Álverksmiðja í Reyðarfirði

Þriðjudaginn 28. janúar 2003, kl. 18:39:27 (3119)

2003-01-28 18:39:27# 128. lþ. 66.10 fundur 509. mál: #A álverksmiðja í Reyðarfirði# frv., EMS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 128. lþ.

[18:39]

Einar Már Sigurðarson (andsvar):

Herra forseti. Það vannst ekki tími, það var ekki ætlun mín að svara ekki þessari beinu spurningu hv. þingmanns heldur var tími minn búinn. Ég vissi að ég ætti annað tækifæri til að svara og vissi að hv. þm. mundi ítreka spurningu sína ef ekki yrði svarað beint.

Ég þarf ekki að fara neinar krókaleiðir að því að segja hv. þingmanni að ég mun ekki styðja þessa tillögu frá þingflokki Vinstri grænna og get fært fyrir því ýmis rök. Einföldustu rökin eru einfaldlega þau (Gripið fram í.) að þetta mál er að sjálfsögðu svo langt gengið að það væri ekkert nema sýndarmennska að leggja fram slíka tillögu á þessum tímapunkti. Núna er svoleiðis í pottinn búið af þeirri einföldu ástæðu að málið er komið svo langt að þjóðaratkvæðagreiðsla um það er því miður eingöngu lýðskrum flutningsmanna þegar þeir eru komnir í þrot í málinu. Það er bara ekkert flóknara en það, hv. þingmaður.

Við höfum hins vegar verið að velta því fyrir okkur að það væri eðlilegt að leggja ýmis mál í dóm þjóðarinnar og það ætti að setja um það reglur. Og það væri alveg klárt mál að mál sem þetta yrði ekki sett í þjóðaratkvæðagreiðslu þegar það væri svo langt gengið sem þetta mál er. Það væri að sjálfsögðu búið að framkvæma þá þjóðaratkvæðagreiðslu fyrir þó nokkru. Það er búið að ganga frá þvílíkum samningum og það er búið að leggja svo mikla vinnu í málið að við værum að sjálfsögðu búin að fara í gegnum það ferli áður en málið væri komið á það stig sem það er nú.

En ég trúi því, herra forseti, að hv. þingmaður muni velta því fyrir sér með okkur hvernig við eigum að haga þeim reglum sem við teljum afskaplega brýnt að koma á, að það verði alveg klárt hvaða mál, hvernig mál, og hvernig yfirleitt að því verði staðið að leggja mál í þjóðaratkvæðagreiðslu þannig að ekki sé verið að hlaupa upp við lok umræðu um mál og leggja þau þá með einhverri tillögu í þjóðaratkvæðagreiðslu þegar vitað er að það verður aldrei samþykkt. (ÖJ: Er þá ekki lýðskrum að vera að ræða málið yfirleitt?)