Álverksmiðja í Reyðarfirði

Þriðjudaginn 28. janúar 2003, kl. 18:03:13 (3115)

2003-01-28 18:03:13# 128. lþ. 66.10 fundur 509. mál: #A álverksmiðja í Reyðarfirði# frv., EMS
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 128. lþ.

[18:03]

Einar Már Sigurðarson:

Herra forseti. Hér er til umræðu afar mikilvægt og stórt mál. Eins og heyrst hefur í mörgum ræðum hér í dag hafa menn farið um víðan völl og tengt þetta mál ýmsum öðrum málum og ýmsum þáttum þjóðlífsins á margvíslegan hátt.

Ég vil þó, herra forseti, byrja á að lýsa yfir mikilli ánægju minni með að við skulum nú vera að fjalla um þetta mál, í raun og veru síðasta máli sem tengist þessu stóra verkefni, þ.e. virkjun og álveri.

Það er hárrétt hjá hæstv. ráðherra að margir Austfirðingar, og tel ég mig með í þeim hópi sem hæstv. ráðherra lýsti að hefðu sýnt mikla þolinmæði í þessu máli. Ég hef verið beinn eða óbeinn þátttakandi í að leita eftir stóriðjukostum við Reyðarfjörð allt frá því 1980. Um það leyti var þá iðnrh. félagi minn og flokksbróðir þá Hjörleifur Guttormsson. Það verður að segja þeim ágæta manni til hóls að hann upplýsti okkur marga sem þá vorum að taka þátt í stjórnmálum á Austurlandi og höfðum áhyggjur af byggðaþróuninni, að eitt af því almikilvægasta sem þyrfti að gera til að snúa þeirri þróun við væri að reyna að koma stóriðju við Reyðarfjörð, því þá var búið að upplýsa að Reyðarfjörður væri mjög vænlegur kostur í þeim efnum. Og einnig það að við ættum mjög mikla orku í landshluta okkar sem væri afskaplega mikilvægt að við nýttum sjálfir, en létum ekki flytja brott frá okkur. Einnig var ljóst á þeim árum að störfum mundi fækka mjög í hinum hefðbundnu atvinnugreinum sem þá voru landbúnaður og sjávarútvegur. Þetta hefur allt saman komið fram og þess vegna er það auðvitað sérstaklega ánægjulegt að nú skulum við þó vera búin að ná þessu marki.

Því miður, herra forseti, náði Hjörleifur Guttormsson ekki því markmiði sínu að koma stóriðju á legg við Reyðarfjörð. Að sjálfsögðu lágu ýmsar ástæður að baki eins og eðlilegt er vegna þess að þannig er nú þessi heimur okkar að við ráðum því ekki algjörlega ein og sér hvaða atvinnutækifæri við sköpum hverju sinni. Við erum hluti af miklum mun stærri heimi sem við verðum að taka tillit til. Við getum ekki farið út á hinn alþjóðlega markað og sagt: Komið nú til okkar því við viljum fá ykkur. Málið er auðvitað miklu flóknara en svo. Við þurfum að vera með hugmynd eða verkefni sem hægt er að selja, sem einhver vill kaupa.

Það hefur gerst núna. Alcoa mun reisa álver við Reyðarfjörð af þeirri einföldu ástæðu að þeir telja að verkefnið sé gott. Þeir eru ekki að koma austur á Reyðarfjörð vegna þess að þeir hafi einhvern sérstakan áhuga á því að hafa áhrif á byggðaþróun á Íslandi. Að sjálfsögðu ekki. Þeir eru að sjálfsögðu að koma austur vegna þess að þeir sjá að hér er um gott verkefni að ræða, verkefni sem þeir telja að þeir geti haft hagnað af. Alcoa er að sjálfsögðu bisnessfyrirtæki sem horfir fyrst og fremst á slíka þætti. Alcoa er ekki félagsmálastofnun. Þess vegna er eðlilegt þegar við eigum svona gott verkefni að við getum selt það og er sérstaklega ánægjulegt hversu stuttan tíma það ferli hefur tekið að semja við Alcoa.

Ég tel að það sýni fyrst og fremst hversu gott verkefnið er hversu söluhæft verkefnið var. Og það er fögnuðurinn sérstaki, vegna þess að við eigum að sjálfsögðu ekki í samskiptum við slík bisnessfyrirtæki að sýna einhverja minnimáttarkennd. Við þurfum ekki á slíku að halda. Þeir aðilar eru að sjálfsögðu ekki að koma hingað til að aumka sig yfir okkur, heldur er það þannig að við höfum varninginn sem þeir vilja kaupa og við seljum hann auðvitað á þeim bestu kjörum sem okkur er mögulegt. Það er út af því sem þetta hefur tekið svona langan tíma, samningar hafa ekki náðst fyrr en nú.

Herra forseti. Ég rifjaði örlítið upp söguna frá 1980 og gat þess hvernig ég hefði ánetjast ef við getum orðað það svo þeirri hugmynd að stóriðja þyrfti að koma til til að snúa við byggðaþróuninni og efla byggðirnar. Ekki vegna þess eins og sumir hv. þm. hafa verið að segja að það væri eina leiðin til þess. Nei, heldur einfaldlega vegna þess að þetta er ein af leiðunum til þess. En þetta er líka sú leið sem hefur mest áhrif. Vissulega hafa menn allan þennan tíma verið að gera ýmislegt í atvinnulífi á Austurlandi. Vissulega hafa orðið til ný störf þar. En því verr og miður, m.a. vegna samsetningar á atvinnulífinu þar, hefur störfum fækkað þar mjög mikið og þar hefur fækkað störfum líklega um 800 á ákveðnu tímabili og þá er ég ekki að taka allan tímann frá því um 1980, það yrði trúlega miklum mun hærri tala.

Við erum því í raun og veru ekki að gera mikið meira með því sem við erum að hugsa um núna í þessu verkefni en að koma til móts við það sem gerst hefur og ná hugsanlega svipaðri stöðu og við vorum að ræða um þegar við vorum að hefja þessa för um 1980.

Herra forseti. Það er vissulega margt fleira sem á daga þessa verkefnis hefur drifið og ljóst að þegar Noral-verkefnið var raunverulega afsagt hér úr þessum ræðustóli 22. mars 2002 var mörgum brugðið vegna þess að þá vorum við komin lengra en við höfðum oftast komist áður með það verkefni. Margvísleg vonbrigðin höfðu verið á leiðinni en oft var vonarglæta og jafnvel stór vonarneisti sem var með mönnum lengi vel. En við Austfirðingar höfum lært að þetta mál er ekki klárað fyrr en búið er að undirrita þá pappíra sem mestu skipta.

Ég verð að segja alveg eins og er, herra forseti, að það er vonum fyrr sem við erum þó komin á þetta stig sem við erum nú miðað við það sem maður bjóst við 22. mars 2002. Og því segi ég aftur það sem ég sagði áðan að þetta hafi gengið svona vel af þeirri einföldu ástæðu að við vorum með gott verkefni sem áhugi var fyrir og þess vegna hafa samningar gengið jafn hratt og vel eins og í ljós hefur komið.

Í byrjun apríl samþykktum við á Alþingi heimild fyrir Kárahnjúkavirkjun. Rétt er að vekja sérstaka athygli á því að sú samþykkt var gerð með mjög auknum meiri hluta á Alþingi, í raun og veru með stuðningi þriggja þingflokka, þrátt fyrir það að enginn af þessum þremur þingflokkum hafi skilað sér 100% í atkvæðagreiðslunni. Það var mikill meiri hluti í þeim öllum og í raun örfá atkvæði úr þessum þremur þingflokkum sem ekki voru með málinu. Sem sýnir að verkefnið er þess eðlis að það skiptir okkur ekki niður eftir stjórn og stjórnarandstöðu. (Iðnrh.: Ekki Framsókn.).

Vegna frammíkalls hæstv. iðnrh. neyðist ég til að rifja upp, því miður hæstv. iðnrh., að þingflokkur Framsfl. skilaði sér ekki 100% í atkvæðagreiðslunni. (Iðnrh.: Það voru ekki allir við.) Það er alveg hárrétt. Af misjöfnum ástæðum voru ekki allir við, það er hárrétt. En því miður skilaði þingflokkur Framsfl. sér ekki 100%. Og til skemmtunar fyrir hæstv. ráðherra má vekja á því athygli að þingflokkur Samfylkingar skilaði mun fleiri atkvæðum með þessu máli en þingflokkur Framsfl. og er það hið skemmtilegasta mál.

En vegna ræðu hv. þm. Halldórs Blöndals áðan þar sem þetta kom örlítið við sögu, þá verð ég að segja að það er sérkennilegt þegar hv. þm. eru óánægðir með það að vera í hópi með einhverjum öðrum sem stuðningsmenn ákveðins máls. Ég hélt að það skipti ekki meginmáli hvernig menn yrðu stuðningsmenn eða af hvaða ástæðu menn hefðu ákveðið að styðja mál. Ég hélt að meginatriðið væri það að menn styddu málið. Ég held að það hljóti að vera einhver önnur ástæða fyrir því að hv. þm. fór svo mikinn í garð ákveðins stjórnmálaflokks, sem hefur eins og ég lýsti áðan staðið þétt að baki við málið, heldur en afstaðan í raun og veru í þessu máli. Herra forseti. Ég geri ráð fyrir að koma örlítið nánar að þeirri umræðu síðar í ræðu minni.

Ég sagði áðan að það væri mikið ánægjuefni að þetta hefði tekið svo stuttan tíma sem raun ber vitni, þ.e. að ná samningunum við Alcoa. 10. janúar var alveg sérstakur gleðidagur þegar bæði stjórn Alcoa og stjórn Landsvirkjunar gengu frá málum sínum sem er forsendan fyrir því að við ræðum þetta frv. um álver við Reyðarfjörð.

Sú verksmiðja sem verið er að ræða um nú er af þeirri stærðargráðu að hún mun valda ákveðnum vanda í byggðunum fyrir austan, við skulum ekkert horfa fram hjá því. En ég segi alveg hiklaust að sá vandi eða það verkefni er miklu áhugaverðara og miklu skemmtilegra en þau verkefni eða sá vandi sem við höfum átt við að etja undanfarna áratugi, þ.e. vandinn verður sá að reyna að nýta þetta verkefni sem allra, allra best, reyna að fá sem allra, allra mest út úr þessu verkefni. Það er miklu skemmtilegra að takast á við slíkt uppbyggingarskeið sem nú mun fara í hönd heldur en það skeið sem við höfum þurft að horfa upp á þegar fólki hefur stöðugt fækkað, innviðir samfélagsins hafa veikst og við höfum þurft í rauninni að hafa áhyggjur af framtíðinni upp á það að gera hversu lengi við gætum haldið því þjónustustigi sem við höfum verið með.

Nú þurfum við að snúa okkur að allt öðrum hlutum. Nú snúum við okkur að því að nýta þau færi sem allra, allra best og ég trúi því og hef áður sagt að nú sé það verkefni í raun okkar allra, hvar sem við höfum staðið í þessu máli, að reyna að tryggja það að við nýtum þessi verkefni sem allra best.

Það þjónar engum tilgangi að berja hausnum við steininn og vera enn stöðugt að búa til ný og ný varnarsvæði í því að reyna að koma í veg fyrir að af þessu máli verði. Slíkt þjónar engum tilgangi. Það sem við gerum best er að slíðra sverðin í deilunni. Við höfum tekist á um þetta um langt skeið og það er allt komið fram í þessu máli sem þarf að koma fram. Málið hefur farið í gegnum allt það lýðræðislega kerfi sem við eigum. Það hefur í rauninni fengið mun meiri og vandaðri undirbúning en líklega öll önnur mál af sömu gerð. Það er því ekkert annað að gera nú en að bera virðingu fyrir skoðunum hvers annars og reyna að standa þétt að því að gera þetta mál sem allra best úr garði. Ég er sannfærður um, herra forseti, að þannig mun það vera fyrir austan.

Auðvitað er það rétt eins og kom fram í máli einhvers hv. þm. áðan að það hafa verið til Austfirðingar, þó það nú væri, sem hafa ekki verið mjög hrifnir af öllu þessu máli. Það hefur hins vegar ekki valdið neinum vanda þar. Fólk hefur að sjálfsögðu getað ræðst við um þessi mál og skipst á skoðunum eins og vera ber. Það er hið eðlilegasta mál í lýðræðissamfélagi að ekki séu allir sammála um alla skapaða hluti. Við þurfum hins vegar að tryggja umræðu og hún hefur átt sér stað, en það þjónar ekki tilgangi að halda henni endalaust áfram. Það hlýtur einhvern tímann að koma að lokapunkti.

[18:15]

Herra forseti. Eins og ég sagði í upphafi ræðu minnar er þetta síðasta skrefið í þessu verkefni sem kemur fyrir þingið. Ég held að það eigi að marka endalok umræðunnar að öðru leyti en því að við leitum áfram allra leiða til þess að tryggja að sem allra bestur árangur náist. Málið er nefnilega einfaldlega að við þurfum á allri okkar orku að halda í þeim efnum. Þetta verkefni er ekki smátt. Þetta verkefni er stórt. Það er augljóst, t.d. fyrir okkur Austfirðinga, að við þurfum að taka mjög vel höndum saman. Við þurfum að styrkja innviðina hjá okkur af þeirri einföldu ástæðu að við þurfum að gera ráð fyrir mikilli, ef við getum orðað það svo, innrás vinnuafls sem við þurfum að tryggja að verði sem allra lengst hjá okkur.

Það er líka ljóst, eins og hv. þm. Halldór Blöndal kom inn á í ræðu sinni, að þetta skapar tækifæri til að halda því unga fólki sem nú er að alast upp á Austurlandi á svæðinu og einnig að fá það fólk sem farið hefur, ýmist til mennta eða í leit að öðrum störfum, aftur heim. Þetta eru verkefnin sem fram undan eru. Við þurfum að nota allt sem við eigum til að nýta það sem best.

Það er auðvitað ljóst, herra forseti, að áhrifin af þessu stóra verkefni eru ekki eingöngu bundin við Austurland. Því fer víðs fjarri. Það mun að sjálfsögðu hafa áhrif um allt land, misjöfn að sjálfsögðu, mest á Austurlandi og síðan á höfuðborgarsvæðinu. Samfélag okkar er þannig upp byggt að ekki verður komist hjá því að öll slík verkefni hafi mikil áhrif á höfuðborgarsvæðinu þar sem er miðstöð allrar þjónustu og mesti fjöldinn er. Þegar menn hafa verið að spá fyrir um störfin sem verða til í tengslum við þetta hafa menn gert ráð fyrir að u.þ.b. helmingurinn eða svona 750 störf verði til á svæðinu fyrir austan og síðan álíka mörg annars staðar á landinu, jafnvel meira, jafnvel upp undir 900 störf annars staðar á landinu. Það er auðvitað augljóst að þau verða að langmestu leyti hér á höfuðborgarsvæðinu. Þess vegna er þetta verkefni mikilvægt fyrir þjóðina alla.

Við þurfum að vanda mjög vel til þeirra mótvægisaðgerða sem menn hafa rætt um að grípa þurfi til þannig að verkefnið nýtist sem allra best. Mér finnst hins vegar með ólíkindum hve frjálslega menn tala um það sem gera þarf í þeim efnum. Það mun að sjálfsögðu ekki koma í ljós hvað hentar best fyrr en nær dregur, þegar verkefnið fer raunverulega almennilega í gang. Það sem auðvitað mun skipta mestu þá er hagstjórnin sem slík. Hún ræður auðvitað langmestu um þau áhrif sem þetta mun hafa, t.d. á verðbólgu, viðskiptahalla og annað þess háttar.

Herra forseti. Það væri auðvitað hægt að koma mjög víða við þegar við ræðum svo stórt mál sem þetta. Ég ætla þó að leyfa mér að fara örlítið yfir þá stöðu sem við þekkjum og búum við á Austurlandi. Það er nauðsynlegt að rifja upp af hverju sú þróun hefur átt sér stað sem ég lýsti hér áðan, íbúaþróunin og þróun atvinnulífsins. Meginástæðan er auðvitað sú að einn helsti veikleiki Austurlands er einhæfni í atvinnulífi. Við getum t.d. borið það saman við höfuðborgarsvæðið og mörg önnur svæði. Á Austurlandi er mjög hátt hlutfall láglaunastarfa miðað við það sem er á höfuðborgarsvæðinu en einhæfnin skiptir þar mestu. Þess vegna er þetta verkefni svo mikilvægt. Þegar álverið hefur komið inn í samfélagið er augljóst að undirstaða samfélagsins mun byggjast á tveimur stoðum, þ.e. annars vegar á sterkum sjávarútvegi og hins vegar stóriðjunni. Þetta skapar algjörlega ný sóknarfæri sem við þurfum að reyna að nýta okkur sem allra best.

Þessu til viðbótar hefur það reynst erfitt fyrir alla þá þjónustu sem við höfum byggt upp að hún er óhagkvæm þegar fámennið er jafnmikið og nú er. Þess vegna mun bara sá þáttur, að fólkinu fjölgi, styrkja mjög hina opinberu þjónustu, jafnt hjá ríki sem sveitarfélögum. Eins og ég sagði áðan mun það skapa okkur mjög mörg sóknarfæri.

Hér er nefnt og hefur verið nefnt í umræðunni áður, t.d. sóknarfærið sem það skapar gagnvart menntun. Það er alveg ljóst að þau störf sem þarna verða til, bara þau störf sem verða beinlínis til í álverinu sjálfu, kalla á stórt átak í menntun starfsfólks. Það er t.d. augljóst að framhaldsskólar á Austurlandi munu þarna fá sitt alstærsta verkefni, verkefni sem verður auðvitað að mæta með sértækum aðgerðum --- ef mér leyfist, herra forseti, að nota þau orð. Það er nauðsynlegt að skólarnir fyrir austan byggist upp til að sinna þessu, ekki bara við þær aðstæður sem skapast við undirbúning þess að verksmiðjan fari sjálf í gang heldur einnig til að viðhalda símenntun sem er auðvitað mikilvæg á vinnustað á borð við álverið. Síðan skipta öll hin óbeinu störf sem þarna koma við sögu okkur að sjálfsögðu ekki síður máli.

Herra forseti. Ég sagði áðan að störfum hefði fækkað mikið hjá okkur á Austurlandi. Við það hefur fólki eðlilega fækkað einnig. Þannig hafa menn einfaldlega mætt því oft og tíðum í fámennari byggðum þegar störfum hefur fækkað. Fólk hefur flutt brott. Þess vegna er afar óeðlilegt þegar vitnað er í tölur um atvinnuleysi að benda á að atvinnuleysi á Austurlandi hafi verið lítið. Því miður hefur það farið mjög vaxandi á seinni missirum en við vonum að það snúist við. Ástæðan fyrir því að þar hefur ekki verið um eins mikið atvinnuleysi að ræða og víða annars staðar á landinu er fyrst og fremst sú að fólkinu hefur fækkað.

Herra forseti. Ég sagði áðan að áhrifin gætu orðið gífurlega mikil og hef nefnt nokkur dæmi því til stuðnings. Hins vegar er ljóst að afleiðingarnar verður ekki hægt að sjá allar fyrir. Það er auðvitað mikil óvissa í öllum spám um hvernig þetta muni koma út. Þess vegna er mikilvægt að við reynum að nýta þetta tækifæri sem allra best til að safna sem allra mestum upplýsingum um hvernig við getum stjórnað aðstæðum til framtíðar og eins gripið inn í ef ástæða þykir til. Á þessu stigi er við hæfi að vekja sérstaka athygli á þáltill. sem lögð hefur verið fram af fulltrúum fjögurra þingflokka, þ.e. till. til þál. um rannsóknir á samfélagslegum áhrifum álvers og virkjunarframkvæmda á Austurlandi.

Það er afskaplega athyglisvert að vanta skuli fulltrúa frá einum þingflokki í flutningsmannahópinn. Ég verð að segja, herra forseti, að það er nær algjörlega óskiljanlegt. Sá þingflokkur, þingflokkur Vinstri grænna, hefur m.a. lagt gífurlega áherslu á það í allri þessari umræðu að nauðsynlegt sé að fylgjast með öllu, vakta ákveðin svæði, fylgjast með áhrifum á ákveðin svæði, á gróður, á dýralíf og jarðveg. Herra forseti. Það er að sjálfsögðu hið eðlilegasta mál. Í raun og veru alveg sjálfsagt mál enda fylgir það í úrskurði um mat á umhverfisáhrifum að þetta skuli gert. En þessi tillaga gerir ráð fyrir því að svipað verði gert um samfélag mannanna.

Ég verð að segja, herra forseti, að þótt ég beri fulla virðingu fyrir öðrum samfélögum á jörðu en samfélagi mannanna held ég að við megum aldrei ganga svo langt að gleyma samfélagi mannanna í þessu samhengi. Þess vegna er afskaplega mikilvægt að þessi tillaga fái afgreiðslu á Alþingi sem allra fyrst. Þannig verður hægt að leggja grunninn að þessari upplýsingaöflun samhliða því að þetta verkefni fer í gang.

Herra forseti. Þetta var að sjálfsögðu örlítill útúrdúr frá meginmálinu, en tengist því samt. Vegna þess að hv. þm. Ögmundur Jónasson, formaður þingflokks Vinstri grænna, var hér í hliðarsal þá gat ég ekki stillt mig um það að minnast örlítið á málið út frá þessu sjónarhorni.

Herra forseti. Ég sagði áðan að að sjálfsögðu yrðu afskaplega mikil áhrif á samfélagið fyrir austan en jafnframt mikil áhrif um land allt af þessu stóra og mikla verkefni. Sveitarfélögin fyrir austan og m.a. Þróunarstofa Austurlands hafa augljóslega búið sig mjög skipulega undir að taka við þessu mikla verkefni. Fyrirtæki og fólk mjög víða að af landinu hefur horft vonaraugum á þetta svæði og er komið í stellingar. Það er ekki bara farið að spyrjast fyrir heldur eru aðilar farnir að kaupa sig inn í fyrirtæki og sumir hafa boðað að opnuð verði starfsstöð frá viðkomandi fyrirtækjum á næstu mánuðum. Það er því augljóst að samfélagið ætlar sér að taka þátt í þessu og gera sem allra best úr þessu verkefni.

Þess vegna er mikilvægt að við getum, ef einhver möguleiki er á, gripið inn í þar sem vandinn verður mestur. Eins og ég sagði áðan, herra forseti, tel ég að vandinn sé jákvæður, þ.e. að það þarf að taka á margvíslegum málum. Það er hins vegar jákvætt í sjálfu sér af þeirri einföldu ástæðu að við erum að byggja upp til framtíðar og við ætlum okkur að styrkja byggð á Austurlandi og auðvitað landinu öllu. Við teljum brýnt að allir kostir séu nýttir þegar við horfum til slíkrar þróunar.

Herra forseti. Það kom fram áðan í ræðu hv. þm. Þuríðar Backman að það væri álit Vinstri grænna að stóriðja væri úrelt byggðastefna. Hv. þm. sagði einnig að fjölbreytt atvinnulíf styrkti byggðina. Herra forseti. Það er hárrétt, en hún er sérkennileg þessi svart/hvíta mynd sem sumir hv. þm. draga ætíð upp þegar stóriðja á í hlut. Það er að sjálfsögðu mjög einfalt að stóriðja skapar fjölbreytt atvinnulíf. Þess vegna, m.a. út frá rökum hv. þm., mun fjölbreytt atvinnulíf styrkja byggðina. Stóriðja mun því styrkja byggðina. Það er að sjálfsögðu ekki úrelt byggðastefna sem styrkir byggðina. Þess vegna er ljóst að hv. þm. talar í raun gegn sjálfri sér í sömu setningunni.

Herra forseti. Ég hafði ákveðið að halda hér stutta ræðu af þeirri einföldu ástæðu að ég vildi fyrst og fremst koma á framfæri því að ástæða væri til að fagna því að við værum komin þetta langt með málið og nú væri meginmarkmið okkar að stilla saman strengi og reyna að gera sem allra best úr málinu. Þess vegna, herra forseti, þótti mér margt sérkennilegt í ræðu hv. þm. Halldórs Blöndals.

Fyrst hélt ég að hv. þm. hefði á einhvern hátt misskilið það hver afstaða Samfylkingarinnar er í málinu eða, sem ég sannfærðist síðan um þegar ég hlustaði betur á ræðu hv. þm., að hv. þm. var fyrst og fremst miður sín yfir því að Samfylkingin væri ekki andstæðingur hans í málinu. Hv. þm. vildi það allra helst að Samfylkingin væri andstæðingur hans í málinu. Þegar hann var farinn að draga málið inn í hið ágæta nýja kjördæmi, Norðausturkjördæmi, þá varð málið fyllilega ljóst. Ástæðan var auðvitað óróleiki hv. þm. yfir því að staða sumra flokka í kjördæminu virtist önnur en hv. þm. vill helst hafa. Þess vegna, herra forseti, tel ég að umræða hans um afstöðu Samfylkingarinnar og einstakra félaga í Samfylkingunni beri þess merki að hv. þm. sé að blanda hér saman ýmsum öðrum málum.

Ég ætla ekki, herra forseti, fara yfir skoðanir einstakra þingmanna eða flokksmanna Sjálfstæðisflokksins. Ég ætla ekki fara að rekja hér greinaskrif ákveðins hagfræðings þó að hann sé í Sjálfstfl. og biðja hv. þm. Halldór Blöndal um að afsaka skoðanir sem þar koma fram. Slíkt kemur málinu hreinlega ekki við. Málið er komið á það stig að nú eigum við að sjálfsögðu að stilla saman strengi og leiða málið til lykta á eins farsælan hátt og kostur er.

Herra forseti. Aðeins að lokum vegna þeirrar ræðu sem hv. þm. Halldór Blöndal hélt hér um jafnvægi og ójafnvægi. Hún var á margan hátt býsna merkileg. Það er auðvitað alveg ljóst að við lítum á lausn þess verkefnis sem hér er til umræðu sem áfanga á leið til jafnvægis í byggðamálum, að sjálfsögðu. Við getum sagt að það sé bónus í málinu. Málið er þjóðhagslega hagkvæmt. Það mun skila samfélaginu miklum ávinningi. Bónusinn er svo sá að þetta verkefni getur skapað jafnvægi í byggðamálum, þ.e. milli höfuðborgarsvæðis og landsbyggðar. Hins vegar er alveg augljóst að málið er ekki svo einfalt að það skapi algjört jafnvægi á milli allra byggða í landinu enda væri vandfundið það verkefni sem mundi gera það 100%.

Ég þarf hins vegar að hressa örlítið upp á minni hv. þingmanns gagnvart stóriðjuframkvæmdum við Hvalfjörðinn. Ég man vel, herra forseti, að við ræddum það mjög á sveitarstjórnarstiginu í þá tíð, við sem börðumst í því að reyna að bæta hag landsbyggðarinnar, að þessi staðsetning væri mjög viðsjárverð, af þeirri einföldu ástæðu að Hvalfjörðurinn væri í raun og veru, sérstaklega þegar Hvalfjarðargöngin voru komin, orðinn hluti af höfuðborgarsvæðinu og mundi ekki skapa jafnvægi í byggð landsins. Þetta held ég að hafi allt saman komið í ljós. Hins vegar var staðan svo alvarleg þá almennt í atvinnulífi þjóðarinnar að það verkefni var nauðsynlegt til þess að koma hjólum atvinnulífsins af stað á ný. En við vorum sem sagt mjög eindregið þeirrar skoðunar að heppilegra væri að slík verkefni væru unnin utan áhrifasvæðis höfuðborgarsvæðisins.

Í þeirri umræðu tóku m.a.s. þátt ýmsir hv. þm. sem nú eru ekki mjög hrifnir af þessum framkvæmdum en ég sé enga ástæðu til að rifja þá umræðu alla upp. Mér þótti hins vegar ástæða til að hressa upp á minni hv. þingmanns varðandi það að ekki blessuðu allir staðsetningu stóriðjunnar á þessum tíma af þeirri einföldu ástæðu að sú staðsetning gæti í raun og veru valdið meira ójafnvægi í byggðaþróuninni en var þó á þeim tíma. Og ég hygg, herra forseti, að það hafi rétt reynst.

Að lokum, herra forseti, vona ég að þetta mál fái hér farsæla meðferð og nefndir muni frekar hraða störfum en hitt. Ég held að það sé okkur öllum fyrir bestu, jafnt okkur sem erum stuðningsmenn málsins og þeim sem hafa verið að berjast hvað hatrammast gegn því, að þessu máli ljúki sem allra fyrst þannig að við getum snúið okkur að ýmsu öðru.