Álverksmiðja í Reyðarfirði

Þriðjudaginn 28. janúar 2003, kl. 22:27:07 (3133)

2003-01-28 22:27:07# 128. lþ. 66.10 fundur 509. mál: #A álverksmiðja í Reyðarfirði# frv., GuðjG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 128. lþ.

[22:27]

Guðjón Guðmundsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. sagði eitthvað á þá leið í sinni löngu og ítarlegu ræðu að flokkur hv. þm. Péturs H. Blöndals, sem jafnframt er flokkurinn minn, vildi einkavæða sem mest í opinberri þjónustu. Hann nefndi í því sambandi skóla, heilbrigðisstofnanir, vatnsveitur og eitthvað fleira, og sagði jafnframt að það væru fjárglæframenn sem gerðu sér þetta að féþúfu.

Nú vil ég spyrja hv. þingmann: Hvaða fjárglæframenn eru það sem gera sér að féþúfu rekstur skóla, heilbrigðisstofnana, vatnsveitna og annarrar þjónustu sem hann nefndi hér áðan? Ég óska skýringa á því.