Álverksmiðja í Reyðarfirði

Þriðjudaginn 28. janúar 2003, kl. 17:46:35 (3104)

2003-01-28 17:46:35# 128. lþ. 66.10 fundur 509. mál: #A álverksmiðja í Reyðarfirði# frv., HBl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 128. lþ.

[17:46]

Halldór Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Ég er alveg sammála hv. þm. um að Íslendingar hafi verið duglegir að bjarga sér. En á hinn bóginn hafa þeir auðvitað á öllum tímum verið háðir útflutningsverslun eins og aðrar þjóðir. Reynslan kennir okkur að við þurfum á öllum okkar auðlindum að halda. Við þurfum á fiskstofnum okkar að halda. Við þurfum á vatnsaflinu og orkunni að halda og við þurfum líka á öðrum gjöfum landsins að halda. Ég er þeirrar skoðunar að eftir því sem Íslendingum fjölgar meira verði dýrara að lifa í landinu vegna þess að við ætlumst til meira en áður. Við ætlumst til að landið gefi meira og meira af sér og ég held því fram að til að standa undir þessari auknu eyðslu verði óhjákvæmilegt fyrir okkur að halda áfram virkjun fallvatna, halda áfram að nýta heita vatnið og halda áfram að nýta jarðgufuna. Kárahnjúkavirkjun er auðvitað framkvæmd þeirrar hugsunar og út frá þeim hugmyndum. Álverið við Reyðarfjörð gerir okkur mögulegt að ráðast í þessa miklu og góðu virkjun.

Ég geri mér vonir um að hún muni reynast okkur jafnhappadrjúg auðlind og peningalind og Búrfellsvirkjun. Það var spáð illa fyrir henni í byrjun. Það var talað illa um þá virkjun svo árum skipti. Við eigum nú þá virkjun skuldlausa eins og hv. þm. veit. Ég hygg að það sama verði uppi á teningnum í sambandi við Kárahnjúkavirkjun að hún muni standa vel undir sér og verða okkur Íslendingum til góðs þegar fram í sækir.