Álverksmiðja í Reyðarfirði

Þriðjudaginn 28. janúar 2003, kl. 17:52:38 (3108)

2003-01-28 17:52:38# 128. lþ. 66.10 fundur 509. mál: #A álverksmiðja í Reyðarfirði# frv., HBl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 128. lþ.

[17:52]

Halldór Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Ég er alveg ósammála hv. þm. um að Kárahnjúkavirkjun og álverið við Reyðarfjörð leiði til ójafnvægis í byggðamálum. Ég er algerlega ósammála því og að því lúta athugasemdir mínar. Ég tel einmitt þvert á móti að með því að styrkja atvinnugrundvöll Austfirðinga og byggð á Austurlandi séum við að vinna að jafnvægi í byggðamálum með sama hætti og við unnum að jafnvægi í byggðamálum með því að rétta hlut Borgfirðinga og Mýramanna með uppbyggingu stóriðju við Hvalfjörð. Ég man ekki eftir því að menn hafi þá talað um það annars staðar á landinu að það skapaði ójafnvægi í byggðamálum. Ég man ekki eftir því, né heldur með göngum undir Hvalfjörð. Það er þessi tónn sem ég var að finna að. Það er þetta sem ég er að gagnrýna.

Þegar menn eru að telja það eftir, eins og hv. þm. gerði, að hæstv. byggðamálaráðherra hafi viljað styrkja og standa vel að uppvexti Akureyrar og halda því fram að hæstv. ráðherra dragi störf frá svæðum sem eiga undir högg að sækja. Ég átta mig ekki á því hvað svona lagað á að þýða að etja þannig saman byggðarlögum og gera tortryggilegt þegar verið er að ná störfum út á land. Nær væri að segja við hæstv. byggðamálaráðherra að hann eigi þakkir skildar fyrir að reyna að styrkja þær veiku stoðir sem eru víðs vegar um landið í opinbera geiranum.