Álverksmiðja í Reyðarfirði

Þriðjudaginn 28. janúar 2003, kl. 17:50:29 (3107)

2003-01-28 17:50:29# 128. lþ. 66.10 fundur 509. mál: #A álverksmiðja í Reyðarfirði# frv., JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 128. lþ.

[17:50]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. talaði mikið um Samfylkinguna áðan og skammaðist út í hana. Ekki veit ég hvers vegna hann ætti að gera það í þessu máli sérstaklega vegna þess að þingflokkurinn hefur að meginhluta tekið það ráð að styðja þessa virkjun sem á að byggja og álverið er auðvitað hluti af þeim framkvæmdum sem hanga þar saman í einu verki.

Hv. þm. nefndi það sem ég held að hafi átt að vera til hnjóðs um Samfylkinguna að hún væri ekki alveg heil í málinu, hún væri klofin. En ef ég man rétt er þingflokkur hv. þm. líka klofinn í málinu og mótatkvæði komu úr Sjálfstfl. líka, ef ég veit rétt, í þinginu þegar var verið að afgreiða þetta mál. Það er bara þannig að meðal þjóðarinnar eru ekki allir sammála um þetta mál. Ég tel enga ástæðu til að tala niður til þeirra sem eru fylgjandi því máli. Mér finnst að við eigum að sýna þeim fullkomna virðingu.

Hv. þm. fór síðan að tala um þáltill. okkar á norðvestursvæðinu um að reyna að koma í veg fyrir það ójafnvægi í byggðamálum sem í stefnir vegna þessara miklu framkvæmda. Hann las sem betur fer upp allt það sem ég sagði í utandagskrárumræðu um málið og við það stend ég allt saman. Ég hef ekki í eitt einasta skipti lagt til að hætt yrði við þær framkvæmdir sem menn hafa tekið ákvarðanir um að fara í á norðaustursvæðinu. En ég hef lagt áherslu á að auðvitað þarf að taka ákvarðanir til að koma í veg fyrir ójafnvægi annars staðar á landinu. Menn hefðu betur gripið til þess fyrr en seinna að gera slíkt. En mér finnst að núna séu menn þó að draugast til að flýta framkvæmdum á öðrum stöðum á landinu til að koma í veg fyrir það ójafnvægi sem í stefnir.