Álverksmiðja í Reyðarfirði

Þriðjudaginn 28. janúar 2003, kl. 19:32:32 (3125)

2003-01-28 19:32:32# 128. lþ. 66.10 fundur 509. mál: #A álverksmiðja í Reyðarfirði# frv., JB
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 128. lþ.

[19:32]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Frv. sem hér er til umræðu, frv. til laga um heimild til samninga um álverksmiðju í Reyðarfirði, hefur átt sér alllangan aðdraganda. Þetta frv. er hluti af ferli hér í þinginu á undanförnum missirum sem tengist fyrst og fremst umræðunni og ákvörðuninni um virkjunarframkvæmdir á hálendinu á Austurlandi. Þar hefur gengið á ýmsu og þykir mörgum að gengið hafi verið nokkuð hart fram og stundum verið farið jafnvel á svig við eðlilega málsmeðferð og lög enda er þetta mál, virkjunarframkvæmdirnar við Kárahnjúka, í kæruferli fyrir dómstólum og auk þess eru fyrirhugaðar framkvæmdir og bygging álverksmiðju í Reyðarfirði einnig til kærumeðferðar fyrir umhvrh. vegna þess að talið er að um meint brot á lögum um mat á umhverfisáhrifum sé að ræða. Úrskurður Skipulagsstofnunar hefur verið kærður og þess krafist að verksmiðjan sem á að byggja í Reyðarfirði í nafni Fjarðaáls geti ekki gengið inn í umhverfismat á fyrri framkvæmdahugmyndum Reyðaráls því svo miklar breytingar séu á framkvæmdinni að ekki sé um sömu framkvæmd að ræða, þ.e. hún víkur svo mjög frá því mati sem lá til grundvallar leyfisveitingunni fyrir Reyðarál að hún geti ekki yfirfærst sjálfkrafa á Fjarðaál.

Herra forseti. Nú þegar við erum að fjalla um þetta mál á þingi eru allir þessir þættir enn í kæruferli. Það hefði verið betra, virðulegi forseti, og réttara ef því ferli hefði verið lokið áður en gengið var til afgreiðslu af hálfu Alþingis um hvort samþykkja eigi eða ekki byggingu á þessari álverksmiðju.

Einnig er þetta mál enn fyrir dómstólum í Evrópu sem Ísland er aðili að og hefur skuldbundið sig til þess að hlýta og fara eftir dómum þeirra, t.d. fyrir ESA-dómstólnum, þar sem engan veginn er víst hvort svo miklar niðurgreiðslur til þessarar atvinnustarfsemi eins og hér er um að ræða í gegnum beinan og óbeinan ríkisstuðning séu brot á samkeppnislögum, þ.e. samkeppni innan hins Evrópska efnahagssvæðis sem við erum aðilar að. Ekki er enn kominn úrskurður um hvort þetta sé heimilt. Ýmsir þættir þessa máls eru því enn í óvissu. Því hefði verið eðlilegt að við hér hefðum beðið með þetta mál þangað til allir þessir dómsúrskuðir lægju fyrir.

En ferlið er líka sérstætt, herra forseti. Hinn 1. ágúst árið 2001 úrskurðaði Skipulagsstofnun að Kárahnjúkavirkjun mundi hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og að ekki hefði verið sýnt fram á að annar ávinningur af framkvæmdunum eða meintur efnahagslegur ávinningur þar meðtalinn mundi vega upp þau verulegu óafturkræfu neikvæðu umhverfisáhrif sem virkjuninni fylgdu. Einnig taldi Skipulagsstofnun skorta upplýsingar um einstaka þætti framkvæmdarinnar svo segja mætti fyrir um endanleg áhrif hennar. Með vísan til þessa lagðist Skipulagsstofnun í úrskurði sínum gegn framkvæmdinni.

Tekist var á um þennan úrskurð og blönduðu bæði forsrh. og utanrrh. sér í þá umræðu. Formenn beggja ríkisstjórnarflokkanna blönduðu sér í málið með beinum hætti og létu í ljós að þessum úrskurði yrði illa unað. Með yfirlýsingu þeirra mátti ljóst vera að krafa ríkisstjórnarinnar undir forustu hæstv. forsrh. Davíðs Oddssonar og hæstv. utanrrh. og formanns Framsfl., Halldórs Ásgrímssonar, mundi verða að úrskurði Umhverfisstofnunar yrði snúið við til þess að hann félli að stefnu, markmiðunum og áætlunum ríkisstjórnarinnar. Enda varð sú raunin.

Eftir málamyndabreytingar á matsgerðinni úrskurðaði umhvrh. 20. desember árið 2001 að heimila Kárahnjúkavirkjun og var öllum ljóst af þeirri umræðu sem þá hafði á undan gengið að sá úrskurður mundi vera líklegastur.

Í miðju þessu ferli eða haustið 1999 skipaði iðnrh. verkefnisstjórn sem átti að meta nokkra stórvirkjunarkosti út frá umhverfisáhrifum og forgangsraða þeim og semja svokallaða rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma. Niðurstöður þessarar nefndar áttu að vera leiðbeinandi fyrir stjórnvöld um val á virkjunarkostum. Í bráðabirgðaáliti nefndarinnar kemur fram að einna mest náttúruspjöll mundu verða við fyrirhugaða Kárahnjúkavirkjun af þeim virkjunarkostum sem nefndin skoðaði --- hún skipaði sér þar í fremstu röð hvað varðar verndunargildið --- og samkvæmt því ætti ekki að ráðast í þessa virkjun. En við þessu hafa ráðherrar og meiri hluti þingmanna á Alþingi, bæði þingmenn Framsfl. og Sjálfstfl. og Samfylkingarinnar, skellt skolleyrum og heimild til Kárahnjúkavirkjunar var samþykkt á Alþingi sl. vetur.

Herra forseti. Bara þessi forsaga ein sýnir hvers konar bellibrögðum hefur verið beitt til þess að koma þessari hlið málsins í gegnum Alþingi í mikilli ósátt við stóran hluta þjóðarinnar.

Herra forseti. Þegar umhvrh. breytti úrskurði Skipulagsstofnunar og heimilaði virkjunina mótmæltu umhverfis- og náttúruverndarsamtök harðlega. Þau sendu frá sér yfirlýsingu sem ég vil fá að vitna í. Þetta er yfirlýsing formanna níu umhverfis- og náttúruverndarsamtaka, með leyfi hæstv. forseta:

,,Í ljósi þess að Kárahnjúkavirkjun mundi valda margfalt meiri náttúruspjöllum en nokkur einstök framkvæmd á Íslandi til þessa er niðurstaða ráðherra [þ.e. hæstv. umhvrh.] óskiljanleg. Veruleg og óafturkræf áhrif virkjunarinnar, sem Skipulagsstofnun byggði úrskurð sinn á, samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000, blasa við hverjum þeim sem kynnir sér framkomnar upplýsingar. Tæpast er hægt að ímynda sér stórfelldari röskun af mannavöldum á náttúru landsins.

Í þessu sambandi er minnt á eftirfarandi:

Kárahnjúkavirkjun mun eyðileggja eitt stærsta hálendisvíðerni í Evrópu með mannvirkjagerð á um 1.000 ferkílómetra svæði og spilla fjölbreyttu gróðurlendi á allt að 600 ferkílómetra svæði, sem er hluti af samfelldri gróðurþekju frá sjó inn til jökla. Líta ber á hálendisgróður ofan við 500 m hæð sem fágæta og verðmæta auðlind.

Ómetanlegar jarðfræðiminjar og landslagsheildir á heimsvísu yrðu eyðilagðar eða þeim raskað verulega með virkjunarframkvæmdunum.

Meira en 100 fossar yrðu fyrir röskun af völdum virkjunarinnar og sumir þeirra hyrfu alveg.

Stórfelldir vatnaflutningar einkenna virkjunina þar sem m.a. eitt stærsta vatnsfall landsins, Jökulsá á Dal, yrði flutt á milli vatnasviða og veitt í Lagarfljót.

Nánast ekkert vatnakerfi á virkjunarsvæðinu stæði eftir óraskað. Lífríki í stöðuvötnum og fjölmörgum ám mun eyðast eða raskast verulega, einangruðum stofnum verður útrýmt eða þeim blandað saman við aðra stofna.

Þýðingarmikil varpsvæði og fjaðrafellisstaðir fugla eyðilegðust á sjálfu virkjanasvæðinu og samfara vatnaflutningum á Úthéraði. Mikilvæg búsvæði hreindýra og sela myndu raskast eða eyðileggjast.

Standi úrskurður umhverfisráðherra mun hann hafa fordæmisgildi fyrir mat á umhverfisáhrifum framkvæmda og stefna í hættu þeim miklu verðmætum sem felast í íslenskri náttúru og landslagi.

Undirritaðir formenn mótmæla úrskurði umhverfisráðherra og munu beita sér fyrir því að málsmeðferð og forsendur fyrir úrskurðinum verði athugaðar vandlega og metið hvort ástæða sé til að fara með málið fyrir dómstóla.``

Þetta var tilvitnun í yfirlýsingu formanna níu almenningssamtaka á Íslandi um náttúruvernd.

Það er því ljóst, herra forseti, að á þessu stigi málsins ríkti mikill og djúpstæður ágreiningur um þá ákvörðun sem hæstv. umhvrh. tók með því að heimila Kárahnjúkavirkjun, þ.e. að hún mundi ekki valda svo umtalsverðum umhverfisáhrifum og þess vegna væri ástæða til þess að heimila hana. Djúpstæður ágreiningur ríkti þá og sá ágreiningur er enn við líði.

Herra forseti. Í þessu sambandi hefur verið rætt um að nú mætti fara að slíðra sverðin í árásum á íslenska náttúru og náttúruauðlindir þar sem þessi ákvörðun hefur verið tekin og ef það yrði síðan af fyrirhugaðri Kárahnjúkavirkjun. Það má til sanns vegar færa að slíðra megi sverðin. Þeir aðilar og þau stjórnvöld sem ganga svo harkalega fram gagnvart íslenskri náttúru mættu svo sannarlega slíðra sverðin og þó fyrr hefði verið. En það er ekki ætlunin stjórnvalda, ríkisstjórnar Sjálfstfl. og Framsfl. að láta hér staðar numið þó svo að þetta gengi eftir. Uppi eru áætlanir, og við bíðum nú eftir úrskurði, um að ráðast næst á aðra dýrmæta náttúruperlu á Íslandi, þ.e. Þjórsárver. Það kemur því úr hörðustu átt hjá stjórnvöldum eða fylgjendum þessarar herferðar gegn íslenskri hálendisnáttúru að krefjast þess að sverðin verði slíðruð ef þeir gera það ekki sjálfir. Það á sem sagt að halda áfram á sömu braut samanber þær áætlanir sem eru nú uppi.

[19:45]

Ég vildi svo gjarnan að stjórnvöld beittu sér fyrir því að sátt næðist um umgengni við íslenska náttúru og þau mundu verða fyrst til þess að slíðra sverðin, en svo virðist ekki vera, heldur er brandinum haldið brugðnum yfir íslenskri fjalla- og hálendisnáttúru.

Það frv. sem hér liggur fyrir fjallar um heimild til samninga um byggingu álverksmiðju í Reyðarfirði. Það er í sjálfu sér gott og vert að búa atvinnulífi í landinu umgjörð. Og það er líka ánægjulegt ef stigin eru heilladrjúg skref til að styrkja atvinnulíf, bæði á einstöku stöðum og vítt og breitt um landið. Vissulega er það.

Það er líka sjálfsagt að nýta á hóflegan og sjálfbæran hátt orkuauðlindir landsins. Það er svo sjálfsagt og eðlilegt. En þessi framkvæmd öll á ekkert skylt við þá nálgun. Þessi framkvæmd er svo risavaxin, bæði hvað varðar árás á íslenska náttúru og stærð í efnahagslegu tilliti. Talað er um að framkvæmdir tengdar Kárahnjúkavirkjun og álverksmiðju í Reyðarfirði geti numið um 200 milljörðum kr. Það væri nú hægt að búa atvinnulífi umgjörð og styrkja það með minni upphæð en þessari.

Við gleymum því stundum, herra forseti, að þjóðin telur ekki nema á þriðja hundrað þúsund manns. Við búum í dreifbýlu landi sem við viljum halda öllu í byggð. Við búum líka í landi með mjög viðkvæmt atvinnulíf. Við búum í landi sem byggir á náttúruauðlindunum og sambúð við náttúruna. Risaframkvæmdir sem þessar á örstuttum tíma inn í íslenskt efnahags- og atvinnulíf og geta einar sér komið til með að hafa gríðarleg óafturkræf áhrif.

Í fylgiskjali með frv. er greinargerð frá efnahagsskrifstofu fjmrn. Vert er að hafa í huga, virðulegi forseti, að eftir að Þjóðhagsstofnun var lögð niður er í rauninni engin óháð efnahagsskrifstofa eða stofnun til í landinu sem hægt er að snúa sér til til að fá hlutlaust mat á áhrifum einstakra aðgerða á efnahagsmál. Því var verkefnunum m.a. deilt út til fjmrn., þ.e. efnahagsskrifstofu fjmrn.

Ég ætla ekki endilega að gera því skóna að efnahagsskrifstofa fjmrn. starfi ekki af þeim heiðarleika sem þeim er treystandi til og vinni verk sín faglega. En engu að síður er ljóst að fjmrn. er hluti af framkvæmdarvaldinu sem er að framkvæma og fylgja eftir áherslum og stefnumiðum ríkisstjórnarinnar. Og stefna ríkisstjórnarinnar er að koma þessum álframkvæmdum og virkjunum á hvað sem tautar og raular. Við höfum heyrt það hér á Alþingi hvað eftir annað að hæstv. ráðherrar hafa lýst því yfir úr þessum ræðustól að í þær framkvæmdir, Kárahnjúkavirkjun og álverksmiðu á Reyðarfirði, verði ráðist hver svo sem hagkvæmni eða umhverfisáhrif verða.

Efnahagsskrifstofa fjmrn. stendur frammi fyrir þeirri stefnumörkun sem henni er jú skylt að vinna að, en engu að síður ber henni líka að benda á hluti sem ber að hafa í huga þegar ráðist er í svo stórkostlega framkvæmd og meta hana. Efnahagsskrifstofa fjmrn. hefur vissulega bent á þau gríðarlegu áhrif sem slík stórframkvæmd hefur á efnahagslíf þjóðarinnar, sérstaklega á framkvæmdatímanum. Hún hefur vakið athygli á því að slík stórframkvæmd muni eðlilega kalla fram mikil áhrif í efnahagslífinu. Það að svo mikið fjármagn komi inn í landið, allt að 200 milljarðar kr. tengt einni framkvæmd, mun kalla á verulega hækkun á gengi íslensku krónunnar. Það mun líka kalla á hækkun vaxta til þess að halda niðri þenslu. Efnahagsskrifstofan hefur líka bent á að viðskiptahallinn mun stóraukast. Innflutningur á vörum mun aukast ekki aðeins vegna innflutnings á vörum og tækjum tengt framkvæmdinni heldur einnig vegna hás gengis. Kaupmáttur á innfluttum vörum mun að sjálfsögðu aukast sem er að því marki kostur svo fremi sem efnahagslífið geti skaffað útflutningstekjur á móti.

Við höfum reynt á undanförnum árum hvaða áhrif viðskiptahalli vegna neyslu hefur haft á íslenskt atvinnulíf. Gríðarlegur viðskiptahalli sem var á undanförnum árum leiddi til mikils misvægis í efnahagslífinu og leiddi til þess að mikill fjöldi fólks var farinn að vinna við störf sem tengdust þjónustu og innflutningi, sem ekki var útflutningsverðmæti fyrir. Það gleðilega gerðist samt á síðasta ári að utanríkisviðskiptin komust í jafnvægi og menn gátu vænst þess, væri haldið rétt á spöðum í efnahagsmálum, að við gætum nú staðið frammi fyrir tiltölulega hægum en öruggum hagvexti og ró í atvinnulífinu.

Vissulega mundum við þurfa að fara í gegnum visst erfiðleikaskeið meðan atvinnulífið væri að aðlaga sig því að viðskiptahallanum væri lokið, en efnahagslífið og atvinnulífið áttu að hafa allar forsendur til þess að geta leyst þar úr. En þá koma þessar fyrirhuguðu stórframkvæmdir sem hleypa öllu í uppnám á ný.

Áhrifin af þessum væntanlegu framkvæmdum eru þegar farin að koma í ljós. Það hefur verið gengið út frá gengisvísitölu upp á 130--134 við gerð fjárlaga og við áætlun um þróun efnahagsmála á næstu missirum, ef ekki kæmi til stórvirkjana og slíkra framkvæmda. Gengisvísitala upp á 130--134 mundi einnig halda útflutningsviðskiptunum í nokkuð góðu jafnvægi og jafnframt skapa góðan grundvöll fyrir útflutningsatvinnuvegina.

En þessar fyrirhuguðu framkvæmdir hafa þegar haft þau áhrif að gengið hefur snarhækkað og gengisvísitalan nú er einhvers staðar í kringum 123, milli 123 og 124, sem þýðir m.a. að dollarinn sem hefur verið talið eðlilegt að væri í 90--95 ísl. kr. er núna kominn niður fyrir 80 kr. Það þýðir að við fáum stöðugt minna og minna fyrir þær vörur sem við flytjum út og það verður útflutningsgreinunum mjög erfitt.

Einnig er vert að geta þess að í matsskýrslu fjmrn. á efnahagsáhrifum fyrirhugaðra framkvæmda við virkjunina og álverið er gengið út frá því að gengisvísitalan sé um 130. Þeir taka það fram að hún sé forsenda fyrir þeim spám sem þeir leggja þar fram. Víki gengisvísitalan frá þeirri tölu yrði enn minna að marka spár þeirra, þá verður sveiflan og áhrifin enn meiri. Gengisvísitalan nú er 123, eða nærri 10% hærra en efnahagsskrifstofa fjmrn. gerir ráð fyrir við matsgerð sína og áætlanagerð.

Ég held, virðulegi forseti, að þegar fjárln. fær þetta mál til meðferðar og ókosinn formaður fjárln., hv. þm. Ísólfur Gylfi Pálmason, þá ætti að taka þetta mál fyrir í fjárln. því að fjmrn. er að segja að forsendur fjárlaganna séu í rauninni brostnar verði slík gengisþróun sem við nú stöndum frammi fyrir. Svo einfalt er það.

Virðulegi forseti. Ég held að útflutningsgreinarnar okkar muni um það að búa við 10--20% hærra raungengi, hærra gengi íslensku krónunnar en eðlilegt er talið miðað við íslenskt efnahagslíf. Og meira að segja dollarinn hefur lækkað um 30% á nokkrum mánuðum.

Ég býst við því, herra forseti, að t.d. fyrir sauðfjárbændur sem verða nú að flytja æ stærri hluta framleiðslu sinnar úr landi, 30--50% eru menn að tala um að sauðfjárbændur þurfi að flytja úr landi af framleiðslu sinni, þá muni um það ef gengið er 20% hærra en það ætti að vera. Það þýðir að útflutningsverðmæti sauðfjárafurðanna verður 20% lægra en annars ætti að vera. Ef við flytjum út sauðfjárafurðir fyrir 400 til 600 millj. kr. þýðir það að um 30--40 störf tapast.

Ég vil spyrja hæstv. iðnrh.: Hefur ráðherrann gert sér grein fyrir því hvaða áhrif þessar framkvæmdir hafa á útflutningsgreinarnar annars staðar í landinu? Á útflutning sjávarafurða? Á samkeppnisstöðu og tekjur ferðaþjónustunnar, innlendrar ferðaþjónustu? Það var mjög ánægjulegt sjálfsagt að heyra það að ferðalög til útlanda lækka og ferðaskrifstofur hafa ekki undan að lækka verð á ferðum til útlanda. En til þess þarf gjaldeyri. Hefur verið tekið saman hvaða áhrif þetta hefur á samkeppnisstöðu ferðaþjónustunnar í landinu? Stendur ferðaþjónustan það af sér að tekjur hennar skerðist um 10--20% vegna rangs gengis?

[20:00]

Við verðum að fara í gegnum öll þessi atriði þegar metin eru áhrif stórframkvæmdar eins og hér er um að ræða. Það er svo sem ánægjulegt að framkvæmd geti styrkt atvinnulíf og búsetu á einum afmörkuðum stað en svo gríðarleg framkvæmd, af þvílíkri stærð, mun valda miklum áhrifum um allt land á atvinnulífið, m.a. á Vestfjörðum.

Útflutningsatvinnuvegunum á Vestfjörðum mun blæða meðan á byggingarframkvæmdum stendur vegna hás gengis og hárra vaxta. Útflutningsatvinnuvegunum á Norðurlandi mun einnig gera það og efnahagsskrifstofa fjmrn. segir að ekki muni nægja að gengið hækki og vextir hækki heldur muni líka þurfa að skera niður ríkisframkvæmdir til að reyna að halda efnahagslífinu nokkurn veginn í skorðum. Þetta eru efnahagsstærðir sem við höfum aldrei staðið frammi fyrir áður, gríðarlega stórar. Það þarf því að skera niður ríkisframkvæmdir. Menn eru á handahlaupum við að flýta framkvæmdum í ár vegna þess að það liggur ljóst fyrir að að loknu þessu ári, verði af virkjun, muni þurfa að beita hnífnum á framkvæmdir á næstu árum. Hvar eiga þær að koma niður? Munu þær ekki fyrst og fremst koma niður á vegaframkvæmdum og einkum um hinar dreifðu byggðir?

Herra forseti. Hvort sem hún er skoðuð út frá umhverfisáhrifum eða efnahagsáhrifum kemur í ljós að þessi framkvæmd er af þeirri stærð að hún passar engan veginn, hvorki í íslenska náttúru né íslenskt efnahags- og atvinnulíf. Verði af þessum framkvæmdum munum við stíga óafturkræf skref, stórspilla íslenskri náttúru og hafa áhrif á íslenskt efnahagslíf og búsetu sem munu valda erfiðleikum víða um land.

Það er líka dapurt, herra forseti, að ekki skuli gerð grein fyrir sérstökum mótvægisaðgerðum til að styrkja viðspyrnu á Vestfjörðum, Vesturlandi og Norðurlandi gagnvart þeirri bylgju sem þessar framkvæmdir munu hafa á atvinnu- og efnahagslíf á þessum svæðum. Það verður nú þegar að setja upp aðgerðaáætlun til að standa vörð um þessa landshluta þannig að þessar framkvæmdir sogi ekki til sín fólk, fjármagn og atvinnulíf af þessum svæðum. Við krefjumst þess að þessar mótvægisaðgerðir verði kynntar um leið og þetta mál er hér til umfjöllunar á Alþingi.

Herra forseti. Þetta stórmál, stærsta mál sem komið hefur fyrir fyrir Alþingi Íslendinga síðan lýðveldið var stofnað, þessi stórframkvæmd, bygging Kárahnjúkavirkjunar og álverksmiðjan í Reyðarfirði, kom upp eftir að gengið var til kosninga fyrir nærri fjórum árum. Nú er ætlunin að afgreiða þetta mál fyrir næstu kosningar. Ég hef hér rakið hversu mikill ágreiningur er um þetta mál, hvort sem er Kárahnjúkavirkjun og þau miklu náttúruspjöll sem henni tilheyra og það að ekki skuli gefast kostur á að meta aðra valkosti í nýtingu þessara náttúruauðlinda. Þetta var ekki borið undir þjóðina og hefur ekki komið til atkvæðagreiðslu hvorki í alþingiskosningum né með þjóðaratkvæðagreiðslu. Framkvæmdin var heldur ekki kynnt fyrir síðustu alþingiskosningar en nú á að hrista hana í gegnum þingið fyrir næstu kosningar. Þetta teljum við í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði ótæk vinnubrögð. Við leggjum til að fylgt verði þeim lágmarkskröfum gagnvart svo stóru máli sem svo mikill ágreiningur er um að um það fari fram þjóðaratkvæðagreiðsla, að þjóðin greiði atkvæði um byggingu Kárahnjúkavirkjunar. Það væri þó meiri sátt að vita til þess að meiri hlutinn samþykkti það. Ég hef reyndar þá trú að eftir að málið hefði fengið rækilega kynningu meðal þjóðarinnar mundi þjóðin ekki samþykkja að ráðast í svo gríðarleg náttúruspjöll og efnahagslegar kollsteypur sem þeim gætu fylgt. Hún mundi vilja að farið yrði hægar og rólegar í sakirnar og atvinnulífið byggt upp í takt við íslenskt samfélag, stærð og íbúafjölda.

Við leggjum hér til að samhliða alþingiskosningum í vor fari fram þjóðaratkvæðagreiðsla um byggingu Kárahnjúkavirkjunar. Við bendum á hve harðar deilur hafa verið um Kárahjúkavirkjun og hugmyndir um aðrar virkjanir á þessu svæði. Við bendum á að úrskurður umhvrh. frá 20. desember, sem flestir viðurkenna að er byggður á þröngum pólitískum viðhorfum, er mjög umdeildur. Fjölmargar ástæður renna stoðum undir þá hugmynd að frekari framvinda málsins verði ráðin í lýðræðislegri atkvæðagreiðslu sem allir atkvæðisbærir landsmenn gætu tekið þátt í.

Undanfarna daga, virðulegi forseti, höfum við séð mótmæli almennings gegn þessum framkvæmdum. Mótmælin snúast bæði gegn því að ráðist sé í svona risaframkvæmdir sem passa engan veginn við íslenskan veruleika og beinast líka að þeirri gerræðislegu málsmeðferð sem málið hefur fengið í þinginu, bæði af hálfu hæstv. umhvrh. og hæstv. iðnrh. og einnig á Alþingi.

Við sáum í dag fjölmenni fyrir framan Alþingishúsið til þess að mótmæla þessum framkvæmdum. Mannfjöldinn bar fram þá sjálfsögðu kröfu að fram færi þjóðaratkvæðagreiðsla um byggingu Kárahnjúkavirkjunar áður en ráðist yrði í framkvæmdir.

Virðulegi forseti. Íslenska þjóðin hefur stáðað sig af því að vera lýðræðisþjóð. Við höfum státað okkur af því að hafa staðið vörð um lýðræðið um aldir. Við höfum státað okkur af því að búa við eitt elsta þjóðþing í heiminum. Við höfum talið okkur til fánabera lýðræðis og þess að hver einstaklingur fái að hafa um það val með atkvæði sínu hvernig á stórum málum þjóðarinnar sé haldið.

Þetta mál er eitt það stærsta sem komið hefur fyrir Alþingi, fyrir þjóðina, á síðustu áratugum. Það er því fullkomlega eðlileg lýðræðiskrafa að málið fari í þjóðaratkvæðagreiðslu áður en framkvæmdir hefjast.

Virðulegi forseti. Ég ítreka þá kröfu að áður en ráðist verði í framkvæmdir fari fram þjóðaratkvæðagreiðsla um Kárahnjúkavirkjun. Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs höfum lagt fram tillögur hér á Alþingi þar að lútandi. Við teljum að það væri bæði þingi og þjóð til sæmdar að þetta mál fengi afgreiðslu þar.