Álverksmiðja í Reyðarfirði

Þriðjudaginn 28. janúar 2003, kl. 14:10:33 (3091)

2003-01-28 14:10:33# 128. lþ. 66.10 fundur 509. mál: #A álverksmiðja í Reyðarfirði# frv., iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 128. lþ.

[14:10]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil minna á það að Samtök atvinnulífsins styðja þessar framkvæmdir. Hv. þm. virðist hafa miklar áhyggjur af því að þetta verði til þess að draga úr mikilvægi eða möguleikum annars atvinnurekstrar til þess að eflast en málið er stutt af Samtökum atvinnulífsins. Og þegar hv. þm. talar um að hagnaður flytjist úr landi er það þannig að þessi hagnaður er skattlagður á Íslandi samkvæmt því frv. sem hér liggur fyrir og það skiptir líka miklu máli.

Hv. þm. kemur með nýyrði inn í umræðuna sem er þá væntanlega það sem málið mun snúast um af hans hálfu í þessari umræðu. Það kemur alltaf eitthvað nýtt upp. Fyrst var hann á móti út af umhverfisáhrifum og svo var hann á móti út af því að (ÖJ: Mjög málefnalegt.) framkvæmdin væri ekki nægilega arðbær og svo var hann á móti út af mótvægisaðgerðum og núna verður hann væntanlega á móti út af varnaðarútreikningum einhverjum.