Álverksmiðja í Reyðarfirði

Þriðjudaginn 28. janúar 2003, kl. 20:09:21 (3126)

2003-01-28 20:09:21# 128. lþ. 66.10 fundur 509. mál: #A álverksmiðja í Reyðarfirði# frv., ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 128. lþ.

[20:09]

Árni Steinar Jóhannsson:

Virðulegi forseti. Hér er til umfjöllunar frv. til laga um heimild til samninga um álverksmiðju í Reyðarfirði. Félagar mínir úr Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði hafa gert umhverfismálunum ítarleg skil en mig langar til að fara aðeins almennari orðum um þetta mál.

Ég hef átt sæti í iðnn. þetta kjörtímabil. Þegar ég settist á þing var staðan þannig að Landsvirkjunarmenn, þar á meðal forstjórinn, greindi iðnn. og þingmönnum frá því að vegna hugmynda um fyrirhugaða Kárahnjúkavirkjun og byggingu álvers við Reyðarfjörð væri, út frá sjónarhóli fyrirtækisins, algerlega útilokað að fyrirtækið stæði eitt að þessari uppbyggingu. Þá horfðu málin þannig við að þetta var talið allt of áhættusamt. Þá kom fram að Landsvirkjun gæti einvörðungu orðið hluthafi í slíku félagi. En síðan, eins og komið hefur fram í ræðum margra þingmanna, hefur pólitísku afli verið beitt til að fara í þessa framkvæmd. Mönnum er þá kannski sama hvað dæmið kostar enda kemur það fram í frv. og fylgigögnum þess að hér er um verulega ríkisaðstoð að ræða við uppbyggingu á atvinnustarfsemi. Þetta er sennilega stærsta ríkisvæðing sögunnar. Það skýtur skökku við hvað varðar ríkjandi stjórnarflokka vegna þess að þeir hafa notað alla sína orku síðustu tíu ár til að vinda ofan af ríkisvæðingu, eins og þeir kalla það, með sölu bankanna, nauðsynlegra ríkisfyrirtækja að mínu mati. Þeir eru jafnframt að undirbúa sölu Símans o.s.frv. Þarna er reginmunur á. Núverandi ríkisstjórn ræðst á grunnþjónustufyrirtæki samfélagsins eins og banka og aðrar stofnanir og mundar sig til að einkavæða þær. Á sama tíma á að fara í milljarðauppbyggingu með ríkisbakstuðningi, eins og hér er lagt til að gert verði, austur við Kárahnjúka og síðan á í kjölfar þess byggja álverksmiðju við Reyðarfjörð.

Þetta er líka grafalvarlegt mál í ljósi stöðu orkumála í landinu. Staða orkumála í landinu er mjög slæm fyrir landsbyggðarfólk yfir höfuð. Það eru tveir stórir eigendur að Landsvirkjun ásamt ríkinu, þ.e. að sjálfsögðu Reykjavíkurborg og Akureyrarbær sem njóta þeirrar stöðu í lágu orkuverði heima fyrir, bæði á höfuðborgarsvæði og eins á Akureyri. Hér um bil öll önnur landsvæði að undanskildu orkuveitusvæði Hitaveitu Suðurnesja fær orku frá Rafmagnsveitum ríkisins. Þegar við horfum á þessi mál í þessu samhengi opnast manni ljótur veruleiki. Menn sjá að á orkuveitusvæði Rariks er orkan seld, vegna kerfisins og uppsetningarinnar, á uppsprengdu verði til iðnaðar sem landsmenn sjálfir stunda um allt land. Það er algengt á orkuveitusvæði Rariks að menn kaupi orkuna frá 6 og upp í 9 kr., t.d. grunnorku til iðnaðar. Þetta er auðvitað óþolandi ástand. Við hefðum átt, í staðinn fyrir svona bollaleggingar, að leggja niður fyrir okkur möguleikana á að lækka orkuverð til okkar eigin iðnaðar í krafti þeirrar stöðu sem uppi var.

Það er nefnilega þannig að Landsvirkjun, miðað við núverandi ástand, þ.e. fari hún ekki í stórar framkvæmdir eins og Kárahnjúkadæmið, gæti orðið nokkurn veginn skuldlaus á 15 árum og það skapar að sjálfsögðu gríðarlega möguleika til lækkunar á orkuverði alls staðar í landinu, bæði til heimilis- og iðnaðarnota og er ekki vanþörf á. Þessi staða, stefnan sem hér er tekin leiðir til að fyrir slíka möguleika er girt. Það getur orðið um einhverja lítils háttar lækkun að ræða eins og verið hefur undanfarið en við munum girða fyrir möguleikann á stórkostlegri lækkun á raforkuverði til innlends iðnaðar og heimilisnota vegna þess að það er verið að fara allt aðra leið.

[20:15]

Hver er svo sú leið sem farin er til þess að framkalla þennan samning eða gefa grunn að möguleikunum á að semja um álverksmiðju í Reyðarfirði? Hún er sú að baktrygging verður að vera frá hendi ríkisins, þ.e. í gegnum Landsvirkjun. Nú er náttúrlega svo komið, eins og almenningi er kunnugt, að borgarstjórn Reykjavíkur og bæjarstjórn Akureyrar hafa samþykkt slíka ábyrgð. Þeir aðilar hafa samþykkt þetta sem ég tel að sé ekki rétta leiðin hvað varðar okkar eigin orkunotkun í landinu.

Staðan er nefnilega þannig að verulegur hluti af iðnaði okkar í landinu er knúinn með aðkeyptri orku, mestmegnis svartolíu. Og það er alveg ótrúlegt að fara yfir sviðið og sjá að jafnvel hér innan borgarmarka Reykjavíkur eru stór og stöndug fyrirtæki sem sjá hag sínum best borgið með því að vera á innfluttu afli, þá að langmestu leyti olíu og í sumum tilfellum gasi. Víða úti um land er líka notuð olía til þess að knýja iðnfyrirtæki landsmanna. Það er t.d. mjög algengt í öllum fata-, þvotta- og safaiðnaði.

Hvernig stendur á því að við erum hér með upplegg sem tekur ekki nokkurt mið af því hvernig staðan er í landinu og hvaða möguleikar eru fyrir okkur að fara aðrar leiðir sem mundu gagnast okkur betur í hinn endann? Það er ekkert vafamál. Og nú skal ég nefna lítið dæmi, bara til þess að menn geti áttað sig betur á hlutunum. Það er dæmi um það hver ruðningsáhrifin geta orðið þegar menn sjást ekki fyrir.

Þegar Rafveita Sauðárkróks var seld Rafmagnsveitum ríkisins á sínum tíma var það þannig þar í bæ að lítið fyrirtæki eins og efnalaug keypti orkuna frá Rafveitu Sauðárkróks á rúmlega 2 krónur, 2,10. Þegar Rafmagnsveitur ríkisins yfirtóku reksturinn var sama fyrirtækinu boðin orka á yfir 6 kr. kwst. Það var reyndar byrjað með yfir 7 kr. Ruðnings/-áhrifin í litlu fyrirtæki eins og þessu þar sem vinna tvær til þrjár manneskjur eru gríðarleg. Þau gera fyrirtækinu hér um bil ókleift að starfa og það er hækkun á tilkostnaði vegna orkukaupanna sem nemur um hálfum árslaunum.

Ef við förum yfir landið í þessum dúr og leggjum niður fyrir okkur hvað við erum að gera getur vel verið --- við höfum ekki gert það --- mér segir svo hugur um að ruðningsáhrifin, þ.e. neikvæðu áhrifin, annars staðar í landinu verði gríðarleg og þau geti jafnvel kostað hundruð starfa. Og það er ekki bara verið að tala um ruðningsáhrif vegna viðhalds á háu orkuverði heldur er náttúrlega nefnt til sögunnar vaxandi verðbólga og hækkandi vextir, svo að eitthvað sé nefnt, og síðan gríðarleg styrking á genginu. Og bara væntingarnar við þetta verkefni hafa orðið til þess að undirstöðuatvinnugreinar landsins eru komnar í veruleg vandræði. Sjávarútvegurinn og vinnsla sjávarafurða eru komin í veruleg vandræði og þau eru ekki fyrirséð ef gengið helst áfram hátt, sem t.d. ferðaþjónustan lendir í. Við getum ekki lokað augunum fyrir því að sjávarútvegurinn er sú atvinnugrein sem dregur hingað um 50% af öllum gjaldeyri og ferðamannaþjónustan 13--14%. Og það er eins og menn hafi engar áhyggjur af því, þeir sem keyra svona mál fram, að þeir leiki sér með þessa grunnatvinnuvegi landsins.

Það er líka skoðun mín að stóriðjustefnan girði fyrir aðra uppbyggingarmöguleika í iðnaðarkostum, jafnvel iðnaðarkostum sem þurfa mikla orku. Staðan er sú að Landsvirkjun er búin beint og óbeint að lofa svo mikilli orkuafhendingu að það er ekki hlustað á aðra með aðrar hugmyndir. Þeir fá ekki áheyrn. Nýverið var uppi á borðinu norður í landi mjög áhugavert iðjuverkefni sem átti að taka það sem við gátum vel ráðið við, um 30--32 megavött í orku, hreinlegt fyrirtæki sem átti að skapa 150 manns vinnu. Aðferðin sem er notuð til þess að koma mönnum út af borðinu er náttúrlega sú að bjóða þeim einungis hátt orkuverð, menn sem ráða hafa hreinlega ekki áhuga á því í krafti stóriðjustefnunnar að gefa öðrum möguleika á því að koma að borði. Það er svo einfalt í mínum huga.

Og það er sorglegt til þess að vita að umrætt fyrirtæki endaði í Svíþjóð vegna þess að þar fékk það nákvæmlega sömu fyrirgreiðslu og verið er að gefa álverksmiðju í Reyðarfirði vilyrði fyrir hér, þ.e. bakstuðning ríkisins fyrir gríðarlegum upphæðum og síðan alls konar fríðindi í sambandi við iðnaðargjald, markaðsgjald, fasteignaskatta, tekjuskatta, eignarskatta, stimpilgjöld o.s.frv.

Hvers vegna í ósköpunum hengja menn bara í sig þennan kost ef þeir eru svona áfram um uppbyggingu á orkufrekum iðnaði? Hvers vegna eru ekki uppi á borðinu tilsvarandi ívilnanir til annarra sem eru að sækja á og hafa hugsanlega áhuga á því að byggja eitthvað upp í landinu sem gæti verið meira í sátt við náttúruna og eitthvað sem við mundum auðveldlega ráða við?

Það eru augljóslega margir virkjanakostir í landinu upp á 10, 20, 50, jafnvel 70 megavött sem við getum á tiltölulega auðveldan hátt orðið sammála um að fara í, í rólegum, föstum skrefum til áframhaldandi uppbyggingar á atvinnulífinu og iðnaðinum í landinu. En það er eins og menn fái aldrei nóg. Ég efast um að þjóðin átti sig á því að þessi biti sem leiðir af sér Reyðarálsdæmið, þ.e. álbræðsluna í Reyðarfirði, er ekkert smáræði. Hér er um að ræða rúmlega fjórar Blönduvirkjanir og það er erfiðleikum háð fyrir fólk að gera sér grein fyrir því hversu gríðarlegt dæmi er hér á ferðinni, með algjörlega ófyrirséðum afleiðingum. Og það er sannarlega ástæða til þess að hafa áhyggjur af því hvað muni gerast í kjölfar þessara framkvæmda gagnvart öðru atvinnulífi í landinu. Ég nefndi orkuþáttinn en hann er auðvitað bara einn þáttur af því sem er að gerast. Hátt gengi er þegar farið að valda sjávarútveginum vandræðum eins og ég sagði áðan. Síðan eru vaxtamálin, að maður tali ekki um stöðu fjölskyldna í landinu sem þurfa að þola meiri verðbólgu og hærri vexti.

Það er eins og þeim sem tala fyrir þessu verkefni sé alveg sama um hvað gerist annars staðar, það komi þeim ekkert við. Og það er ekki farsæll búskapur að miða alltaf að einhverju nýju og eyðileggja undir sér allt það sem maður á og hefur staðið með manni áratugum saman.

Hvernig stendur á því að menn vilja fara þessar leiðir? Hvernig stendur á því að mönnum er sama um það sem þjóðin hefur búið í haginn fyrir sig, og telja sig geta samþykkt á færibandi að selja stofnanir eins og banka eins og ekkert sé og síðan að fara í svona glæfraspil, að ég tel, með ríkisbakábyrgðum og ríkisvæddri uppbyggingu atvinnulífs? Þetta er ekki einu sinni í anda þeirrar stefnu sem keyrt er eftir í þinginu.

Hvernig stendur á því að sama fólk, sömu hv. þm., hlær að því og segir að við séum gamaldags hjá Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði þegar við leggjum til bakábyrgðir vegna uppbyggingar í fiskeldi, t.d. í lúðueldi þar sem við erum 80% framleiðendur á öllum lúðuseiðum í heiminum? Við flytjum megnið af þessu út vegna þess að aðrar þjóðir eru með stofnstyrki til áframeldis á fiskinum. Seiðin fara í tugþúsundavís í pokum í flugvélum til útlanda til áframhaldandi eldis. Hvar mundi svoleiðis fyrirtæki standa ef það væri með tilsvarandi samninga í grunninn hvað varðar orku, baktryggingar, alls konar gjöld og jafnvel stofnstyrki? Auðvitað væri hægt að vera með fjölbreytt atvinnulíf og koma ýmsu í kring ef það væri vilji manna yfir línuna, og væri að okkar mati hjá Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði miklu farsælla en að standa í þessu stóra höggi einu og sér á einum stað. Það er hægt að nefna mýmörg dæmi í þessum dúr sem hægt væri að fara í. Það eru allir sammála um það.

Haldið þið að iðnrekendum á Íslandi fyndist ekki fínt ef orkukaup frá veitunum okkar væru tengd verði t.d. á fiskinum þannig að ef illa gengi í útlöndum færi verðið niður? Það eru engir slíkir samningar í boði fyrir það atvinnulíf sem við höfum þegar hér í landinu.

Virðulegi forseti. Ég vildi aðeins fara í þetta mál í almennum atriðum en í dag hefur berlega komið í ljós að hér á ekkert að stöðva. Þeir hv. þm. sem keyra þetta mál áfram fá aldrei nóg. Áfram skal haldið. Nú skal stækka í Straumsvík, eins og menn vita, og það er búið að gefa loforð fyrir því. Það skal stækka Norðurál og það vita menn, menn vilja álver í Eyjafjörð og menn vilja álver í Skagafjörð. Það er ekki aldeilis að þessari vegferð sé lokið því að menn vilja halda áfram. Það er augljóst mál.

Og þá er það spurningin: Hvar á að virkja? Það vilja menn ekki horfast í augu við enda hefur ekki verið samþykkt eða farið í gegnum nýja áætlun í þinginu, t.d. um nýtingu vatnsafls og jarðvarma. Ríkisstjórnin forðast eins og heitan eldinn að setja upp nokkurt plan í þeim dúr vegna þess að menn ætla að halda áfram á þessari braut. Og það er virkilega það sem er umhugsunarefni í þessu dæmi öllu.

Ef þessir villtustu draumar rætast innan tíu ára og menn geta yfir höfuð --- enginn sem tjáir sig á hinu háa Alþingi getur farið nógu hratt í þetta mál. Menn vildu sjálfsagt helst stækka og byggja ný álver annað hvert ár ef þeir kæmust upp með það og gætu það. Þannig er innstillingin. Menn vilja fara í Straumsvík og menn vilja fara í Norðurál og menn vilja fara í ný verkefni norður í Eyjafirði og þar fram eftir götunum. Bara miðað við þessi verkefni sem eru á blaði hjá mér verður orðið harla lítið eftir af virkjunarmöguleikum í landinu þegar þau eru búin. Þá verður ansi lítið eftir af orku til þess að fara í stóra drauma, t.d. um vetnisvæðingu landsins. Það er bara ekki hægt, það er búið að girða fyrir það. Hér rekst hvað á annars horn.

Og hvar eru menn tilbúnir að staldra við? Ætla menn í Skaftá og Langasjó á grunni þessara villtu drauma? Ætla menn í Dettifoss og jafnvel Gullfoss? Hæstv. iðnrh. hristir höfuðið en það eru ekki nema kannski þrjú ár síðan hæstv. iðnrh. hefði hrist höfuðið varðandi Norðlingaölduveitu og Þjórsárver, hefði sagt að ekki dytti nokkrum manni það í hug, og menn hristu bara hausinn yfir því að það ætti að fara að skurka þar. Þannig er bara staðan og hlutirnir breytast. Og það er möguleiki að taka vatn af vatnasvæði Dettifoss yfir í þetta nýja verkefni ef mönnum sýnist svo. Það var kallaður langstærsti draumurinn og byggði á stíflu þar norður frá. Ef peningasjónarmiðin eiga að ganga og stóru dæmin að ganga upp svífst það fólk einskis sem leggur slíkt mat á hlutina, það bara heldur áfram. Samkvæmt því sem búið er að segja í dag lítur út fyrir að það verði stöðugur barningur fyrir því hvernig eigi að fara í næsta skref.

Um þessa heimild til samninga um álverksmiðju í Reyðarfirði er hér mikið frv., þar er fjallað um þetta 322 þús. tonna álver og staðreyndirnar um það. Þar er líka ítarefni um lóðina og hafnarmannvirkin, hvernig þau verða, t.d. varðandi höfnina kemur nú í ljós að hún á að geta rekið sig en það kemur á sveitarfélögin að borga niður stofnkostnað. Það er ítarefni um fjárfestingarsamninga, skatta og gjöld til ríkisins og um skatta til sveitarfélaganna. Síðan er farið yfir þetta ríkisaðstoðardæmi sem er búið að senda ESA til umsagnar. Það verður gaman að sjá hvað kemur út úr því vegna þess að það klingir alltaf á okkur sem viljum einhvers konar bakstuðning frá ríkinu eða framlög til atvinnuuppbyggingar að það megi ekki út af samkeppnismálum. En kannski verður það allt í lagi hér af því að ríkisstjórnin hefur áhuga á því og mun keyra það fram. Það er nú svoleiðis úti í Evrópu að ef ríkisstjórnirnar keyra mál fram af hörku virðast þau ganga betur fyrir sig en önnur mál í þessu stóra kerfi. Það er líka ítarefni um rafmagnssamninginn frá væntanlegri Kárahnjúkavirkjun.

Ég er fulltrúi í iðnn. fyrir Vinstri hreyfinguna -- grænt framboð og ég hlakka til að funda um þessi mál og fara ítarlega ofan í þetta frv. á milli umræðna en læt máli mínu lokið hér, virðulegi forseti.