Álverksmiðja í Reyðarfirði

Þriðjudaginn 28. janúar 2003, kl. 17:17:52 (3102)

2003-01-28 17:17:52# 128. lþ. 66.10 fundur 509. mál: #A álverksmiðja í Reyðarfirði# frv., HBl
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 128. lþ.

[17:17]

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Það eru mikil og góð tíðindi að hér skuli til umræðu frv. til laga um heimild til samninga um álverksmiðju í Reyðarfirði. Þessi barátta hefur nú staðið í þrjá áratugi með hléum, að reyna að ná samningum um að erlend stóriðjufyrirtæki komi hér og byggi álver, kísilmálmverksmiðju eða annað þvílíkt fyrirtæki á Reyðarfirði. Það hefur gengið upp og niður. Stundum hafa horfur verið vænlegar. Í annan tíma hefur syrt í álinn. En menn hafa ekki gefist upp og nú er sá langþráði draumur loksins að rætast að álver rísi við Reyðarfjörð og ráðist verði í Kárahnjúkavirkjun. Skýringin á því er að sjálfsögðu mjög einarður og ákveðinn vilji ríkisstjórnarinnar sem kom skýrt í ljós með sérstakri samþykkt ríkisstjórnar Sjálfstfl. og Framsfl., ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar sem mynduð var 1995. Mjög fljótt eftir að sú ríkisstjórn tók til starfa var því slegið föstu að stóriðjufyrirtæki hér á landi risi á Austurlandi og ráðist yrði í Kárahnjúkavirkjun og markvisst hefur verið unnið að því síðan.

Það kemur að sjálfsögðu ekki á óvart þótt ýmsir leggist gegn slíkum framkvæmdum. Við getum rakið söguna í þeim efnum aftur til Búrfellsvirkjunar eins og hér hefur verið gert og raunar enn lengra aftur til ýmissa virkjana á öllum þeim tíma og það hafa verið úrtölumenn allan tímann og menn hafa haldið því fram að við Íslendingar hefðum ekki efni á því að ráðast í þá fjárfestingu sem mikilli virkjun fylgir. Búrfellsvirkjun á sínum tíma var ekki hótinu stærra viðfangsefni fyrir þjóðfélagið eins og það var þá fremur en Kárahnjúkavirkjun nú. Að sumu leyti eru það sömu mennirnir eða menn með svipaðar skoðanir sem á móti hafa staðið og auðvitað er alltaf mikið um það að bölsýni ríki í þjóðfélaginu.

Fram að þessu hefur stóriðjuuppbygging verið í Reykjavík eða í nágrenni Reykjavíkur. Í því samhengi er kannski hægt að rifja upp kísiliðjuna í Mývatnssveit. Ráðist var í hana um svipað leyti og í álverið í Straumsvík. Þá klofnaði Alþingi líka í afstöðu sinni. Sjálfstæðismenn og alþýðuflokksmenn voru fylgjandi þeirri verksmiðju og einstaka framsóknarmaður eins og Karl heitinn Kristjánsson en aðrir á móti. Þetta var auðvitað mikil lyftistöng fyrir Mývetninga og Húsvíkinga eins og sagan sannar og sýnir. Við munum eftir járnblendiverksmiðjunni við Hvalfjörð. Síðan leið langur tími án þess að tækist að ná hingað stóriðju og eins og hv. alþingismönnum er kunnugt hafði það í för með sér að lokum að lífskjör versnuðu hér ár frá ári, atvinna dróst saman og farið var að gæta nokkurs vonleysis meðal manna. Eftir að ríkisstjórn Sjálfstfl. og Framsfl. var mynduð snerist þetta dæmi við og við fórum aftur að sjá stóriðjuver á Íslandi. Það var aftur ráðist í miklar virkjanir á réttum forsendum sem skiluðu arði til þjóðarbúsins og við höfum verið að stíga hvert skrefið af öðru fram til dagsins í dag og munum vonandi gera áfram. Það er eftirtektarvert í þessu samhengi að úrtöluraddir eru margar, bæði á Alþingi og eins t.d. í borgarstjórn Reykjavíkur.

Lengi vel vissu menn ekki hvaða skoðun t.d. borgarstjóri mundi hafa í málinu. Það var ekki fyrr en fyrir lá að borgarfulltrúar Sjálfstfl. og Framsfl. mundu greiða atkvæði með Kárahnjúkavirkjun sem í ljós kom að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir kaus að skipa sér í þá sveit. Hún komst að vísu svo að orði að hún vildi ekki bregða fæti fyrir virkjunina. Miklir menn erum við, Hrólfur minn, var nú einu sinni sagt og þegar þar var komið sögu hafði Ingibjörg Sólrún Gísladóttir að sjálfsögðu enga möguleika á því að bregða fæti fyrir þessa virkjun þar sem meiri hluti hafði myndast í borgarstjórn um hana.

Á hinn bóginn er eftirtektarvert og sjálfsagt að gera það að umræðuefni hér hvert viðhorf borgarstjórnarmeirihlutans til þessarar virkjunarframkvæmdar er, líka í ljósi þess að borgarstjóri hefur lýst því yfir að hún sjái ástæðu til þess að bjóða sig fram til Alþingis til þess að gæta hagsmuna R-listans. Til að byrja með voru það ummælin. Síðar hét það Reykjavíkur, þegar hitt þótti ekki hljóma nógu vel. Hin mikla áhersla sem borgarstjóri leggur á að Reykjavíkurborg megi ekki taka á sig ábyrgð fyrir landið í heild sinni, hún segist í tvígang hafa rætt við iðnrh. um að taka þann kaleik frá Reykjavíkurborg en ekki haft erindi sem erfiði.

Nú getum við auðvitað velt því fyrir okkur hvort höfuðborgin og aðrar byggðir á Íslandi standi sig ekki svona nokkurn veginn jafnfætis í því að berjast fyrir uppbyggingu landsins og berjast fyrir því að nýta fallvötnin og berjast fyrir því að atvinna sé jöfn og góð hvarvetna. Við vitum að með þessari virkjun og með þessari stóriðju er verið að styrkja byggð á Austurlandi. Það hefur m.a. komið fram hjá atvinnurekendum á því svæði að þeir telja að það sé styrkur sjávarútvegsfyrirtækjunum að fá slíkt fyrirtæki til Reyðarfjarðar til þess að ábyrgðin á byggðinni sé ekki öll á herðum þeirra fyrirtækja sem þar eru fyrir af því að mikið álver og myndarlegt í Reyðarfirði skapar nýjan atvinnugrundvöll og treystir byggð með sama hætti og gerst hefur í Straumsvík og í Hvalfirði og ef lengra er litið og í minna mæli sem gerst hefur með Kísiliðjunni í Mývatnssveit þó svo hún hafi jafnan sætt nokkrum árásum og óvilja m.a. frá vísindamönnum. En nú er það sem sagt komið upp að ráðist verður í þetta álver og auðvitað mun það styrkja mjög bæði trú manna á landið og framtíðaruppbyggingu þar eystra.

Það er skemmtilegt að í sömu svifum og þessi ákvörðun er tekin skuli heitt vatn hafa fundist niðri á fjörðunum sem auðvitað verður enn til þess að gera þar búsældarlegra en áður.

Ríkissósíalismi er það orð sem forustumaður Samfylkingarinnar í borgarstjórn notar um þessar framkvæmdir, ríkissósíalismi. Það má segja að þau ummæli og líka hversu hikandi borgarstjórinn hefur verið og enn fremur sú mikla áhersla sem bæði formaður Samfylkingarinnar og formaður þingflokks Samfylkingarinnar hafa lagt á að koma því til skila á Alþingi að þingflokkur Samfylkingarinnar sé klofinn í þessu máli, vísi beint til þess og skýri að útilokað er að hugsa sér að álverið og Kárahnjúkavirkjun hefðu orðið að veruleika ef Samfylkingin hefði ráðið ferðinni eða hefði verið aðili að ríkisstjórn. Þá hefði sama vandræðaástandið komið upp eins og var á þeim tíma þegar Alþfl. fór með stóriðjumál, orkumál og iðnaðarmál á Alþingi sem við getum rifjað upp og enginn árangur varð af því. Allt er þetta lærdómsríkt, líka í ljósi þess að Samfylkingin er að gera sig gildandi í þeim mæli að vilja bera ábyrgð á allri byggð í landinu og menn sem ekki höfðu áður látið sér til hugar koma að taka sér orðin landsbyggð eða þjóðarheill í munn eru nú farnir að horfa öðruvísi og reyna að líta öðruvísi út en áður hefur verið. Þetta hugarfar sem lýsti sér í því að eiga sér þá ósk heitasta að leggja niður Reykjavíkurflugvöll, það hugarfar sem stendur á bak við slíka hugsun hjá borgarstjórnarmeirihluta í Reykjavík er ekki vænleg til að búast við að hún verði til þess að efla landsbyggðina, uppbyggingu hennar eða möguleika á landsbyggðinni.

Við getum líka velt fyrir okkur í þessu samhengi öðrum hlut. Það er hin ríka áhersla sem þingmenn Samfylkingarinnar, þar á meðal varaformaður þingflokks Samfylkingarinnar, hv. 3. þm. Vesturl. Jóhann Ársælsson, lagði á sig í utandagskrárumræðu um daginn að lýsa því ójafnvægi í byggðamálum sem álverið og Kárahnjúkavirkjun yllu. Og hvað var það sérstaklega sem var áhyggjuefni þessa hv. þm.? Hann sagði í ræðu sinni, með leyfi hæstv. forseta:

,,Í öðru lagi minni ég á tillögur okkar samfylkingarmanna um aðgerðir gegn ójafnvægi í byggðamálum, ójafnvægi sem mun augljóslega skapast vegna þeirra gífurlegu framkvæmda sem í stefnir á norðausturhluta landsins. Það hefur nefnilega verið ákveðið að fara í einhverjar mestu framkvæmdir í vegamálum sem um getur líka á þessu landsvæði. Ný byggðaáætlun hefur verið ákveðin sem beinir athyglinni fyrst og fremst inn á þetta svæði og til Akureyrar. Svo hefur hæstv. byggðamálaráðherra verið iðin við að flytja alls kyns verkefni norður til Akureyrar og á það svæði, og það meira að segja frá svæðum sem eiga undir högg að sækja. Þess vegna er ástæða til að horfa til þess að koma af stað framkvæmdum á öðrum hlutum landsins, öðrum byggðasvæðum, og manni verður á að spyrja: Hvar voru þingmenn og ráðherrar þessara svæða þegar þessar ákvarðanir voru teknar?``

[17:30]

Svo mörg voru þau orð. Nú endurspeglar þetta að sjálfsögðu viðhorf sem eru mjög óviðurkvæmileg vegna þess að í þessu felst að hv. þm. er að reyna að etja landsbyggðarmönnum saman, er með þessu að gefa í skyn að með því að styrkja Akureyri sé verið að níðast á öðrum byggðarlögum. Og ekki er hægt að skilja ummæli þessa hv. þm. öðruvísi en svo að hann ætlist til þess að hæstv. byggðaráðherra taki til baka eitthvað af því sem ráðherrann hyggst gera til þess að efla Akureyri.

Nú væri mjög fróðlegt og skemmtilegt að vita hvað þeir þingmenn sem hyggjast bjóða sig fram í Norðausturkjördæmi, hv. þm. Einar Már Sigurðarson eða hv. þm. Kristján L. Möller, segja um þetta mál. Eru þeir sammála flokksbróður sínum um það að með þessum framkvæmdum á Austurlandi sé verið að stefna að sérstöku ójafnvægi í byggðamálum? Og eru þeir sammála varaformanni þingflokks Samfylkingarinnar um (Gripið fram í: Varaformanni?) að það sem sérstaklega beri að varast í því sambandi sé að það standi til að gera of mikið á Akureyri? Það væri mjög fróðlegt að fá að vita hvað þeir segja um þetta.

Nú get ég sagt við hv. þm. Jóhann Ársælsson að menn ömuðust ekki við því þótt unnið væri að stóriðjuframkvæmdum við Hvalfjörð um svipað leyti og rætt var um göng undir Hvalfjörð eins og hv. þm. veit. Ég sá að hann opnaði munninn eins og hann vildi gleypa meira. Auðvitað stóðu menn fast að því að byggja upp Vesturland með því að nýta þau góðu hafnarskilyrði sem eru við Hvalfjörð og auðvitað kom það fleirum en Akurnesingum til góða að jarðgöng komu undir Hvalfjörð svo það var ekki einungis gert fyrir hv. þingmann heldur kom það líka öðrum til góða. Enda eiga menn sem eru á Alþingi yfirleitt að hugsa þannig, ekki bara horfa á sínar eigin tær heldur horfa á landið í heild sinni og ekki að amast við því þó að einhver störf verði til úti á landi þótt það verði ekki í þeirra eigin kjördæmi. Það er þessi tónn og það eru þessi undanbrögð og það er þessi, ég vil segja ómenningarlega umræða sem hefur verið hér um Kárahnjúkavirkjun og álverið við Reyðarfjörð af hálfu Samfylkingarinnar (Gripið fram í: Ha?) sem nauðsynlegt og óhjákvæmilegt er að hafa orð á. (Gripið fram í: Af hálfu Samfylkingarinnar?) Má kannski segja að von sé að samfylkingarmanni hafi orðið á að segja, þegar sýnt var að Kárahnjúkavirkjun yrði að veruleika og álverið við Reyðarfjörð: Ég fæ hnút í magann. Ég fæ hnút í magann yfir því að það á að styrkja byggð á Austurlandi. Þetta er auðvitað afsökunartónn, verið er að reyna að breiða yfir það sem maður gerir með því að hafa þvílík ummæli eða, sem raunar er kannski skiljanlegra, að viðkomandi hafi orðið að taka afstöðu sem honum var óljúft. Öðruvísi er ekki hægt að skilja ummæli af þessu tagi.

Ef við veltum fyrir okkur þeim áhrifum sem álver við Reyðarfjörð kemur til með að hafa er það augljóslega ávinningur að því leyti að við því er að búast að þar fjölgi kannski um 3.000 manns á skömmum tíma sem þýðir að allar forsendur eru til að efla þar mjög skólahald, langskólanám. Ég sé fyrir mér að þetta hafi þau áhrif að raunhæft sé að tala um háskóla á Austurlandi. Slíkur háskóli mun að sjálfsögðu verða til þess, eins og við höfum séð á Akureyri, að unga fólkið festist í byggðinni en í þeirri skýrslu um byggðamál sem nú hefur verið lögð fyrir er það einmitt talinn einn helsti gallinn á þeirri byggðastefnu sem við höfum fylgt að unga fólkið hefur ekki haft tækifæri eða möguleika á því að setjast að í heimahögum. Það fólk sem hefur lagt í langskólanám hefur með öðrum orðum ekki fundið störf við hæfi heima fyrir. Með því að efla með þessum hætti mennta- og menningarstofnanir á Austurlandi og með því að styrkja heilbrigðisstofnanir sem þar eru er augljóst að um leið skapast grundvöllur fyrir því að efla náttúrurannsóknir á svæðinu en auðvitað er það þekkt í hagfræði og í öðrum slíkum útreikningum að hagkvæmt sé að koma stofnunum fyrir á þeim slóðum þar sem þær eiga að vinna.

Við sjáum líka fyrir okkur að þessi mikla styrking á Austurlandi muni kalla á meiri umferð en áður um höfnina í Reyðarfirði, ekki einungis með þeim aðdráttum sem verða til verksmiðjunnar og með því að flytja á brott framleiðslu hennar, heldur mun þetta valda reglulegum siglingum sem munu nýtast útgerðaraðilum og þeim sem vinna að fiskeldi með því að koma vörum á markað. Jafnframt er við því að búast að Reyðarfjörður muni í framtíðinni gagnast Norðlendingum vel sem útskipunar- og innflutningshöfn og koma að því leyti í staðinn fyrir Reykjavíkurhöfn. Þær góðu samgöngur sem nú eru á milli Norður- og Austurlands valda því að þetta er mögulegt, og jafnframt reka þessar framkvæmdir og þessi umsvif á eftir því að beinum áætlunarferðum, annaðhvort á landi eða í lofti, verði komið á milli Norður- og Austurlands. Öll munu þessi umsvif, þessar miklu framkvæmdir og sá trausti rekstur sem í kjölfarið kemur, gjörbreyta byggðapólitískum forsendum fyrir því að Austfirðir styrki sig, mannlíf þar verði fjölbreyttara en áður og framtíðin með þeim hætti að ungt fólk sjái sér hag í því og tækifæri til að setjast þar að. Mörg lítil fyrirtæki munu festa rætur þar, þjónustufyrirtæki og önnur fyrirtæki.

Það er rétt sem fram hefur komið að þess hefur þegar orðið vart að menn eru farnir að taka við sér þar eystra, menn eru farnir að velta fyrir sér byggingarlóðum, hús seljast við hærra verði en áður og þar fram eftir götunum. Allt er þetta jákvætt og allt vísar þetta til framtíðarinnar. Þess vegna er þetta allt mikið fagnaðarefni en ég vil líka segja í því samhengi að þetta rekur á eftir því að farið verði að horfa til þess að stóriðjufyrirtæki geti risið á Norðausturlandi, hvort sem það yrði við Húsavík eða á Akureyri. Ég vona að þess megi vænta að hér á Alþingi verði sama samstaða um það og verið hefur um að stóriðja rísi nú við Reyðarfjörð. Norðurland þarf líka á því að halda. Við eigum ekki að koma öllum slíkum fyrirtækjum fyrir á of litlu landsvæði.

Ég vil svo að síðustu, herra forseti, leggja áherslu á að verkefni í byggðamálum eru hvarvetna mikilvæg, og nauðsynlegt að menn reyni að glöggva sig á því hvernig hægt sé að efla eina byggð án þess að níðast á annarri. Út á það gengur auðvitað heilbrigð byggðastefna. Í mínum huga er það augljóst að álverið við Reyðarfjörð og Kárahnjúkavirkjun munu til framtíðar tryggja og breikka gjaldeyrisöflun okkar Íslendinga. Þessi öflugi atvinnurekstur mun með öðrum orðum valda því að við verðum ekki eins háð sjávarútvegi og ferðaþjónustu og áður og þess vegna verðum við betur við því búin að mæta erfiðleikum á þeim sviðum sem alltaf má búast við að komi tímabundið. Tímabilið frá 1980--1995 sýndi að einungis með stóriðju eða öðrum þvílíkum ráðum sem hafa í för með sér aukningu á gjaldeyristekjum sköpum við grundvöll fyrir vaxandi lífskjörum frá ári til árs. Þau í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði hafa talað mikið um öll þau störf sem nauðsynlegt er að hér verði til á hverju ári. Þessum störfum getur ekki fjölgað nema frumframleiðslan styrkist, og með því að nýta fallvötn landsins eða gufuaflið erum við auðvitað að styrkja frumframleiðsluna.

Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon hafði orð á því að hvert starf við álverið væri mjög dýrt, ég man ekki hvort hv. þm. sagði 300 millj., eitthvað svoleiðis. (Gripið fram í.) Það er einkenni stóriðju að hvert starf er mjög dýrt. Það var á sínum tíma talinn höfuðkosturinn við álverið í Straumsvík og á þeim tíma mjög beitt þeim rökum að til þess að bæta verulega lífskjör hér á landi yrðum við að finna ráð til þess að nýta fallvötnin og orkugjafana. Það kostar auðvitað mikla peninga. Og þess er að vænta að arðurinn geti orðið þeim mun meiri sem við færumst meira í fang við virkjun fallvatnanna og meiri tekjur koma eftir öðrum leiðum en beinu framlagi vinnunnar. Þannig er þetta á öllum sviðum. Við viljum nýta fallvötnin til þess að bæta lífskjör hér, auka framleiðslu og framleiðni þjóðarbúsins, og það erum við að gera með virkjun Kárahnjúka.