannski til að sanna að það þýðir ekki að gefast upp þótt á móti blási. A.m.k. hvað varðar fyrirtækið í Hvalfirði, Norðurál, hefur það virkilega sýnt sig og sannað.

Hv. þingmanni finnst kannski 750 störf ekki mörg störf en það getur vel verið að það séu 750 fjölskyldur sem fá vinnu, fjölskyldur á landsbyggðinni, þannig að ég held að hv. þm. ætti ekki að gera lítið úr því og svo eru öll þau afleiddu störf sem verða til að auki. Við erum að tala um gríðarlegar framkvæmdir, gríðarlega atvinnuskapandi framkvæmdir. Þegar hv. þm. talar um að það eigi að nota þessa fjármuni í eitthvað annað verður hann að gera sér grein fyrir því að við erum ekki með þessa fjármuni í hendi. Það er fyrirtækið Alcoa, alþjóðafyrirtæki sem ætlar að fara í fjárfestingar á Íslandi. Er það ljótt að það er erlent fyrirtæki? Er það vandamálið? Erum við Íslendingar ekki að fjárfesta úti um allan heim og státa okkur af því? Ég varð síðast vitni að því í Portúgal að íslenskt fyrirtæki stendur sig sannarlega í fjárfestingu erlendis. Það stendur ekki steinn yfir steini í þessum málflutningi og ég óska þess að hv. þingmaður fari að átta sig á mikilvægi þess að skapa störf á Íslandi.