Álverksmiðja í Reyðarfirði

Þriðjudaginn 28. janúar 2003, kl. 15:42:39 (3099)

2003-01-28 15:42:39# 128. lþ. 66.10 fundur 509. mál: #A álverksmiðja í Reyðarfirði# frv., GuðjG
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 128. lþ.

[15:42]

Guðjón Guðmundsson:

Herra forseti. Nú hillir undir að álver í Reyðarfirði verði að veruleika og er ástæða til að fagna því. Þetta fyrirtæki mun hafa margvísleg jákvæð áhrif á byggð á Austurlandi og einnig á þjóðarhag. Ég ætla að fara nokkrum orðum um þetta tvennt.

Það hafa verið nokkrar deilur um Kárahnjúkavirkjun sem er jú forsenda fyrir þessu álveri. Andstæðingar virkjunarinnar hafa látið vel í sér heyra að undanförnu og svo var einnig þegar Fljótsdalsvirkjun var til umræðu á Alþingi. Svo virðist sem ýmsir séu þeirrar skoðunar að yfir höfuð eigi ekki að ráðast í virkjunarframkvæmdir í þessum landshluta og gildir þá einu hvort talað er um Fljótsdalsvirkjun eða Kárahnjúkavirkjun. Ég er þessu ósammála og tel að við eigum og verðum að nýta auðlindir okkar, hvort heldur er til lands eða sjávar, innan skynsamlegra marka.

Kárahnjúkavirkjun og álver í Reyðarfirði er stærsta tækifærið sem gefist hefur til að efla atvinnulífið á Austurlandi og auka fjölbreytni þess en eins og fram hefur komið í könnunum er einhæfni atvinnulífsins meginástæða þess að fólkið flyst af landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins, og árum saman hefur fólki fækkað jafnt og þétt á Austurlandi. Frá 1990 hefur fækkunin verið að jafnaði 1% á ári. Því er spáð að verði af þessum framkvæmdum muni íbúafjöldi á Miðausturlandi verða u.þ.b. 9.700--9.800 árin 2007--2008, þ.e. allt að 20% meiri en hann er í dag. Bygging álvers í Reyðarfirði er því stórkostleg byggðaaðgerð sem mun snúa við íbúaþróun í þessum landshluta, úr stanslausri fækkun í mikla fjölgun.

Það er fróðlegt að lesa skýrslu Nýsis hf. ráðgjafaþjónustu um mat á samfélagslegum og efnahagslegum áhrifum álvers Alcoa í Reyðarfirði. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Helstu veikleikar Austurlands eru einhæfni í atvinnulífi í samanburði við höfuðborgarsvæðið, hátt hlutfall láglaunastarfa og fækkun fólks vegna þess að þeir sem flytja á brott úr fjórðungnum hafa verið fleiri en aðfluttir. Töluvert er af árstíðarbundnum störfum fyrir ófaglært fólk svo sem í fiskvinnu, ferðaþjónustu, byggingarstarfsemi og sláturhúsum. Þessi störf freista almennt ekki unga fólksins sem flytur í stórum stíl til höfuðborgarsvæðisins vegna þeirra miklu tækifæra sem þar eru til náms og starfa.``

Þar segir einnig, með leyfi forseta:

,,Tölur um búferlaflutninga á Miðausturlandi á árunum 1971--2000 sýna að 2.768 fleiri fluttu frá svæðinu en til þess eða 95 að meðaltali á ári. Þannig hefur svæðið tapað rúmlega 1% íbúanna á ári vegna flutninga 1971--2000. Fjöldi þeirra sem fluttu á brott umfram aðflutta var um 0,6% á ári 1971--1980, 1,0% árlega á árunum 1981--1990, en um 2,2% á hverju ári 1991--2000. Á Miðausturlandi var fjöldi þeirra sem fluttu á brott umfram aðflutta 209 íbúar árið 2000 eða 2,6%. Mikill meiri hluti þeirra flutti á suðvesturhornið.``

[15:45]

Þessar tölur sýna ótvírætt að brottflutningur fólks af svæðinu hefur aukist mjög á undanförnum árum, aukist jafnt og þétt síðustu 30 ár. Það er enginn vafi á því að bygging álvers í Reyðarfirði mun snúa þessari þróun við.

Það kemur einnig fram í skýrslu Nýsis að árverkum á Miðausturlandi fækkaði um 16,1% á árunum 1986--1997 á sama tíma og þeim fjölgaði um 4,6% á landinu öllu. Þeim fækkaði á Austurlandi um 16,1%, meðan þeim fjölgaði á landinu öllu um 4,6%. Það á að sjálfsögðu stóran þátt í íbúaþróun í landshlutanum en sá veikleiki er í atvinnusamsetningu þar að hlutfall vinnuafls í frumvinnslu og úrvinnslugreinum er 52% á sama tíma og það er 36% á landinu öllu og ekki nema 24% á höfuðborgarsvæðinu. Í þessum greinum hefur verið mestur samdráttur á undanförnum árum.

Það er athyglisvert að aðeins 7,5% skattskyldra einstaklinga á Miðausturlandi höfðu yfir 3,5 millj. í tekjur árið 1999. Meðaltekjur starfsmanna í stóriðju munu hafa verið á því bili það ár. 65% skattgreiðenda á Austurlandi höfðu undir 1,5 millj. í tekjur, sem sýnir glöggt að þetta er láglaunasvæði. Þarna mun verða gjörbreyting á með tilkomu álvers í Reyðarfirði. Í því sambandi má minna á skýrslu Atvinnuþróunarfélags Vesturlands um tekjur einstaklinga á Vesturlandi en þar kemur fram að stóriðjan greiðir langhæst laun allra atvinnugreina að fiskveiðum undanskildum.

Gert er ráð fyrir að við álverið verði 400--460 ársverk sem skiptast þannig að 10--20 starfsmenn verða með akademíska háskólamenntun, 20--25 starfsmenn með tæknimenntun á háskólastigi eða sambærilega menntun, 50--60 starfsmenn með tæknimenntun, 300 starfsmenn með iðnnám eða sérstakt fjölbrautaskólanám til að vinna við álframleiðslu og 25--30 störf sem krefjast engrar sérstakrar þjálfunar. Auk þess verða 30--40 störf við afleysingar.

Í skýrslu Nýsis kemur fram að innan einnar klukkustundar vinnusóknar frá álverinu eru a.m.k. 250 bújarðir og margir bændur og makar þeirra vilja vinna utan bús með búskapnum. Það er enginn vafi á að þetta fólk mun í verulegum mæli starfa við álverið. Reynslan frá Grundartanga sýnir að fólkið af bæjunum í nærliggjandi sveitum vinnur í stórum stíl í verksmiðjunum tveimur og líkar vel. Og dæmi eru um það að bóndi sæki þangað vinnu alla leið ofan úr Reykholtsdal.

Í skýrslu Nýsis kemur enn fremur fram að nettófjöldi óbeinna og afleiddra starfa sem myndast á Miðausturlandi með tilkomu álversins er um 300 störf. Þessi störf munu að mestu myndast í Fjarðabyggð og á Egilsstöðum en að einhverju leyti á Fáskrúðsfirði. Þar segir einnig að ef ekkert verði af álvers- og virkjunarframkvæmdum megi gera ráð fyrir að íbúum Miðausturlands haldi áfram að fækka, að hlutfall 20--40 ára fólks og barna verði lægra en það er í dag, að ójafnvægi í hlutfalli milli karla og kvenna aukist og að meðaltekjur á Austurlandi haldi áfram að dragast aftur úr hækkandi meðaltekjum á höfuðborgarsvæðinu. Í skýrslunni segir m.a., með leyfi forseta:

,,Fólksfækkun á síðustu árum hefur aðallega átt rætur sínar í því að ungt fólk sækir burt til náms og í leit að áhugaverðum og vel launuðum störfum. Bein, óbein og afleidd áhrif fyrirhugaðs álvers munu verða þau að hjálpa ungu menntuðu fólki sem á rætur á Miðausturlandi til að fá störf við hæfi og þar með stuðla að meira jafnvægi í aldursskiptingu íbúanna og draga úr brottflutningi. Skoðanakönnunin sem Félagsvísindastofnun framkvæmdi fyrir Reyðarál hf. sýndi að 40% 18--28 ára fólk á Miðausturlandi hafði örugglega eða líklega áhuga á að starfa í álverinu og að 17% brottfluttra Austfirðinga 20--49 ára taldi líklegt að þeir myndu flytja aftur til Austurlands ef álver risi í Reyðarfirði.``

Þá segir enn fremur í skýrslu Nýsis, með leyfi forseta.

,,Eftir að álverið er komið í rekstur og byggingarframkvæmdum lokið munu aðstæður breytast mikið. Þeir sem munu starfa við álverið og önnur ný störf munu dreifast á nokkur byggðarlög á Miðausturlandi og búa þar ásamt fjölskyldum sínum. Auknir aðflutningar fólks ásamt auknum tekjum munu stuðla að fjölbreyttara mannlífi og efla hvers kyns félags- og menningarstarfsemi á Austurlandi.

Í skoðanakönnun Félagsvísindastofnunar sem unnin var fyrir Reyðarál hf. á árinu 2000 voru ungir Austfirðingar 18--28 ára spurðir um það hvort þeir teldu að tilkoma álvers í Reyðarfirði ætti eftir að leiða til betra eða verra mannlífs í byggðarlögum á Austurlandi. Alls töldu 76% að það myndi leiða til betra mannlífs, 18% töldu að það myndi hvorki leiða til betra né verra mannlífs og 6% til verra mannlífs. Af þessu er nokkuð ljóst að ungir Austfirðingar töldu flestir að álver í Reyðarfirði ætti eftir að hafa töluverð jákvæð áhrif á mannlíf í byggðarlögum á Austurlandi.``

Það er athyglisvert að skoða samfélagsleg og efnahagsleg áhrif álvers í Reyðarfirði sem fram kemur í töflu I sem er fylgiskjal með frv. Þar kemur fram að áætluð laun og launatengd gjöld vegna framkvæmda árin 2003--2007 verði í heild tæpir 11 milljarðar kr. og að áætluð laun og launatengd gjöld á ári vegna rekstrar álvers frá árinu 2008 verði rúmir 2 milljarðar kr. á ári.

Áætluð áhrif á sveitarfélögin frá árinu 2009 eru: auknar útsvarstekjur á ári, 335 millj. kr.; aukin fasteignagjöld vegna íbúðar- og atvinnuhúsnæðis, 74 millj. kr.; aukinn fasteignaskattur vegna álvers, 200 millj. kr. og aukinn fasteignaskattur vegna Kárahnjúkavirkjunar, 60 millj. kr. Á móti koma svo aukin rekstrargjöld sveitarfélaganna á ári upp á 352 millj. kr. Bætt rekstrarstaða sveitarfélaganna á svæðinu verður því 317 millj. kr. á ári.

Ljóst er að álverið og sú íbúafjölgun sem því fylgir kallar á stóraukið húsnæði á Miðausturlandi og mikla uppbyggingu hvað það varðar. Reiknað er með að þörf verði fyrir 567 nýjar íbúðir, tæpa 8.000 fermetra í atvinnuhúsnæði, tæpa 600 fermetra í leikskólahúsnæði, 2.300 fermetra í grunnskólahúsnæði, um 900 fermetra í framhaldsskólahúsnæði, 2.200 fermetra í húsnæði fyrir heilbrigðisstofnanir og tæpa 6.000 fermetra í húsnæði fyrir aðrar opinberar byggingar.

Það verða því mjög mikil verkefni fyrir iðnaðarmenn við húsbyggingar á næstu árum. Það er talið að 48--64% íbúðarhúsnæðisins rísi í Fjarðabyggð, 24--40% á Egilsstöðum, 4--8% í Fellabæ og svipað á Fáskrúðsfirði. Talið er að að 36--52% nýs atvinnuhúsnæðis rísi í Fjarðabyggð, 32--48% á Egilsstöðum, 8--12% í Fellabæ og 4--8% á Fáskrúðsfirði. Það verður því gríðarleg uppbygging á öllu þessu svæði með tilkomu álversins.

Orkuverð til álversins hefur verið gert tortryggilegt á undanförnum mánuðum og einnig í þessari umræðu hér í dag. Það hefur alltaf legið skýrt fyrir af hálfu stjórnvalda og forsvarsmanna Landsvirkjunar að orkuverð þurfi að vera hagstætt og hafa jákvæð áhrif á afkomu og starfsemi fyrirtækisins.

Í greinargerð forstjóra Landsvirkjunar, sem er fylgiskjal með frv., um fyrirhugaðan rafmagnssamning segir m.a., með leyfi forseta:

,,Arðsemismat Landsvirkjunar, sem byggir á núvirtu fjárstreymi vegna kostnaðar og tekna, tekur til áranna 2002--2070, þ.e. rúmlega 60 ára frá upphafi rekstrar. Er virkjunin metin verðlaus í lok tímabilsins, þótt það sé mun skemmra en væntanlegur líftími hennar. Samkvæmt niðurstöðum matsins má vænta þess, að núvirtur hagnaður af orkusölu samkvæmt rafmagnssamningnum verði um 6,6 milljarðar króna, sem svarar til þess, að afkastavextir af fjárfestingu í verkefninu verði um 7,3% að nafngildi og 5,5% að raungildi. Á sama grundvelli má gera ráð fyrir að arðgjöf eigin fjár vegna verkefnisins verði um 12,8% að nafngildi og 11% að raungildi. Er það talið mjög sambærilegt við þær kröfur um arðsemi eigin fjár sem almennt eru gerðar meðal orkufyrirtækja í nálægum löndum.``

Þessir útreikningar Landsvirkjunar hafa verið gerðir tortryggilegir af ýmsum. Ég verð hins vegar að minna á að eigendur Landsvirkjunar, þ.e. ríkið, Reykjavíkurborg og Akureyrarbær, fólu sérfræðingum sínum að meta forsendur Landsvirkjunar varðandi rammasamninginn, þ.e. hvort þeir teldu þessar forsendur raunhæfar og niðurstaðan varð sú að sérfræðinganefndin gerði ekki athugasemd við forsendurnar.

Álverið í Reyðarfirði mun hafa jákvæð áhrif á þjóðarhag. Í úttekt efnahagsskrifstofu fjármálaráðuneytisins á þjóðhagslegum áhrifum stóriðju og virkjunarframkvæmda kemur fram að horfur séu á að til lengdar megi reikna með að landsframleiðsla verði 1% hærri en ella og þjóðarframleiðsla 0,75% hærri. Aukinn útflutningur áls skapar forsendur til að jafnt og stöðugt gangi á erlendar skuldir eftir að framkvæmdum lýkur. Miðað við óbreytt nafngengi íslensku krónunnar má reikna með að útflutningur verði 10--14% meiri árlega næstu tvo áratugina eftir að framkvæmdum lýkur, sem er gríðarleg aukning og einmitt það sem þjóðarbúið þarf á að halda. Við þurfum að auka útflutning, auka verðmæti þjóðarbúsins til að bæta hag landsmanna. Þá mun þessi stórframkvæmd að sjálfsögðu draga verulega úr atvinnuleysi sem hefur vaxið nokkuð að undanförnu.

Herra forseti. Eins og ég hef bent á mun álverið í Reyðarfirði hafa margháttuð jákvæð áhrif. Það mun stórauka útflutningsverðmæti og bæta þjóðarhag. Það mun stórbæta atvinnuástandið. Það mun snúa við byggðaþróun á Austurlandi og er því stórkostleg byggðaaðgerð. Við sem búum í nágrenni Grundartanga þekkjum hve gríðarlega jákvæð áhrif stóriðjan þar hefur haft á Akranes, Borgarnes og sveitirnar sunnan Skarðsheiðar og hversu eftirsótt er að vinna við stóriðjufyrirtækin þar.

Ég minni á skýrslu sem bæjarstjórinn á Akranesi sendi frá sér fyrir einu eða tveimur árum þar sem þeim jákvæðu áhrifum sem stóriðjan á Grundartanga hefur haft á þetta svæði eru gerð ítarleg skil. Sama verður ugglaust upp á teningnum fyrir austan. Ég er því eindregið fylgjandi því frv. sem hér er til umræðu.

Ég þarf ekki að taka það fram að ég er algjörlega ósammála því sem síðasti ræðumaður, hv. þm. Sverrir Hermannsson, sagði um Norðlingaölduveitu, sem er jú forsenda fyrir stækkun Norðuráls. Það mál er ekki hér á dagskrá. Þá umræðu tökum við síðar og vonandi sem allra fyrst.