Álverksmiðja í Reyðarfirði

Þriðjudaginn 28. janúar 2003, kl. 21:42:27 (3130)

2003-01-28 21:42:27# 128. lþ. 66.10 fundur 509. mál: #A álverksmiðja í Reyðarfirði# frv., iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 128. lþ.

[21:42]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að lengja umræðuna en mér fannst ástæða til að segja hérna nokkur orð. Mér finnst hv. þm., sem býr á Akranesi, búinn að gleyma því að það er ekki langt síðan, ekki mörg ár síðan, að farið var í stórframkvæmdir í heimabyggð hans, liggur mér við að segja. Þá er ég bæði að tala um Norðurál í Hvalfirði og Hvalfjarðargöng. Það var ekki sjaldan sem við þingmenn á norðausturhorninu fengum spurningar um hvers vegna ekki væri gripið til aðgerða þar til að bregðast við þessari ógurlegu þenslu á suðvesturhorninu og uppbyggingunni þar. Fyrir norðan líta menn ekki á Hvalfjörðinn mjög mikið á landsbyggðinni. En ég vil nú halda því til haga að að sjálfsögðu hafa þær framkvæmdir og uppbygging gífurleg áhrif langt upp í Borgarfjörð og jafnvel vestur á Snæfellsnes.

Þannig er að við fáum tækifæri upp í hendurnar í sambandi við fjárfestingar og ýmsar framkvæmdir sem varða samgöngumál og við hljótum að bregðast jákvætt við þeim og reyna að koma til framkvæmda þó að við gerum okkur grein fyrir því að þær hafi ekki jafnmikil áhrif um allt land og kannski engin áhrif um stóran hluta landsins.

Ég er ekki að gera lítið úr því að framkvæmdirnar fyrir austan eru stórar. Það þarf að horfa til ákveðinna landsvæða í framhaldi af þeim ákvörðunum. En við megum heldur ekki gleyma því að þarna átti sér stað alveg stórkostleg uppbygging.