Álverksmiðja í Reyðarfirði

Þriðjudaginn 28. janúar 2003, kl. 22:52:58 (3143)

2003-01-28 22:52:58# 128. lþ. 66.10 fundur 509. mál: #A álverksmiðja í Reyðarfirði# frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 128. lþ.

[22:52]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Varðandi framleiðslu rafmagns með vatnsafli þá er það svo að í heitum vötnum á sér yfirleitt stað svo mikil rotnun, þ.e. aukin rotnun í uppistöðulónum, að koldíoxíðmengunin verður meiri en við að brenna kolum og olíu. Það er eingöngu í köldum vötnum sem ekki verður koldíoxíðmengun, þ.e. nyrst í Rússlandi, Alaska, Íslandi og kannski syðst í Suður-Ameríku.

Því er haldið fram að við berum ekki ábyrgð af því að við séum svo lítil. Ég heyri nú ekki annað en að menn séu að tala um óskaplega stóra virkjun. Ég hef heyrt að hún sé bara nokkuð stór á alþjóðlegan mælikvarða. (Gripið fram í.) Þannig gæti hver og einn einasti sagt um öll lönd: Við erum bara dropi í hafið, við þurfum ekki að gera neitt. Með þessum rökum yrði ekki virkjað neins staðar með vatnsafli því að hver einasta virkjun er þá dropi í hafið. Það eru kannski kjarnorkuver sem eru ekki dropi í hafið en ég er hræddur um að hv. þm. vilji þau ekki.

Varðandi ósnortnu víðernin þá hugsa ég að ferðamenn mengi ekki minna en stóriðja. Þeim fylgja rútur og vegir, affall frá manninum, heilmikil sjónmengun, hávaðamengun, flugvélar o.s.frv. Ferðaþjónustunni fylgir líka átroðsla á þessum litlu perlum okkar sem eru löngu komnar í hættu vegna ferðamanna. Ekki vegna álvera, virkjuna eða slíks. Ef skilgreiningin er 5 km fjarlægð þá held ég að það sé nú ekki mikið sem þessar virkjanir eða þessi lón skerða af ósnortnum víðernum ef strax 5 km í burtu er komið á ósnortin víðerni.