Álverksmiðja í Reyðarfirði

Þriðjudaginn 28. janúar 2003, kl. 18:01:53 (3114)

2003-01-28 18:01:53# 128. lþ. 66.10 fundur 509. mál: #A álverksmiðja í Reyðarfirði# frv., HBl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 128. lþ.

[18:01]

Halldór Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Það er einmitt styrkurinn við þá stefnu sem hér er rekin í atvinnumálum, sem m.a. lýsir sér með álverinu við Reyðarfjörð, að verið er að breikka grundvöllinn og verið að standa að fyrirtækjum sem færa nýja verkmenningu, nýja tækni og ný störf inn í byggðarlögin, sem munu gera það mögulegt að ungt fólk getur horfið aftur til þeirra byggðar hvaðan sem það kemur, eftir að hafa leitað sér menntunar annars staðar.

Í ljós hefur komið eins og ég hélt að hv. þm. væri kunnugt að það unga fólk sem hefur vaxið upp í sjávarplássunum víðs vegar um landið hefur ekki haft aðstöðu til að koma til baka, því þar hafa ekki verið störf við þeirra hæfi. Og líka vegna þess að grundvöllur fiskveiða er annar en áður var, vegna þess að við þurfum að draga úr sókninni. (Gripið fram í: Hverjir bjuggu þann grundvöll til?) Allt þetta veldur því að við þurfum að styrkja grunninn fyrir (Gripið fram í.) byggðina úti á landi.